20.02.1925
Efri deild: 10. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (465)

13. mál, smjörlíki

Sigurður Eggerz:

Jeg vona, að háttv. deild láti nefnd athuga mál þetta. — Eins og hv. þm. mun kunnugt, var bannað með lögum 1923 að nota sömu tæki til smjör og smjörlíkisgerðar. Álít jeg því varasamt að heimila nú að blanda þessu saman aftur, eins og frv. þetta gerir. Fyrir smjörbúin er freistingin mikil til að drýgja mjöðinn með lakari efnum, og það gæti haft óþægilegar afleiðingar fyrir orðstír smjörmarkaðarins út í frá. Hitt væri í lófa lagið, að smjörbú það, sem hjer er um að ræða, flytti tæki sín til smjörlíkisgerðar t. d. til Eyrarbakka. Þar eru vitanlega langtum betri söluskilyrði en uppi til sveita, og þá betri framleiðsluskilyrði jafnframt. Hjer er um hreint stefnuatriði að ræða, sem ekki má hrapa að. Jeg vildi því mælast til, að hv. landbn. kynti sjer mál þetta vel og vandlega, áður en hún kveður upp sinn dóm um það. Ekki veldur sá, er varar.