16.03.1925
Efri deild: 31. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í B-deild Alþingistíðinda. (472)

13. mál, smjörlíki

Frsm. (Eggert Pálsson):

Þó jeg hafi tekið að mjer framsögu í þessu máli, er því þannig varið, að það þarf ekki langrar ræðu við. Málið er svo skýrt, að engra frekari skýringa er þörf en þeirra, sem standa í greinargerð frv. sjálfs. Þar er alt það tekið fram, sem með þarf til að skýra tilgang frv. og nauðsyn þess.

Þessu máli er svo varið, að árið 1923 veitti Alþingi í fjárlögum Áslækjarrjómabúi í Hrunamannahreppi 5 þús. kr. lán úr viðlagasjóði til þess að standast kostnað af kaupum á tækjum til smjörlíkisgerðar í sambandi við smjörgerð búsins. En litlu síðar á því sama ári samþykti þingið lög, sem banna tilbúning á smjörlíki á sama stað og af sama fyrirtæki, sem framleiði smjör. Þingið er þarna komið í mótsögn við sjálft sig, mótsögn, sem því ber skylda til að leiðrjetta á einhvern hátt. Það er augljóst, að það er ekki rjett, að þingið veiti lán til að kaupa fyrir áhöld til þess að framleiða með vöru, sem það svo bannar að búa til. Eigi þetta bann að haldast áfram, verður þingið að sjálfsögðu að bæta viðkomandi fyrirtæki þann halla, sem af banninu leiðir, t. d. með því að gefa eftir þetta lán að einhverju eða öllu leyti. Þess vegna var og farið fram á uppgjöf á láninu við þingið í fyrra, en það neitaði að verða við þeim tilmælum. En vegna þess, að þingið í fyrra tók þessa stefnu, þá er nú reynt að fara þessa leið, að veita Áslækjarrjómabúinu undanþágu frá lögum nr. 38, 20. júní 1923, og lofa því að halda áfram þessari smjörlíkisgerð, sem aldrei hefir mikil verið, og verður vart meiri eftirleiðis. Framleiðslan hefir mestmegnis verið miðuð við notkun og sölu innanhjeraðs aðeins. Nefndin leit þess vegna svo á, að rjett væri að samþykkja frv., svo þessi undanþága yrði veitt Áslækjarrjómabúinu, en hinsvegar sá nefndin ekki ástæðu til, að undanþágan væri um ótakmarkaðan tíma eða eins óákveðin og frv. leggur til. Nefndin hefir því orðið ásátt um að gera till. um að breyta frv. í þá átt, að undanþágan eða framleiðsluleyfið verði ekki ótakmarkað, heldur skuli miða það við ákveðið árabil, og ekki lengra en þurfi til að endurgreiða lánið. Hversu lengi þetta leyfi þá muni standa, er auðvitað ákveðið með skuldabrjefi því, sem gefið hefir verið út fyrir láninu. Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál, en vænti þess, að háttv. deild samþykki frv. með þeirri breytingu, sem nefndin hefir stungið upp á og er á þskj. 167. En samkvæmt þeirri breytingu gildir undanþágan ekki fyrir önnur lík fyrirtæki en þau, sem fengið hafa lán á sama hátt til þessarar framleiðslu, og er þá vitanlega ekki um að ræða nema þetta eina rjómabú, Áslækjarrjómabúið. Hinsvegar getur vel verið, að einhver önnur rjómabú hafi einnig búið til smjörlíki án þess að fá slík lán til þess, og gildir þá þessi undanþága ekki fyrir þau, er frv. er samþykt eins og nefndin leggur til. Annars gæti þetta ef til vill náð til fleiri rjómabúa, ef frumvarpsgreinin væri orðuð svo sem hún er nú.