16.03.1925
Efri deild: 31. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

13. mál, smjörlíki

Atvinnumálaráðherra (MG); Jeg get tekið það fram, að jeg hefi í sjálfu sjer ekkert að athuga við brtt. nefndarinnar, en jeg geng út frá, að hún hafi ekki neina „praktiska“ þýðingu, og standi því á sama, hvort verði samþykt, hún eða frv. Því að þótt nefndin geri ráð fyrir, að til kunni að vera einhver önnur rjómabú, sem líkt standi á um, þá veit jeg ekki til þess. Jeg get vel gengið inn á breytingu nefndarinnar að því leyti, að leyfið standi ekki lengur en t. d. 15–20 ár, því að lánið mun vera veitt til þess tíma. Við búum yfir höfuð ekki til lög til lengri tíma en svo, og ættu hlutaðeigendur vel að geta verið ánægðir með þetta tímatakmark. Mjer þykir vænt um, að nefndin hefir viljað veita rjómabúi Hrunamannahrepps þessa undanþágu, þar sem eigendur þess hafa orðið fyrir sýnilegum órjetti, með því að þeim er fyrst veitt lán til ákveðins atvinnurekstrar, en um sama leyti og lánið er veitt er þessi sami atvinnurekstur bannaður.

Jeg skal ekki rengja upptalningu hv. 1. landsk. (SE) á löndum, sem banni að framleiða saman smjör og smjörlíki, en hann gleymdi einu landinu, og það er Ísland, því að það er ekki rjett, sem hann er að gefa í skyn, að það eigi ekki að vera í lögum hjer að banna slíkt. Hjer er aðeins um mjög lítilfjörlega undantekningu að ræða frá reglunni. Og hefði hv. 1. landsk. (SE) ætlað sjer að sanna nokkuð með upptalningu allra þessara landa, þá hefði það átt að vera það, að hvergi væru undanþágur veittar, en um það gat hv. þm. ekkert, enda geng jeg út frá, að hann viti ekkert um það.

Aðalatriðið í mínum augum er að sýna sanngirni í þessu máli, og þá er ekki um aðra leið að gera en þá, sem ráðgerð er í frv., því að síðasta þing var beðið um uppgjöf lánsins, en neitaði, og því er ekki að vænta, að sú uppgjöf fáist fremur nú, þótt eftir yrði leitað í annað sinn. Þá get jeg heldur ekki sjeð, að þetta geti haft svo mikla þýðingu fyrir smjörmarkað okkar erlendis. Jeg get t. d. ekki skilið, að það verði talið sem heimsviðburður, þótt Áslækjarrjómabú framleiði eitthvað lítið eitt af smjörlíki, enda er allótrúlegt, að farið yrði að „agitera“ gegn íslensku smjöri erlendis af þeim ástæðum. Þeir verða sjálfir að fá að ráða, hversu þeir haga smjörlíkisgerðinni hjá sjer, ekki síst er þeir framleiða það nær eingöngu handa sjálfum sjer, til þess að geta flutt út þess meira smjör, en reka enga verslun með smjörlíkið. Þess vegna verður ekki sjeð, að ísl. smjörmarkaði erlendis geti stafað nokkur hætta af þessari undanþágu.