16.03.1925
Efri deild: 31. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1218 í B-deild Alþingistíðinda. (476)

13. mál, smjörlíki

Frsm. (Eggert Pálsson):

Hv. 1. landsk. beindi nokkrum ásökunum að nefndinni fyrir það, að hún hefði ekki leitað álits og umsagnar sjerfróðra manna í smjör- og smjörlíkisgerð. En jeg sje enga ástæðu til þess að beina slíkum ásökunum á hendur nefndarinnar, þar sem nefndinni datt ekki í hug að raska að neinu leyti grundvelli þeirra laga, sem um þetta gilda. Hefði svo verið, hefði verið sjálfsagt að leita álits sjerfróðra manna.

Fyrir nefndinni vakti ekkert annað en að reyna að leysa þetta spursmál, þar sem hvað rekst á annað. Og þó að umrædd undanþága yrði gefin, þá er það engin röskun á grundvallaratriðum laga nr. 38, enda lítur ekki út fyrir annað en þingið álíti þessi lög á rjettum rökum bygð.

Háttv. 1. landsk. lagði fram skýrslu frá sjerfróðum mönnum um það, að þannig væri þessu hagað í öllum menningarlöndum, að smjör- og smjörlíkisgerð væri ekki látin fara saman, og fór mörgum orðum um það, hve stórhættulegt það gæti orðið fyrir markað íslensks smjörs, ef sömu reglu væri ekki að öllu leyti fylgt hjer. En álíta verður, að ef þessi undanþága gæti orðið hættuleg smjörmarkaðinum yfirleitt, að þá mundi hún og verða hættulegust þessu smjörbúi sjálfu, þar sem það hætti þá að fá markað fyrir sitt smjör. Nú er það vitanlegt, að smjörframleiðslan er stórum arðvænlegri en smjörlíkisgerðin, og liggur þá í augum uppi, að smjörlíkisgerðinni mundi þegar verða hætt hjá þessu búi, er það kæmi í ljós, að hinni arðvænlegri framleiðslu væri hætta búin af henni. Þess vegna er engin hætta á ferð, eins og líka er gerð grein fyrir í nál.

Hv. 1. landsk. þm. kvaðst heldur leggja það til, að lánið yrði gefið upp en þessi leið væri farin. Jeg efast mjög um, að byrlegar blási fyrir því máli en á síðasta þingi, og jeg efast einnig um, að hv. þingmenn geti þannig greitt atkv. ofan í sjálfa sig, því að ástæður hafa naumast breyst svo síðan í fyrra.

Viðvíkjandi því að taka málið út af dagskrá og bera það undir fjárveitinganefnd, þá er mjer það alveg sama. En hinsvegar er það engan veginn víst, að þingið fjellist á tillögur hennar, þótt hún fyrir sitt leyti vildi gefa lánið upp. Annars má láta málið bíða þingloka fyrir mjer. Því liggur vitanlega ekkert á. Fyrir mjer vakir ekkert annað en sanngirni; þar er um enga eiginhagsmuni að ræða frá minni hálfu. Og gæti það stuðlað að því, að heppilegri lausn fengist í þessu efni en sú, sem gert er ráð fyrir í frv., þá er jeg fús til þess að taka málið af dagskrá.