16.03.1925
Efri deild: 31. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1220 í B-deild Alþingistíðinda. (477)

13. mál, smjörlíki

Sigurður Eggerz:

Mjer heyrist á hv. frsm. (EP) og öðrum þm., að þeir telji það óheppilegt, að jeg hefi viljað slá því föstu, að varhugavert væri, að smjörlíkisgerð og smjörbú störfuðu í sameiningu. Þeir hafi enga rödd heyrt um það.

Jeg tel það rjett í þessu máli, sem byggja má á reynslu annara landa og sem sjá má af löggjöf vorri. Og ef það skyldi nú reynast svo, að það væri hættulegt smjörmarkaði vorum að gera slíkar undanþágur, er þá ekki harla lítilmótlegt af þinginu að hætta á slíkt fyrir einar 5000 kr. ? Fyrir 5000 kr. á að setja markaðinn í hættu! Jeg verð að segja, að í þessu sambandi eru 5000 kr. hjegómi — ekkert annað.

Þótt þessi eftirgjöf gengi ekki fram á síðasta þingi, er ekki að marka það. Menn vissu ekki um málið þá. Þeir kunna að hafa áttað sig síðan. Jeg hefi t. d. átt tal við þm. úr Nd., og þeir sögðust álíta mjög athugavert, að þessi undanþága næði fram að ganga.

Hvað myndu sjávarútvegsmenn segja, ef eitthvað væri gert til að skemma markaðinn fyrir þeim? Jeg er hræddur um, að þá mundi heyrast hljóð úr horni, og varla mundu 5000 kr. þykja vega mikið þá. Hæstv. atvrh. ætti að gæta þess til samanburðar, og varla er þetta mál þannig vaxið, að ástæða sje til að gera háð að því.

Eitt aðalatriði fyrir oss verður jafnan það að útvega vörum vorum markað. Og þó langt sje frá oss til annara landa, þá er það þó ekki svo langt, að ekki myndi frjettast, ef brotnar væru grundvallarreglur um trygging vörugæða. Hvort mundi ekki fljótlega frjettast til Englands, ef Danir gerðu annað eins!

Háttv. frsm. sagði, að það mundi sýna sig, að búið hætti við smjörlíkisframleiðslu, ef það sýndi sig, að hún spilti fyrir smjörsölu þess. En þess gleymist að gæta, að þetta gæti spilt fyrir sölu á öllu ísl. smjöri, ef til útlanda bærist. Svo mikillar varúðar er sumstaðar gætt um þessa hluti, að bannað er að selja hvorttveggja í sömu búðum, til þess að girða fyrir þá hættu, að saman sje blandað.

Viðvíkjandi því, er hv. 5. landsk. (JJ) sagði, að taka málið út af dagskrá, þá hefi jeg ekkert við það að athuga. Það mætti gjarnan ganga til fjhn. og bíða þingloka.

Jeg get að lokum ekki annað en endurtekið það, að ef stofna á markaðinum í hættu fyrir einar 5000 kr., þá er misviturlega ráðið. Og jeg hefi leitt að því rök, — ekkert annað en rök, að með því að hafa smjörlíkisgerðina og smjörbúið saman er markaðinum stofnað í hættu.