16.03.1925
Efri deild: 31. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

13. mál, smjörlíki

Frsm. (Eggert Pálsson):

Hv. 1. landsk. (SE) er altaf að hamra á þessu, að ekki megi brjóta grundvallarreglur laganna. Hann virðist ekki geta skilið, að hjer er að ræða um undanþágu fyrir eitt sjerstakt bú, sem var búið að fá leyfi þings og stjórnar til þess að starfa á þennan hátt, með því að fá lán til áhaldakaupanna. Og hvaða sanngirni er svo í því að banna búinu að nota áhöldin, og neita því jafnframt um eftirgjöf lánsins?

Háttv. þm. gerði mikið úr þeirri hættu, sem af þessu gæti leitt fyrir ísl. smjörmarkaðinn erlendis. Jeg get ekki skilið þessa hættu. Jeg get ekki skilið, að þetta bú færi að blanda saman smjöri og smjörlíki og gera sig þar með sekt í stórkostlegri óráðvendni í viðskiftum. Og enda þótt svo yrði gert, þá er hættan mest fyrir það sjálft, en ekki aðra. Alt útflutt smjör er nákvæmlega merkt frá hverju búi fyrir sig, og mundi það því fljótt sýna sig, ef smjör þessa bús væri verra en annara, og það þá ekki seljast. Að þessi undanþága kæmi til að spilla fyrir sölu á ísl. smjöri yfirleitt, kemur því ekki til mála.

Annað er það, að þótt skuldin væri gefin eftir, eins og hv. 1. landsk. vill vera láta, þá eru þó áhöldin kyr eftir, og hv. þm. hefir þá enga trygging fyrir því, að þau verði ekki notuð áfram. Jeg er ekki að væna hreppsmenn um slíka óráðvendni; en mjer finst, að háttv. þm., sem gerir ráð fyrir að hreppsmenn muni leika sjer að því að blanda smjöri og smjörlíki saman og selja sem smjör, geti búist við því, að þeir hjeldu áfram að nota áhöldin til smjörlíkisgerðar, þótt þeim væri gefið eftir lánið. Möguleikinn til þeirrar óráðvendni er ekki síður til heldur en hinnar, sem háttv. þm. hefir gert ráð fyrir, að hreppsmenn mundu beita, ef frv. yrði samþykt.

Viðvíkjandi því að fresta 3. umr. málsins, hefi jeg, eins og jeg áður tók fram, ekkert á móti.