16.03.1925
Efri deild: 31. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1224 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

13. mál, smjörlíki

Sigurður Jónsson:

Jeg hefi ekki mikið um þetta mál að segja. Sú till., að fresta þessu máli, hefir ekki sætt neinni mótspyrnu í hv. deild, en út af því vil jeg taka það fram, að ef á að draga afgreiðslu þessa máls fram í þinglok, þá þykir mjer eins líklegt, að það komist alls ekki fram.

Viðvíkjandi því, sem hv. 1. landsk. (SE) sagði, að gallar á smjöri frá einu búi yrðu skrifaðir á reikning íslenska smjörsins yfirleitt, þá ber þetta aðeins vott um, að hann er algerlega ókunnugur starfstilhögun í samvinnufjelögunum. Vörur frá hverju búi eru auðvitað merktar sjerstaklega, og því skellur þetta á þeim, sem smjörið senda. Að það hafi áhrif á heildina, er helber ímyndun hjá hv. þm. (SE).

Að lokum vil jeg vona, að háttv. deild greiði atkvæði um málið nú strax og samþykki till. nefndarinnar, því eins og jeg áður tók fram, er ekki sjeð, hvernig um málið kann að fara, ef draga á það fram í þinglok.