20.03.1925
Efri deild: 35. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í B-deild Alþingistíðinda. (487)

13. mál, smjörlíki

Sigurður Eggerz:

Mig furðar satt að segja á þeim litla skilningi á þessu máli, sem liggur í svari hv. fjvn. Því þetta er ekkert smámál, sem hjer er um að ræða, þó að það hafi verið látið í veðri vaka hjer. Það er ekkert hjegómamál, þegar um það er að ræða, hvort veita eigi einu rjómabúi einkaleyfi í 20 ár til þess að skemma og eyðileggja íslenskan smjörmarkað. Jeg hefi áður sýnt fram á það, að um 30 menningarríki fordæma aðferð sem þessa, og jeg hefi einnig sýnt fram á, að allir þeir menn hjer, sem mest skyn bera á þessa hluti, fordæma þetta sömuleiðis, og öll löggjöf er mótuð af því gagnstæða. Og þó vilja fjvn. fremur taka þann kostinn, að leggja smjörmarkaðinn í hættu, fremur en gefa eftir 5000 kr. Og ennþá furðanlegra er það, að hv. landbn., sem er þannig skipuð, að ætla mætti, að hún sjerstaklega væri vörður landbúnaðarins, skuli sýna jafnmikla ljettúð eins og hún gerir í þessu máli. Hefði fiskmarkaður vor átt hjer hlut að máli, þá myndi annað hljóð hafa komið í strokkinn, sem betur fer. Svo mikinn skilning hafa menn á síðari tímum öðlast á því, hve mikilsvert það er að forða fiskmarkaðinum frá öllu, sem orðið getur honum til skemda; svo mikinn skilning, að menn myndu ekki vilja fórna honum fyrir einar 5000 kr. Þetta er „princip“ -mál, sem menn ættu að hugsa sig tvisvar um áður en þeir taka afstöðu til þess. Og jeg skýt því til hæstv. forseta (HSteins), að hann láti fara fram nafnakall um málið, svo hægt verði síðar meir að sjá, hvaða hv. þm. það eru, sem tóku þátt í þessu flani.