20.03.1925
Efri deild: 35. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í B-deild Alþingistíðinda. (489)

13. mál, smjörlíki

Frsm. (Eggert Pálsson):

Jeg bjóst ekki við, að hv. 1. landsk. (SE) tæki enn upp öll sömu orðin, sem hann hefir áður haft í þessu máli. Hann þykist sjá betur, hvað landbúnaðinum sje fyrir bestu en við, sem eigum sæti í landbn. og höfum allir verið bændur og verðum að teljast fylstu vinir bændastjettarinnar. Háttv. þm. heldur því fram, að þessi undanþága, sem hjer um ræðir, leiði til eyðileggingar á íslenskum smjörmarkaði. Hann gætir þess ekki, að hvert smjörbú hefir sitt sjerstaka merki, sem ekki verður vilst á, svo það kemur niður á því, og því einu, ef varan reynist illa. Ef smjörið frá Áslækjarrjómabúinu yrði blandað með smjörlíki eða líkaði að einhverju leyti illa, þá verður það til þess, að það hættir að seljast, en það leiðir svo að sjálfsögðu til þess, að búið hættir að framleiða slíkt smjör. Verði reyndin hinsvegar sú, að smjör frá Áslækjarbúinu verði, þrátt fyrir undanþágu þessa, 1. flokks vara, þá er vitanlega hættan sú fyrir dyrum, að það verði fordæmi fyrir önnur bú að heimta sömu rjettindi. Og væru slík rjettindi veitt fleiri búum, eða lög nr. 38, 20. júní 1923, alveg afnumin, þá væri það skiljanlegt, að þeir, sem bera fyrir brjósti hag þeirra smjörlíkisverksmiðja, sem nú eru til, yrðu á nálum. En meðan þetta litla bú er eitt um þessa undanþágu, er lítil hætta á slíku.

F. h. landbn. leyfi jeg mjer að vísa á bug öllum ásökunum, sem hv. 1. landsk. (SE) ljet falla í hennar garð. Hv. þm. er áreiðanlega ekki einn um það að bera hag landbúnaðarins fyrir brjósti, og allra síst að hann geri það frekar eða heitar en þeir menn, sem sæti eiga í landbn.