20.03.1925
Efri deild: 35. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (491)

13. mál, smjörlíki

Fjármálaráðherra (JÞ):

Hæstv. atvrh. (MG) er bundinn við umr. í hv. Nd., og vil jeg því segja fyrir hans hönd þau fáu orð, að hv. 1. landsk. (SE) gerir alt of mikið úr þessari lítilfjörlegu undanþágu, sem hjer er ekki verið að veita, heldur að heimila.

Jeg þykist vita, að það muni hafa komið fram við fyrri umr. þessa máls, að þetta er ekkert annað en það, að ríkið vill efna lítið loforð, sem búið var að gefa áður en núgildandi löggjöf um smjörlíki var sett. Ríkið var á formlegan hátt búið að leyfa það, að þetta eina rjómabú mætti búa til smjörlíki, og það er sjálfsagt yfirsjón, þegar þessi löggjöf var gefin, að ekki skyldi þá um leið sett í hana, að ríkið skyldi standa við áðurgefið loforð gagnvart þessu rjómabúi.

Jeg skil ekki í því, að þessi undanþáguheimild verði misnotuð á nokkurn hátt, enda gefur að skilja, að það ráðuneyti, sem veitt er heimild til að gefa undanþágur, getur þá sett skilyrði fyrir því, að undanþágan verði ekki misnotuð. Það er hægt að benda á, hverjar ráðstafanir mætti gera til þess. Það væri hægt að setja framleiðslu af útflutningssmjöri frá þessu rjómabúi undir sjerstakt eftirlit, til þess að tryggja það, að þaðan væri ekki flutt út smjör, sem væri smjörlíki blandað. Það er ofurljett að framkvæma þetta, þar sem þetta rjómabú sendir ekki til útlanda nema sárfáar sendingar á ári, og auðgert að taka sýnishorn af hverri sendingu, ef mönnum þykir þörf á því.

Jeg held, að jeg megi fullyrða, að við, þrátt fyrir þessa undanþáguheimild, höldum áfram að vera í tölu þeirra 30 ríkja, sem hv. 1. landsk. (SE) nefndi, að sniðið hefðu löggjöf sína eins og við, og að við föllumst á skoðanir sjerfræðinga þeirra, sem halda því fram, að ekki sje rjett, að þessum tveim framleiðslugreinum sje blandað saman. En mjer finst það óþarft, að ríkið fari að gera sig sekt um brigðmælgi við einn einstakling fyrir þessa breytingu á löggjöfinni.