25.03.1925
Neðri deild: 42. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (496)

13. mál, smjörlíki

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg get verið þakklátur hv. nefnd fyrir að vilja samþykkja frv. með áorðnum breytingum. Því jeg er þess fullviss, að ef farið yrði á ný að breyta frv., þá gæti það orðið hættulegt fyrir framgang málsins.

Út af fyrirspurn hv. þm. Str. (TrÞ) get jeg lýst yfir því, að málið hefir ekki verið borið undir Búnaðarfjelagið. En sá maður, sem mestan hlut hefir átt að þessu máli, mun hafa átt tal um það við búnaðarmálastjóra. Annars sje jeg ekki, að þetta mál snerti Búnaðarfjelagið mikið. Frv. er borið fram til að ráða bót á því ranglæti, er Áslækjarrjómabúið hefir orðið fyrir af þinginu, sem veitti því lán til að kaupa vjelar til smjörlíkisframleiðslu, og bannar því skömmu síðar að nota þær. Það er heldur engin þörf að setja þetta mál í samband við ostagerð eða smjörbúin alment, því umrætt bú mun aðeins hafa í hyggju að framleiða smjörlíki til heimanotkunar, svo þeir bændur, sem hlut eiga að máli, geti selt meira smjör. Þeir eru búnir að leggja mikið fje í vjelar til þess, en þær yrðu þeim verðlitlar, ef þeir fengju ekki að nota þær á tilætlaðan hátt.

Út af tímatakmörkuninni, sem hv. Ed. hefir sett inn í frv., þá get jeg sagt það, að jeg tel hana ekki til bóta, þó jeg hinsvegar geti vel gengið inn á hana, enda eru venjulega ekki sett lög, er standa lengur en 10–15 ár. — Að lokum vona jeg, að ekki verði tafið lengi fyrir þessu frv., því yfirleitt gengur nú afgreiðsla mála heldur seint.