25.03.1925
Neðri deild: 42. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1247 í B-deild Alþingistíðinda. (504)

13. mál, smjörlíki

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg bjóst alls ekki við að þurfa að tala enn í máli þessu, allra síst þrisvar sinnum, eins og nú er komið á daginn.

Jeg verð að játa, að mjer þykir leitt og jeg skil ekki, hvers vegna hæstv. atvrh. (MG) og hv. nefnd geta ekki orðið við hinni sanngjörnu beiðni Búnaðarfjelagsins að fá málið til umsagnar, og það því fremur, þegar jeg hefi lýst yfir því, að jeg skuli ábyrgjast, að þetta skuli ekki tefja mikið fyrir málinu.

Því til sönnunar, að jeg fari ekki fram á þetta af illvilja til frv., skal jeg geta þess, að enda þótt neitað verði að taka málið af dagskrá að þessu sinni, þá mun jeg samt ekki greiða atkv. á móti frv.

Jeg þykist vita, að hæstv. atvrh. (MG) hermi rjett frá því, að jeg hafi verið á móti því í fyrra að gefa Áslækjarrjómabúinu eftir viðlagasjóðslánið, og í samræmi við það er jeg nú samþykkur þeirri hugsun hæstv. ráðh. (MG) að rjetta hag þeirra manna, sem hjer eiga hlut að máli, á einhvern hátt; ef ekki á annan hátt, þá þann, sem frv. gerir ráð fyrir.

Hæstv. atvrh. (MG) sagði, að annar maður úr stjórn Búnaðarfjelagsins, skrifstofustjórinn í atvinnumálaráðuneytinu, væri sömu skoðunar á máli þessu sem jeg, vildi sem sje láta frv. þetta ná fram að ganga, eftir atvikum. Jeg efa ekki, að þetta er rjett hermt, en það ætti miklu fremur að hvetja hv. fylgjendur frv. til þess að leyfa Búnaðarfjelagsstjórninni að fjalla um málið.

Annars skal jeg geta þess, eins og hæstv. atvrh. er kunnugt, að þegar stjórn Búnaðarfjelagsins fær eitthvert mál til umsagnar, þá lætur hún ekki einungis í ljós álit stjórnarnefndarmannanna, heldur ber hún málið einnig undir sjerfræðinga þá, sem vinna í þjónustu fjelagsins.

Það er rjett, sem hv. frsm. (HStef) sagði, að þessar óskir Búnaðarfjelagsins hefðu getað komið fyr, enda hefi jeg áður viðurkent þetta. En annir mínar hjer á þingi — og ýms önnur atvik — hafa valdið því, að svo varð ekki. En þá hefði landbúnaðarnefnd átt að taka þetta upp hjá sjálfri sjer.

Ef hv. nefnd og hæstv. atvrh. (MG) geta ekki orðið við þeim tilmælum að taka málið af dagskrá í dag, þá vil jeg að lokum vænta þess, að hæstv. forseti sjái sjer fært að gera annað tveggja, að taka málið af dagskrá upp á eigið eindæmi, eða a. m. k. bera það undir hv. deild, hvort svo skuli gert.

Þessari beiðni fylgir loforð mitt um, að málið skuli ekki tafið lengi hjá stjórn Búnaðarfjelagsins.