27.03.1925
Neðri deild: 44. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

1. mál, fjárlög 1926

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg get ekki stilt mig um, áður en jeg vík að brtt. þeim, sem jeg flyt, að víkja fáum orðum að fjárhagsástæðum landsins yfirleitt.

Þegar litið er á tekjurnar, sjest fljótlega, hverskonar þær eru. Þær eru tollar og skattar, sem fengnir eru með tollálögum. Um aðrar tekjur er það að segja, að þær eru svo smáar, að þær nema litlu, þegar á tekjur landsins er litið í heild. Það er því augljóst, að þær byggjast á því, hvernig atvinnuvegunum vegnar.

Eins og kunnugt er, eru atvinnuvegirnir aðallega tveir hjá oss. Aðrar atvinnugreinir eru svo lítilfjörlegar, að þeirra gætir lítið, og það sem þær eru, þá byggjast þær að heita má á þessum 2 atvinnuvegum. En því fábreyttari sem þeir eru, því hættara er við, að tekjurnar minki, ef nokkuð ber út af og óhöpp vilja til. Þetta er augljóst, og hitt ekki síður, að þar sem skuldabyrðin er orðin allmikil, þá er því meiri nauðsyn að fara varlega.

Það var dómur þjóðarinnar um síðasta þing, að það hefði farið varlega í fjármálum. Og jeg hygg, að sú stefna ráði enn. Jeg hefi að vísu heyrt, að sumum fyndist ekki eins mikil þörf aðgæslu sem í fyrra. Ekki ætla jeg, að mikið beri samt á því.

Jeg ætla, að jeg hafi sagt á síðasta þingi, að því lengur sem ýmsar athafnir yrðu látnar bíða, því fastar yrði knúið á þingið um framkvæmd þeirra er frá liði. Þetta átti að hvetja til þess að hafa athafnaleysistímann sem stystan og flýta sem mest fyrir fjárhagslegri endurreisn landsins. En þó að jeg haldi, að þessi skoðun ríki ennþá, þá kann þörfin að vera orðin meiri, og þó að eitthvað meira verði gert nú, þá bendir það ekki á, að menn vilji ekki hafa fulla aðgæslu. Og þörfin bendir á, að enn fastar verði sótt á næsta ár, en þá er einmitt nú brýn nauðsyn að borga sem mest af skuldunum. Jeg er ekki í vafa um það, að þjóðin er fús til þess að leggja á sig þunga skatta, ef hún þykist sjá, að fljótlega má með því móti komast úr ógöngunum.

Þegar litið er á gjöldin, hverskonar þau eru, kemur það í ljós, að ekki verður komist hjá að greiða þau því nær öll, sem nú eru ráðgerð. Hátt á 5. milj. kr. gengur til að launa embættis- og sýslunarmenn landsins og um 2 milj. til afborgana og rentugreiðslu.

Nú eru tekjur áætlaðar rúmar 8 milj. kr., og það sýnir, hve varlega Verður að fara. En jafnframt því, að þjóðin er fús til þess að leggja á sig þessa byrði, þá krefst hún þess einnig, að af henni sje ljett ónauðsynlegum gjöldum.

Í þessu liggur ekki það, að vilja launa starfsmönnum illa, heldur hitt, að þeir sjeu ekki of margir og óþarfir.

Það væri áríðandi, að þing og stjórn gerðu eitthvað til þess að fækka ónauðsynlegum embættum. Jeg ætlast ekki til þess, að það sje gert undirbúningslaust á þessu þingi, og það er í sjálfu sjer ekki von, að hæstv. stjórn geti að þessu sinni komið með það mál nægilega undirbúið. En á næsta þingi mætti vænta þess, að eitthvað slíkt kæmi fram.

Jeg get tekið undir orð hæstv. fjrh. (JÞ), að það sje ekki rjett, að ríkið leggi meira í framkvæmdir en nauðsynlegt er, og síst svo mikið, að það verði eins og kapphlaup við aðra atvinnuvegi, því að það leiðir til tjóns.

Jeg hygg nú ekki, að hv. Alþingi verði svo örlátt á fje, að til slíks kapphlaups komi. Og mig langar til að drepa á það í þessu sambandi, að það er engu ónauðsynlegra, að allir atvinnurekendur viðhafi einnig fylstu gætni. Sumarið 1919 var kapphlaupið svo mikið, að það leiddi til stórhnekkis í sumum atvinnugreinum. Þesskonar óhöpp eiga að vera viðvörun. Jeg hygg, að síður sje hægt að segja þetta um bændur. Það hefir meir borið við við sjóinn, að þær ráðstafanir hafi verið gerðar, sem ekki bera vott um æskilega varúð. Sú mikla aukning á sjávarútgerð á síðasta ári bendir því miður ekki á, að nægilegrar varúðar sje gætt. Vonandi fer alt vel, en hyggilegur er þessi mikli vöxtur útgerðarinnar ekki.

Það er víst, að þjóðarheildinni er ekki hætta búin af hinni atvinnugreininni, landbúnaðinum, því þó að útvegur sje uppgripameiri, þegar vel gengur, þá steðja oft að honum óhöpp, og hinn verður því tryggari, er til lengdar lætur. Með þessu vil jeg ekki gefa í skyn, að útvegur eigi ekki rjett á sjer. En því aðeins leiðir það til góðs, að hófs sje gætt.

Góðærið, sem var í ár og 1919, bendir til þess, að þegar velgengni er mikil. hættir mörgum við að fara ekki varlega.

Viðvíkjandi störfum fjvn. er það að segja, að till. hennar sýna, að nefndin vill viðhafa alla gætni og ekki eyða meira en bráðnauðsynlegt er. Þykist jeg þess fullviss, að mjög margir þm. muni styðja háttv. nefnd í þessu, en auðvitað er það, að menn geta ekki annað en stuðlað að því, að samþ. verði ýmiskonar fjárveitingar, er háttv. nefnd leggur til, til ýmislegra óumflýjanlegra framkvæmda.

Þá sný jeg mjer að brtt. mínum; jeg mun með atkvæði mínu sýna, hvernig jeg lít á aðrar brtt.

Jeg á brtt. á þskj. 235, við 12. gr. 13 b., sem jeg í samráði við fjvn. tek aftur til 3. umr.

Þá er brtt. á sama þskj. undir rómv. lið XVI, sem jeg flyt ásamt hæstv. forseta (BSv), sem fer fram á að hækka styrk til Halldórs Arnórssonar umbúðasmiðs úr 1500 kr. upp í 2000. Þessi maður hefir numið umbúðasmíði erlendis, einn hjerlendra manna, og varið til þess miklum tíma og fje. Tæki þau, sem hann þarf að nota, eru bæði mörg og dýr, því að hann verður að hafa verkfæri þriggja iðngreina, trje-, járn- og söðlasmíða. Tilkostnaður er því mjög mikill. Húsrúm hans er ófullnægjandi og þó dýrt. Hann verður að gefa sig við umbúðasmíðum, þegar þess er óskað, en það er ekki fult starf, svo að hann verður að sinna öðrum smíðum jafnframt. Þetta veldur oft óþægindum. Hann veit ekki, hverju hann má lofa og alt verður óvissara. Hann hefir jafnvel haft við orð að leggja umbúðasmíðið niður, af því að hann biði af því stórskaða árlega. En maðurinn er vel hagur, má víst teljast einn af bestu smiðum landsins, svo að hann ætti auðvitað hægt með að fá aðra atvinnu miklu tryggari. En þeir, sem vit hafa á, telja nauðsynlegt, að hann haldi áfram; annars þyrfti að fá umbúðir frá öðrum löndum. Það hefir stundum verið reynt að láta smíða þær erlendis eftir máli, en gefist illa. Jeg hygg því fje vel varið, sem veitt verður til þess að halda þessum smíðum áfram, og vona, að hv. þm. synji ekki um þessa fjárveitingu. Það liggur í augum uppi, hve miklu væri dýrara, að hver einstaklingur, sem á umbúðum þarf að halda, yrði að sigla til þess að fá þær smíðaðar. Eftir vitnisburði lækna leysir þessi maður verk sitt mjög vel af hendi, svo að eins og á stendur finst mjer óforsvaranlegt að neita honum um styrk.

Þá á jeg brtt. á sama þskj., XV. lið, ásamt samþingismanni mínum (MT), um 10 þús. kr. fjárveitingu til Biskupstungnabrautar. Þessi braut hefir staðið í fjárlögunum síðan á henni var byrjað. Biskupstungnamenn búa í á annað hundrað km. fjarlægð frá kaupstað. Brautin er aðeins komin að Torfastöðum, en þaðan eru eftir 15–20 km. Er yfir illfærar mýrar að sækja, er skerast sundur af vondu vatnsfalli, en engin brú fyr en uppi við fjöll. Símasamband er í 20–40 km fjarlægð, og að fara í kaupstað tekur 7–8 daga. Eins og sjá má af greinargerð vegamálastjóra til fjvn., er allmikið eftir að gera af þessum vegi, svo að þessi fjárhæð nær skamt. Við sáum þó ekki fært að fara fram á hærri upphæð, vegna fjárhagsörðugleikanna. En jeg hygg þó, að ekki sje víða á landinu brýnni þörf vegar en þarna. Hæstv. atvrh. (MG) gat þess, að vegamálastjóri hefði borið fyrir sig, að búið væri að veita mikið fje í þessa sýslu, og hún yrði því að bíða svo sem 2 ár. Að vísu hefir verið veitt mikið fje, en af brýnni nauðsyn. Nú hagar svo til, að þessi sýsla hefir ekki gagn af öðrum samgöngubótum. Þó að ekki sje skemtilegt að fara í samjöfnuð um þetta atriði, má þó geta þess, að við njótum ekki neins af því, sem veitt er til samgöngubóta á sjó. Við berum þessa till. fram af knýjandi þörf sveitarinnar. Það virðist ekki óviðeigandi, að Alþingi sýni sanngirni þeim mönnum, sem í fjarlægð búa og eiga við margskonar örðugleika að stríða, ekki síst fyrir það, hve samgöngur eru illar. Bættar samgöngur mundu stuðla mjög að því, að fólkið hjeldist kyrt í sveitunum, en á því er full þörf. Jeg vænti þess, að hv. deild sjái sjer fært að samþykkja till. Þeir, sem þekkja til staðhátta, viðurkenna, að full sanngirni sje að fara fram á þessa fjárveitingu. Við höfum upphæðina ekki hærri, til þess að hv. þm. fyndu frekar hvöt hjá sjer til þess að samþykkja till. Þó að þessi upphæð þoki ekki veginum langt áleiðis, væri það betra en ekki að fá hana og sýndi þó nokkra viðleitni. Jeg skal drepa á, að vegurinn endar neðst í sveitinni, og veldur það ferðamönnum miklum kostnaði. Þeir, sem koma í bíl, verða að leigja hesta til þess að geta komist leiðar sinnar upp að Gullfossi og Geysi. Mæla þessar ástæður með því, að reynt sje að koma brautinni áleiðis sem fyrst.

Jeg ætlaði að víkja nokkrum orðum að hv. 1. þm. G.-K. (ÁF), en jeg sje, að hann er ekki viðstaddur, svo að jeg sleppi því.