17.02.1925
Efri deild: 8. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

28. mál, skráning skipa

Fjármálaráðherra (JÞ):

Ástæðan til þess, að ráðuneyti mitt tók lögin um skráning skipa til endurskoðunar, var sú, að ákvæði gildandi laga þar að lútandi hafa ekki þótt nægilega trygg til þess að þau gætu fyrirbygt það, sem þeim er ætlað að gera, að erlendir menn og aðrir, sem ekki hafa rjett til þess, geti fengið skip sín skráð hjer. Þess vegna varð að taka öll hjer að lútandi ákvæði í lögum til endurskoðunar, til þess að hægt verði að fyrirbyggja ólöglega skráningu skipa, svo nefnda „leppmensku“ á þessu sviði. Það kom brátt í ljós, að lögin öll yfir höfuð að tala mundu batna við það að verða endurskoðuð öll í heild, þar sem þau í ýmsum atriðum voru ekki nógu ákveðin eða nógu ljós. Því varð það úr, að öll lögin voru endurskoðuð, og naut ráðuneytið við það aðstoðar sjerfróðra manna. En þetta frv. lýtur aðallega að þessu eina atriði, að útiloka ólöglega skráningu, þ. e. leppmensku. Þetta er gert til verndar fiskimönnum vorum við strendur landsins, til þess að halda fiskimiðunum fyrir landsmenn sjálfa, eftir því sem lög standa til.