17.02.1925
Efri deild: 8. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

28. mál, skráning skipa

Sigurður Eggerz:

Það er kannske ekki viðfeldið að játa það um leið og jeg stend upp, að jeg hefi alls ekki lesið þetta frv. En jeg stend aðeins upp til að spyrja hæstv. fjrh. (JÞ), hvort það fyrirkomulag hafi yfirleitt gefist vel, sem nú er og hefir verið að undanförnu, að yfirstjórn skipaskráningar sje hjá stjórnarráðinu, eða hvort engrar óreglu við skipaskráning úti um land hafi orðið vart. Jeg segi þetta aðeins til að vekja athygli væntanlegrar nefndar á þessu atriði, og er langt frá mjer, að jeg vilji álasa neitt núverandi hæstv. fjrh. í þessu efni, því hann er enn ungur í stjórnarsessi.

Jeg hefi á fyrri þingum borið fram frv. um að koma þessu máli í betra horf, með því að setja á stofn sjerfræðilega skráningarstofnun. Jeg tek þetta aðeins fram til þess að spyrja, hvort stjórnin muni ekki þarfnast meiri sjerfræðilegrar aðstoðar. Erlendis tíðkast að hafa sjerfræðilegar stofnanir til þessara starfa.