02.04.1925
Neðri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í B-deild Alþingistíðinda. (535)

28. mál, skráning skipa

Jón Baldvinsson:

Jeg skrifaði undir nál. með fyrirvara. Jeg skal játa, að það er ekki neitt sjerstakt ákvæði í lögum þessum, sem jeg hefi sett fyrir mig, heldur er það þetta, sem mjer finst dálítið athugavert, að vera nú að semja upp þennan spánnýja lagabálk frá 1919, og það því fremur, sem jeg veit ekki til, að neitt það hafi komið fram, er mælt geti með slíkri breytingu. Hinsvegar er ekki á þingbekkjum það tækifæri til að brjóta til mergjar öll ákvæði í svo stórum lagabálk um þetta efni, að menn geti gengið úr skugga um, að ekki sje að einhverju leyti vikið frá því, sem telja mætti alþjóðareglur. En svo mikið er víst, að hjer mun gengið svo langt sem hægt er í þessu efni, og jafnvel lengra en aðrar Norðurlandaþjóðir gera, eins og hv. frsm. (ÁF) upplýsti. Jeg skil ekki annað en að eftir lögunum frá 1919 megi vel girða fyrir leppmensku, ef nægilega örugglega er gengið eftir af yfirvöldunum. En yfirvöldin hafa ekki nægilega stranglega gengið eftir, að þessum lögum væri hlýtt, og það er það, sem er sjerstaklega aðfinsluvert í þessu efni.

Mjer skilst líka, að með framkvæmd þessa frv. verði nokkru meira sett undir fjármálaráðuneytið heldur en áður, og geri jeg ráð fyrir, að þar komi til nýtt starf handa einum manni, að minsta kosti fyrst í stað.

Þegar hinsvegar er verið að fella úr gildi lagabálka, sem til þess eru að tryggja eftirlit með viðskiftum í landinu, t. d. lögin um mælitæki og vogaráhöld, þá sje jeg ekki ástæðu til þess nú að vera að semja þessi lög upp á ný; því mjer vitanlega hafa ekki komið neinar kvartanir fram. Hvort sem hjer er gengið lengra en gerist erlendis, þá höfum við þó annarsstaðar farið út fyrir alþjóðareglur. Jeg á við fiskiveiðalöggjöfina frá 1922. Þar er ákaflega langt seilst, og miklu lengra en flestar þjóðir hafa gert. Er ekki hægt að finna þeim lögum fyrirmynd annarsstaðar en í einu hjeraði í Noregi.

Nú má vel vera, að ekkert sje athugavert við frv. En það er það, sem jeg hefi ekki treyst mjer til að ganga úr skugga um á þeim stutta tíma, sem frv. hefir verið á ferð. En það er ekki ósjaldan, að í lögum, sem fljúga gegnum þingið, sjeu ákvæði, sem reynslan sýnir, að verða altaf til skaða. Jeg er ekki með þessu að mæla þá undan refsingu, sem kynnu að fara kringum lögin, eða mæla bót leppmensku. En jeg álít bara, að með lögunum frá 1919 megi fullkomlega halda uppi eftirliti, ef vel er á haldið.