27.03.1925
Neðri deild: 44. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í B-deild Alþingistíðinda. (54)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. samgmn. (Sveinn Ólafsson):

Jeg skal ekki hefja neinar eldhúsdagsumræður yfir hv. fjvn. eða öðrum, sem bera fram brtt. við fjárlagafrv. Að vísu get jeg sagt, að jeg er ekki jafnánægður með þær allar. en jeg hygg, að það leiði ekki til neinnar breyttrar niðurstöðu, þó að gefin sjeu olnbogaskot einstökum mönnum fyrir till. þeirra. Ef jeg fer nokkuð frekar út í till. annara, þá verður það aðeins að gefnu tilefni. Jeg get hinsvegar sagt það um allan fjöldann af till. hv. fjvn., að jeg mun geta fallist á þær, þó að jeg sjái vitanlega, að á stöku stað hafi hún numið nokkuð mikið við nögl.

Jeg skal þá víkja að tveim till., sem jeg er riðinn við í þessum kafla fjárlaganna, sem fyrir liggur. Það er fyrst og fremst 13. liður á atkvæðaskránni. Þar fer jeg fram á 2 þús. kr. fjárveitingu til Þorvarðar Helgasonar á Skriðu í Breiðdal, til þess að leita heilsubótar farlama syni hans, og til þess að gera honum kleift að nema eitthvert handverk, sem gæti orðið honum að atvinnuvegi síðar meir. Þetta erindi eða umsókn Þorvarðar barst ekki hingað fyr en eftir að fjvn. hafði lokið till. sínum og þær voru komnar fram. Gat jeg þess vegna ekki borið þetta undir hana. Í lestrarsal liggur umsóknin frammi ásamt vottorði læknisins um þennan farlama dreng og efnahagsvottorði frá hlutaðeigandi hreppsnefndaroddvita. Drengurinn er 15 ára og er máttlaus, og hefir verið frá fæðingu, alt upp að mitti, en hefir fullan handastyrk og er að öðru leyti sæmilega vel þroskaður og vel gefinn. En við rúmið hefir hann verið bundinn frá því fyrsta fyrir þessa skuld. Upphæð sú, sem hjer er nefnd, er að vísu, eftir því sem mjer skilst, alt of lág. En það er sannarlega fyrir ókunnugleika sakir hjá umsækjanda, eða hæversku, að hann nefnir ekki hærri upphæð. Jeg hefi borið erindið undir landlækni, skýrt frá málavöxtum og beðið um bendingar. Hann hefir þá að gefnu tilefni skýrt mjer frá því, að í líkum tilfellum megi með umbúðum gera svona máttvana mönnum fært að hafa nokkra fótavist og hreyfingu, og gera þá þannig vinnufæra að einhverju leyti. Hann telur líklegt, að þessar umbúðir mætti fá hjer, og hinsvegar segir hann, — eins og reyndar má öllum ljóst vera, — að hjer myndu sæmilega góð tök á því, að drengurinn gæti lært eitthvert handverk, jafnframt því sem hann kæmi til að fá þessar umbúðir. Jeg hlýt að gera ráð fyrir, að allir hv. þdm. verði fúsir til að styðja þessa ósk, því að hún er vissulega af nauðsyn fram komin. Af efnahagsvottorði Þorvarðar, er jeg hefi áður minst á, og einnig af brjefi læknisins til mín — sem er prívatbrjef — er það bersýnilegt, að maðurinn, fátæktar vegna, er ekki þess umkominn að liðsinna syni sínum. Önnur börn hans eru öll í ómegð. Hann fer frá búi á næsta ári fátæktar vegna, af því að hann getur ekki haldið búinu og jörðinni við. Hann hefir líka, að því er jeg hefi heyrt, orðið fyrir þungum veikindaáföllum í seinni tíð.

Það má vera, að jeg taki þessa till. aftur til 3. umr., ef hv. fjvn. óskar þess. Getur verið, að hún vilji athuga þessa beiðni nánar. En ef hún óskar þess ekki, geri jeg það heldur ekki.

Í bili hefi jeg svo ekki meira um þessa brtt. að segja. En jeg skal hinsvegar fyrir hönd samgmn. víkja að 20. liðnum á atkvæðaskránni. Samgmn. leggur til, að í stað 70 þús. kr. verði 83 þús. kr. veittar til flóabáta á árinu 1926. Og hún leggur til við hæstv. samgöngunálaráðherra, að á yfirstandandi ári verði einnig aukin sú lögákveðna upphæð að minsta kosti að þessu marki. Nefndin þykist hafa komist að raun um, að það sje ógerlegt að halda uppi þeim nauðsynlegustu flóaferðum með minni styrk, eða með þessum 70 þús. kr., sem ákveðnar eru fyrir yfirstandandi ár og eftir fjárlagafrv. er lagt til að verði á komandi ári. Fyrir mitt leyti get jeg sagt, að jeg álít, að þetta sje í raun og veru sá allra lægsti styrkur, sem til mála getur komið. Það hefir nú samstundis verið útbýtt áliti nefndarinnar um þetta mál, og jeg býst við, að háttv. þdm. sjeu búnir að kynna sjer það að nokkru. Nefndin lítur svo á, að þessar flóaferðir, eins og þeim hefir verið hagað undanfarið, sjeu ekki nærri hagfeldar í öllu, en hinsvegar, á sumum svæðum að minsta kosti, tiltölulega dýrar. Nefndin hyggur, að þessum ferðum mætti betur koma fyrir á þann veg, að hæfari og hraðskreiðari skip færu þær, sjerstaklega að því er kemur til bátaferða um Faxaflóa og Breiðafjörð. Að styrkur sá, sem ákveðinn er fyrir yfirstandandi ár, sje harla naumur, það er auðsætt af því, að nú þegar er búið að binda meira fje en svarar þessum 70 þús. kr. aðeins vegna ferða við Faxaflóa, Breiðafjörð, Ísafjarðardjúp og svo með suðurströndinni að Skeiðarársandi, án þess nokkuð sje eftir handa öðrum landshlutum. Það verður því ekki um það deilt, að fjárveiting sú, sem stendur í fjárlagafrv., og sú, sem ákveðin er í gildandi fjárlögum, getur alls ekki nægt.

Á þessu sama þskj. (235) liggur fyrir önnur till. um fjárveitingu til flóaferða frá hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) og fer nokkuð lengra en nefndin hefir lagt til. Jeg verð að segja, að jeg hefi talsverða tilhneigingu til þess að fylgja till. hans, en get það vitanlega ekki, vegna þess að jeg er bundinn við till. nefndarinnar, og til samkomulags hefi jeg gengið inn á að leggja til það, sem nefndin varð sammála um. Jeg vildi þess vegna helst óska, að hv. flm. hefði tekið sína till. aftur að þessu sinni, og borið hana þá heldur fram í eitthvað breyttri mynd við 3. umr. En mjer er algerlega fyrirmunað að fylgja henni við þessa atkvgr. eins og hún nú liggur fyrir.

Jeg skal ekki fjölyrða meira um flóabátastyrkinn, með því að nál. er komið og allir geta kynt sjer það; en jeg skal taka það fram, að nefndin hefir ekki að þessu sinni viljað gera neinar ákveðnar till., hvorki um tilhögun strandferða Esju nje heldur um fjárframlag til þeirra. Þetta er fyrir þá skuld, að í ár hefir verið tekið upp breytt fyrirkomulag með þessar ferðir; og nefndin lítur svo á, að rjett sje að bíða eftir reynslunni um það, hvernig ferðirnar takist og reynist og hvernig þær bera sig. Hún hyggur, eftir reynslu undanfarinna ára, að sú upphæð, sem í fjárlagafrv. stendur vegna Esjuferða, 150 þús. kr., muni vera nærri lagi, og vill ekki leggja til, að henni verði breytt; hún er hvort sem er aðeins áætlunarupphæð. Að vísu er komið í ljós, að rekstrarhalli var meiri á skipinu en þetta næstliðið ár, um 190 þús. kr. En það er ekki ósennilegt, eftir þeim gögnum, sem legið hafa fyrir, að þessi mikli tekjuhalli stafi af því, að ferðunum var hagað eins og gert var, og einkum af því að Esja hefir orðið að annast að nokkru leyti flóaferðir á tafsama staði og pinklaflutning milli hafna, sem skipið ætti nú síður að þurfa að annast.

Jeg læt svo úttalað um þetta að sinni, til þess að tefja ekki tímann um of. Og verði mjer ekki gefið ákveðið tilefni til þess að fara frekar orðum um till., þá mun jeg láta þetta nægja.