13.02.1925
Neðri deild: 6. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í B-deild Alþingistíðinda. (541)

21. mál, styrkveiting til handa íslenskum stúdentum við erlenda háskóla

Forsætisráðherra (JM):

Jeg get raunar látið mjer nægja að vísa til greinargerðarinnar fyrir þessu frv. Jeg vænti þess, að hv. þdm. hafi þegar kynt sjer það, og sje því óþarfi að fara um það mörgum orðum. Jeg held, að þetta litla frv. sje til gagns bæði fyrir stúdentana og þingið. Að það sje betra, að fastákveðið sje, hve marga stúdenta skuli styrkja erlendis. Það sparaði a. m. k. umr. eftirleiðis hjer í þinginu. Jeg vil þegar láta þess getið, að þar sem í frv. stendur, að styrkurinn skuli vera alt að 1200 kr., þá er gert ráð fyrir því, að þessi styrkur verði framvegis eins og hingað til sambærilegur við Garðstyrkinn. En hann hefir nýlega verið hækkaður vegna gengismunar, og getur vel farið svo, ef jafngengi kemst á peninga, að hann lækki. Að miða styrkinn við verð á gullkrónu er ekki hyggilegt, eins og við horfir. Aftur getur verið ástæða til þess að athuga, hvort hjer sje gert ráð fyrir styrk til nógu margra stúdenta, eða hinsvegar, hvort nauðsynlegt sje að styrkja jafnmarga og hjer er gert ráð fyrir. En mitt álit er, að frv. stilli því vel í hóf.