13.02.1925
Neðri deild: 6. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1278 í B-deild Alþingistíðinda. (544)

21. mál, styrkveiting til handa íslenskum stúdentum við erlenda háskóla

Bjarni Jónsson:

Hæstv. forsrh. (JM) þurfti ekki að haga orðum sínum svo sem hann gerði, vr hann kvað mig hafa sagt, að með þessu frv. væri mönnum bannað að sækja nám við erlenda háskóla á eigin kostnað. Hjelt jeg, að orð mín yrðu ekki misskilin svo herfilega. Hitt sagði jeg, að ekki væri landinu til heiðurs, ef Alþingi neitaði að styrkja menn til náms erlendis í þeim fræðum, sem þeim væri ekki gefinn kostur á að nema hjer heima. Það má telja víst, að sú verði aðalregla um sinn, að menn muni ekki geta kostað sonu sína til náms erlendis af eigin rammleik, nema þá einstöku menn úr „auðvaldsflokknum“, eða menn, sem geta komið sonum sínum á framfæri erlendra kommúnista. Það er því sama sem að ákveða með lögum, ef þetta frv. nær fram að ganga, að fleiri skuli ekki stunda nám við erlenda háskóla en það greinir. Það má vel vera rjett hjá hæstv. forsrh., að tala stúdenta erlendis verði aldrei hærri en nú. En þá er líka engin þörf á lögum þessum. En þeir gætu og mættu vel vera fleiri. Hjer voru taldir nemendur í sagnfræði og stærðfræði, en enginn í málfræði nje náttúrufræðum. Jeg held, að æðimörg sæti yrðu auð við skóla landsins, ef enginn kæmi nýr málfræðingur; nema teknir yrðu stúdentar eða kandidatar af prestaskóla til þess að fylla þau. Mætti þá svo fara, að eitthvað líkt kæmi fyrir því, sem gerðist við lærða skólann í tíð Jóns Þorkelssonar rektors, er annar maður var tekinn til þess að kenna grísku í stað sjálfs grískukennarans, en sá maður þurfti daglega að fá tilsögn hjá Jóni Þorkelssyni.

Hæstv. forsrh. skildi mín orð um Garðstyrkinn ranglega. Hann veit, að það var gengið beint að því 1918 af þingi og stjórn, að stúdentar skyldu í engu bíða halla, þótt eftir yrði gefinn Garðstyrkurinn. Það er augljóst, að ekki getur það með neinum rjetti komið niður á einstökum mönnum, námsmönnum ytra eða foreldrum þeirra, er gefin voru upp einkarjettindi vor í Danmörku gegn fullveldi landsjns. Slíkt á ekki að vera skaði neinna flokka eða einstaklinga.

Jeg get vel fallist á, að þeir sjeu ekki nema 18 íslensku stúdentarnir, er nám stunda erlendis sem stendur. En að miða eingöngu við það, að einir fjórir námsmenn sæki utan árlega, er fjarstæða. Þeir geta orðið færri, en þeir geta líka orðið fleiri. Að utanför íslenskra námsmanna geta orðið áraskifti. Þess vegna er frv. í grundvelli sínum rangt, að ákveða tölu þeirra námsmanna, er styrkja beri.

Jeg endurtek það, sem jeg áður mælti, að jeg vil halda mjer við skilyrði þau, er áður giltu um styrk til þeirra manna, er sækja nám sitt út úr landinu.

Jeg hefi ekki sagt þessi orð í því skyni að drepa frv. á þessu stigi málsins, heldur vildi jeg þegar láta sjást, að jeg fengist ekki til að drýgja slíkt athæfi, sem hjer er farið fram á.

Vona jeg svo, að frv. fái að ganga til nefndar og verði þar athugað vel og rækilega.