23.02.1925
Neðri deild: 14. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1282 í B-deild Alþingistíðinda. (550)

21. mál, styrkveiting til handa íslenskum stúdentum við erlenda háskóla

Bjarni Jónsson:

Jeg var nú meira en lítið hissa, þegar jeg varð þess var, að stjórnin bæri þetta frv. fram, en þó undraðist jeg enn meira, er hv. mentmn. tók það upp á arma sína og bjó jafnvel til kryppu á það, sem ekki var á því í fyrstu.

Fyrst og fremst er mjer það óskiljanlegt, hvers vegna á að fara að takmarka tölu stúdenta við erlenda háskóla. Eins og liggur í augum uppi, hljóta jafnan að verða mikil áraskifti að tölu þeirra manna, er þangað sækja, og liggja til þess ýmsar ástæður, sem hjer er óþarft upp að telja. Það er því versta handahóf, sem hægt var að finna upp á, að fara að takmarka töluna á ári hverju. Þetta er því kynlegra, þar sem hæstv. mentamálaráðherra (JM) hefir lýst því yfir, að þetta væri næstum því hin sama tala og undanfarin ár hefði stundað nám erlendis. Hvaða ástæða er þá til að setja þvílík lög sem þessi? Eina afleiðingin, sem þau geta haft, er að ríða undir menn að sækja þessa erlendu háskóla, enda þótt það sje þveröfugt við þann tilgang, sem fyrir frv. vakir. Ef nokkuð ætti að ákveða um þetta atriði, væri skárra að skömminni til að ákveða tölu þeirra, er námsstyrks mega njóta við erlenda háskóla, en að binda slík ákvæði við hvert einstakt ár, nær ekki nokkurri átt. Eins og jeg hefi tekið fram, verða altaf mikil áraskifti áð tölu þessara manna. Eitt árið fer ef til vill aðeins einn, annað árið tveir, þriðja árið þrír o. s. frv. Sum árin getur staðið svo á, að margir sigli til náms í einstökum greinum, vegna þess að sjerfrœðinga vantar í þeim eða eru komnir á fallanda fót. En þótt svo yrði, að ákveðin yrði hámarkstala allra þeirra, er styrksins mega njóta, gæti það einnig að öðru leyti haft hvimleiðar afleiðingar fyrir stjórn og þing. Það er svo sem auðvitað, að á hverju ári yrðu bornar fram styrkbeiðnir, ef til vill af flokksmönnum hæstv. stjórnar, sem færu fram á viðbætur. Eina bótin við frv. þetta er sú, að stúdentar fá tryggingu fyrir því að vera ekki með öllu sviknir um fjárstyrk, eins og gert hefir verið áður, bæði af þingi og stjórn, þvert ofan í gefin loforð. En mjer finst, að óþarft ætti að vera að setja sjerstök lög til að hindra það, að börn kjósenda sjeu svikin ár eftir ár um þennan styrk.

En svo undrandi sem jeg er á þessu frv. stjórnarinnar, finnast mjer þó afskifti hv. mentmn. af málinu öllu kynlegri. Hún leggur sem sje til, að styrkur þessi verði veittur af forsrh. eftir till. sjerstakrar nefndar. Það er vissulega engin nýlunda, að stjórnin vilji hafa sem flestar nefndir sjer til aðstoðar, til að velta af sjer erfiði og ábyrgð, en hitt er meiri furða, þegar þingið vill fara lengra inn á þessa braut. Þessi nefnd er heldur engu hæfari en stjórnin sjálf til að gera till. um þessar styrkveitingar, enda væri það stjórninni engin ofætlun að leita sjer upplýsinga, t. d. hjá rektor mentaskólans.

Þetta er að vísu ekki stórmál, en jeg hefi þó ekki getað látið það fara framhjá mjer án þess að láta í ljós álit mitt á því. Jeg vildi því leggja til, að því væri lofað að sofna hjer í þinginu, uns það vaknaði aftur „með eilífð glaða í kringum sig“ næst þegar lómurinn hefir nógu hátt og vill með öllu sálga þessum ungu mönnum.