08.04.1925
Efri deild: 50. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1313 í B-deild Alþingistíðinda. (577)

21. mál, styrkveiting til handa íslenskum stúdentum við erlenda háskóla

Sigurður Jónsson:

Það er, eins og hv. þdm. er kunnugt, að líkindum liðinn alllangur tími af þessu þingi, og mjer þykir hætt við, að frv., sem taka breytingum í annari deildinni, nái kannske ekki fram að ganga í hinni, og það getur einnig komið fyrir þetta frv., ef það verður samþykt hjer með breytingum. Jeg mun því greiða atkv. á móti öllum brtt. og ganga að frv. eins og það kom frá háttv. Nd. Jeg er fyllilega samþykkur skoðun háttv. minni hl. (JJ), að það þurfi að styrkja fleiri menn en stúdenta, en það er einfaldast að styrkja þá í fjárlögum.

Jeg er því mótfallinn, að styrkurinn til iðnaðarmanna var tekinn af fjárlögum, og mjer finst, að það geti vel sómt þessari hv. deild að setja hann inn aftur, og jafnvel þótt ríflegri væri; og það er ekki loku skotið fyrir það, þar sem þessi hv. deild er 1/3 hluti þingsins að höfðatölu, og ef það er rjett, að hv. Nd. hafi hækkað útgjöld fjárlaganna um 120 þús. kr., þá ætti þessi hv. deild, eftir mannfjölda, að hafa rjett til að hækka þau enn um 60 þús. kr., og mun jeg greiða því atkvæði mitt, ef einhver hv. þm. vill bera fram styrk til iðnaðarmanna.

Jeg ætla ekki að lengja umr. um þetta meira. Jeg býst við að greiða atkv. á móti öllum brtt. og óska, að frv. verði samþykt eins og það kom frá hv. Nd.; það eru ekki bráðnauðsynlegar breytingar, er komið hafa fram hjá hv. meiri hl. nefndarinnar, og mjér finst, að hv. minni hl. geti líka komið sínu máli nokkuð vel fram, ef styrkur til iðnaðannanna kemst í fjárlög.