14.04.1925
Efri deild: 51. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1317 í B-deild Alþingistíðinda. (582)

21. mál, styrkveiting til handa íslenskum stúdentum við erlenda háskóla

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Það urðu nokkuð skyndileg afdrif þessa máls við 2. umr., sökum þess, að fundi varð að fresta. Til þess að tefja ekki tíma háttv. deildar, tók jeg þá aftur vatill. mína, en hefi hugsað mjer, að hún gæti komið til atkv. í dag.

Áður en jeg vík að tilefni orðasennunnar milli mín og hæstv. forsrh. (JM) við 2. umr., skal jeg lítillega minnast á þann framslátt hæstv. ráðherra (JM), að Alþingi hafi, með samningnum við Dani 1918, skuldbundið sig til að kosta til náms við erlenda háskóla alla þá stúdenta, sem styrks vildu njóta og hefðu getað fengið Garðstyrk, ef forrjettindi íslenskra stúdenta til þess styrks hefðu ekki fallið niður með sambandslögunum. Jeg gat ekki betur skilið en að hæstv. forsrh. væri þessarar skoðunar. (Forsrh. JM: Nei, þvert á móti!). A. m. k. taldi hann sig bundinn við þennan skilning og tók það fram, að veist hefði verið að stjórninni fyrir að ausa ekki svo miklum styrk til stúdentanna fyrsta árið, en ekki varð það ljóst af orðum hæstv. forsrh., hvers vegna svo miklu fje var síðar varið í þessu skyni umfram fjárlagaupphæðina.

Í fjárlögum fyrir árið 1920–’21 er veittur 8 þús. kr. styrkur til íslenskra stúdenta erlendis, og fylgir þessi klausa, með leyfi hæstv. forseta:

„.... þó ekki yfir 1200 kr. handa hverjum. Sækja mega þeir hvern viðurkendan háskóla á Norðurlöndum og í helstu menningarlöndum öðrum, en senda verða þeir stjórninni hjer skilríki fyrir því, að þeir stundi nokkurt það háskólanám, sem þeir fá eigi kenslu í við Háskóla Íslands.“

Hjer er greinilega tilgreind ákveðin upphæð og jafnframt, að enginn megi fá meira en 1200 kr. í fjárlögum 1922 er sama aths. að heita má. Þá er því aðeins bætt við, að enginn megi njóta styrksins lengur en 4 ár. M. ö. o. þingið 1921 lítur sömu augum á málið sem þingið 1919. Og enn kemur sama skoðun fram á þingi 1922 í fjárlögum 1923.

Nú álít jeg, að hæstv. forsrh. eigi eftir að gera grein fyrir því, hvers vegna hann í sinni fyrri ráðherratíð fór svo langt fram úr þessari upphæð, 8000 kr., í framkvæmdinni, enda þótt svo virðist, sem hann hafi skilið upphæðina sem ákveðna fjárveitingu, en ekki áætlunarupphæð.

Að vísu má ef til vill segja, að þingið hafi í raun og veru til þess ætlast, að stúdentarnir fengju meira en þessar 8000 kr., en það kemur hvergi í ljós í allri meðferð þingsins á málinu.

En þar sem hæstv. forsrh. veitti svo mikið umfram fjárveitingu fjárlaganna, þá fæ jeg ekki skilið, að það hafi verið af annari ástæðu en að hann hafi verið hlunnfarinn af einhverjum, ef til vill einhverjum, sem fremst stóð í samningunum 1918, og látinn framkvæma það, sem honum var í rauninni á móti skapi. Þegar jeg sá áðurnefnda klausu svo skýlausa í fjárlögunum, þá varð jeg forviða yfir því, að hæstv. forsrh. skyldi segja, að sjer hafi ekki verið stætt með öðru móti en að veita stúdentum svo háan styrk. Honum var sannarlega stætt, þar sem hann hafði skýlausan þingvilja að baki sjer. Umframveitingar hæstv. forsrh. voru hreint brot á ákvæðum fjárlaganna.

Þar sem hv. meiri hl. mentmn. ætlast til, að styrknjótandi stúdentum verði fjölgað frá því, sem í frv. segir, þannig, að árlega fái 24 stúdentar 1200 kr. styrk hver, þá fæ jeg ekki skilið aðstöðu sömu hv. þm., er þeir leggjast á móti jafnsanngjarnri kröfu sem felst í till. minni um að veita nokkrum öðrum efnilegum mönnum styrk til náms erlendis. Hæstv. forsrh. hjelt því fram, að sú till. mín væri ekki nógu vel undirbúin, en hann ætti að vera mjer manna þakklátastur fyrir till., því í henni felst þó a. m. k. traust til hæstv. stjórnar, sem hann ætti ekki að vanþakka.

Um margra ára skeið hefir í fjárlögum verið veittur ákveðinn styrkur til iðnaðarnáms erlendis, án þess að nánar hafi verið kveðið á um, hverjir skyldu þess styrks njóta. Stjórnin hefir ákveðið það og hefir getað valið þá úr, sem henni hefir þóknast. Hefi jeg ekki heyrt annars getið en þetta hafi gefist sæmilega, og þó munu þrisvar til fjórum sinnum fleiri hafa sótt um þennan styrk en gátu fengið hann. Svo mikil hefir þörfin jafnan verið. Að vísu má segja, að betra sje að ákveða slíkan styrk í fjárlögum í hvert skifti, en við vitum, hvað það kostar að rífast um hvern einstakan umsækjanda hjer á þingi, og enda er erfitt fyrir þm. að dæma um, hverjir sjeu styrksins verðugastir. Oft sækja um slíkan styrk menn, sem eru byrjaðir á námi erlendis, og er þm. erfitt að dæma um, hver skilyrði þeir hafa til að mega verða styrks aðnjótandi. Með stjórnina er öðru máli að gegna. Hún getur heimtað vottorð frá skólum og kunnugum mönnum um umsækjendur, og ef hægt er að treysta landsstjórninni til nokkurs yfirleitt, þá er hægt að treysta henni til að úthluta slíkum styrk til þeirra, sem helst þurfa hans með og helst eiga hann skilið.

Jeg get því ekki tekið mótmæli gegn till. minni öðruvísi en sem vott skilningsleysis á þessu máli. Og jeg á bágt með að sætta mig við undirtektir hæstv. forsrh., þegar jeg ber þær saman við meðferð stjórnarinnar á stúdentastyrknum undanfarin ár. Hverjum stúdent, sem hafa vildi, hefir verið veittur 1200 kr. styrkur árlega, en nú er ekki hægt að hjálpa kennurum, iðnaðarmönnum, hjúkrunarkonum o. s. frv. til utanfarar. Jeg óska, að hæstv. forsrh. vildi skýra það fyrir háttv. deild, hvers vegna hann hefir verið svo stimamjúkur, þegar stúdentarnir hafa átt í hlut, en er svo stirður nú.

Jeg er á móti því að sýna hlutdrægni í þessum efnum. Og enda þótt jeg játi, að þörf sje að styrkja nokkra efnilega stúdenta til náms erlendis, þá er þörfin þó margföld að því er annað námsfólk snertir.

Það hefir verið sagt, að íslenskir stúdentar hafi ekki fengið neitt annað í stað Garðstyrksins en þennan utanfararstyrk. Er þá háskólinn hjer heima einskis virði, þrátt fyrir alla mörgu og dýru kennarana hans? Lengstan tímann, sem við nutum Garðstyrksins handa íslenskum stúdentum, var engin slík kenslustofnun innanlands. Síðan kom fyrst prestaskólinn, þá læknaskólinn og löngu síðar lagaskólinn, og loks háskólinn. Því nær það ekki nokkurri átt, að stúdentum hafi verið gert lágt undir höfði, þar sem þeir hafa bæði fengið háskólann og námsstyrk við hann.

Þá kem jeg að öðru. Það kom ekki lítill móður á hæstv. forsrh. út af fyrri ummælum mínum. Honum fanst það svívirða, að jeg skyldi leyfa mjer að tala lítið eitt um þá óreglu, sem fyr og síðar hefir átt sjer stað meðal íslenskra stúdenta erlendis. Get jeg ekki komist hjá að fara nokkuð ítarlegar út í þetta nú, því að aðferð hæstv. forsrh. í svarræðu hans var alveg óviðeigandi. Í fyrsta lagi játaði hann, að töluvert hefði verið um óreglu meðal stúdenta fyr meir, og í öðru lagi kannaðist hann við, að hann viti ekki um háttalag íslenskra námsmanna nú í hinum ýmsu löndum, svo sem Þýskalandi, Noregi og Ameríku. Þó leyfir hann sjer að kalla það ósvinnu af mjer að henda á, hvernig sumir íslenskir stúdentar fyr og síðar hafi varið styrk sínum, þótt hann hafi játað aðal-„teóríunni“, að mikil óregla hafi átt sjer stað hjá þeim. Nú vil jeg taka það fram, sem jeg álít, að hæstv. forsrh. eigi óhægt með að sleppa frá. Í fyrsta lagi: Einmitt það, hvernig sumir íslenskir stúdentar hafa á sínum tíma varið Garðstyrknum, gefur sjerstaka ástæðu til þess, að nú sje farið varlega í að styrkja slíka menn, nema fult eftirlit sje haft með því, hvernig þeir nota styrkinn. Jeg býst við, að hæstv. forsrh. hafi lesið grein eins hins helsta læknis hjer á landi, þar sem hann bendir á, hvernig Danir litu á Íslendinga, að orðin „islandsk Student“ var að almannarómi sama sem drykkjurútur. Ekki svo að skilja, að allir íslenskir stúdentar vœru óreglumenn, en hinir saklausu guldu hinna seku. Jeg er viss um, að hæstv. forsrh. þekkir það, að fjölmargir efnilegir menn hafa farið hjeðan og lagst í óreglu þegar út kom, komið síðan heim hálfeyðilagðir og orðið skömm œttar sinnar og vanrækt þau störf, er þeir tóku að sjer. Einn frœgur vísindamaður með doktorsnafnbót sagði mjer eitt sinn, að hann hefði fundið fjelaga sinn í Kaupmannahöfn liggjandi í spýju sinni úti á Fælleden. Hafði hann legið úti um nóttina, var á bakinu og uppsalan rann eins og hægur hraunstraumur út um munninn og til beggja hliða niður vangana. Þessi maður kom síðan heim, gekk hjer á embættismannaskóla og var hjer jafnvel í einskonar embætti nokkur ár. Annað dæmi er „muldi vasaklúturinn“. Það er sem sagt svo langt frá, að hæstv. forsrh. geti belgst upp, þótt talað sje um óreglu íslenskra stúdenta erlendis, að við hinir, sem þessi lýður hefir kastað skugga á, höfum fylstu ástæðu til þess að bera okkur upp undan því, að þótt við komum heiðarlega fram í útlöndum, þá verðum við samt að bera hluta af þeirri sekt, sem þessir menn hafa leitt yfir nafn landsins.

Hæstv. forsrh. játar, að hann viti ekki um hegðun annara stúdenta en þeirra, sem eru í Kaupmannahöfn, en segist hinsvegar hafa veitt öllum stúdentum styrk, sem um hann hafa sótt. Hvaða rjett hefir hann til þess að halda, að þeir sjeu allir reglumenn? Það, sem hann verður að játa, er það, að hann hefir í þessu efni þverbrotið fjárlögin og ekkert eftirlit haft með, hvernig með styrkinn hefir verið farið. Það er ilt fyrir hæstv. forsrh. að verja þetta, nema hann telji það gott, að menn leggist í slark, eyði fje sínu og þjóðar sinnar, kasti skugga á landið og komi heim óverkfærir flestir. Jeg er satt að segja hissa á frekju hæstv. forsrh., því að jeg verð að álíta, að það beri að gera miklar kröfur eigi síst til þessara manna, sem svo miklu er fórnað til að kosta. Og jeg tel það svívirðing, þegar þessir menn með slarki sínu óvirða bæði sitt eigið nafn og lands síns.

Í þessu frv. er engin trygging, ekkert skilyrði sett fyrir því, að þeir, sem styrkinn fá, geti ekki varið honum jafnilla og nokkrir vörðu Garðstyrknum. Þess vegna er jeg glaður yfir að hafa haft færi á að koma fram með þessar athuganir, því að jeg álít, að nú eigi að brjóta nýtt blað í sögu landsins og engum óreglumanni lengur að veitast styrkur af landsfje. Heldur eigi aðeins að styrkja þá menn eina, sem kunnir eru að reglusemi og ætla má, að verði landi sínu til sóma meðan þeir eru erlendis, og síðan til mikilla þarfa, þegar þeir koma heim.