14.04.1925
Efri deild: 51. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1332 í B-deild Alþingistíðinda. (586)

21. mál, styrkveiting til handa íslenskum stúdentum við erlenda háskóla

Forsætisráðherra (JM):

Hv. 5. landsk. (JJ) þykist altaf vera að tala um málið. Mjer datt í hug máltæki, sem haft er eftir Vigfúsi vert: „Undarlegt með tíkina.“ Það er undarlegt, þegar hv. þm. er að ráðast á mig fyrir að reyna að koma lögum á þessa óreglu, sem hann er altaf að tala um. Jeg ber fram frv. um að koma reglu á þetta, og fyrir það ræðst hann á mig. Þetta er alveg eins og í vetur, þegar gerð var gangskör að því að hafa upp á bannlagabrotum. Þá var ráðist á dómsmálaráðuneytið, lögregluna og dómara fyrir hvað mikið kæmist upp. Það er ómögulegt að tala við hv. 5. landsk. um svona mál. Styrkurinn til stúdenta var veittur sem áætlunarupphæð. (JJ: Það er hvergi tekið fram). Hvers vegna er hv. þm. annars stöðugt að deila við mig? Hann var í nefnd þeirri, er málinu var vísað til. Nefndin klofnaði. Hví talar hann ekkert við hinn nefndarhlutann, þann hlutann, er hv. þm. er ekki í? Það væri eðlilegt þó að gera það. Áður fyr í bardögum sáu menn ekki aðra en mestu kappana; hv. þm. sjer venjulega engan nema mig, og er þetta því sómi fyrir mig.

Hv. þm. segir, að jeg hafi sagt, að hann teldi stúdenta hjer í Reykjavík óreglusama. Jeg sagði, að hann hefði ekki þorað það, því að sumir þeirra væru hjer viðstaddir. (JJ: Lýgi! — Forseti hringir). Jeg sagði og, að mjer þætti ólíklegt annað en að stúdentar erlendis væru reglusamir, þegar reykvískir stúdentar væru það, þar sem þeir væru frá sömu skólum og hjeruðum upp og ofan.

Hv. þm. má gjarnan brúka þau orð, sem hann telur þingleg. (JJ: En bjánaskapurinn). Hefir ekki hv. þm. sagt meira en það? Hann veit ekki altaf hvað hann segir. Annars er þetta fyrir utan efnið. En hví er hann að ráðast á mig? Hvaða vit er í þessháttar umr. og tímatöf? Hv. þm. skrifar sjálfur sögu. Hann getur komið þessu inn í kenslubækur sínar, stúdentum til sóma.

Jeg sje ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar. Jeg hefi ekki orðið var við annað en að flestir sjeu frv. samþykkir. Jeg treysti mjer ekki til að vera með brtt. hv. þm. (JJ). Ef það er það, sem vekur reiði hans, á jeg þar sammerkt með mörgum öðrum.