14.04.1925
Efri deild: 51. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1333 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

21. mál, styrkveiting til handa íslenskum stúdentum við erlenda háskóla

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Hæstv. forsrh. (JM) segir, að jeg fari út fyrir efnið. Hann byrjaði sjálfur á því að draga stúdenta í Reykjavík inn í umr. Jeg hafði ekki minst á þá einu orði, en þá ávítar hann mig fyrir að þora ekki að ávíta þá! Þá dregur hann bannlagabrotin inn í umr. Þarna eru strax 2 atriði, efninu alveg óviðkomandi, sem hann sjálfur hefir talað um.

Þá segir hæstv. forsrh. (JM), að ekki hafi verið fundið að því í landsreikning unum fyr en í fyrra, en það er nú nokkuð veik ástæða. En úr því hæstv. ráðherra (JM) minnist á dóm blaðanna um bannlagabrotin, þá man hann líklega eftir því, að þessar greiðslur voru seinast orðnar svo áberandi, að einn af flokksmönnum hæstv. ráðherra (JM) í Nd., mig minnir að það væri hv. þm. Borgf. (PO), hafði orð á því í þinginu 1921, að það væri farið að færast í vöxt, að stjórnin borgaði út án þess að hafa heimild fjárlaganna fyrir því, og upp úr þessu öllu spruttu svo fjáraukalögin miklu, sem við berum skuldasúpuna fyrir og alt, sem við verðum að líða fyrir, að þessir liðir hafa farið fram úr fjárlögunum. Annars get jeg sagt, að það er mikið farið að sljákka í hæstv. ráðherra (JM); hann heldur því t. d. ekki eins fast fram og áður, að það sje svívirðing að segja, að það sje ekki alt reglumenn, sem eigi að fá þennan styrk; og hæstv. ráðherra (JM) játar það, að stúdentar sjeu oft kendir við óreglu utanlands, og það er einmitt það, sem jeg krefst, að verði athugað, og jeg þykist vita, að þegar hæstv. ráðherra (JM) rifjar upp æskuminningar sínar frá Kaupmannahöfn, minnist hann þess, hvernig sumir þeirra eyðilögðu sig. Þetta er orð í tíma talað, því að þótt mikil nauðsyn sje á að styrkja íslenska stúdenta, þá er jafnmikil þörf á að styrkja aðra menn til utanfarar. Mjer skilst, að hv. deild ætli ekki að gera það, því að menn hafa ekki viðurkent, að við þurfum að ala okkur upp menn, sjerfróða á sem flestum sviðum; en þótt jeg standi einn uppi með þá skoðun, þá vona jeg, að hæstv. stjórn væri sig á því að ausa út fje í stúdenta fram yfir það, sem þingið ætlast til. Vona jeg, að ekki líði á löngu áður en það verður viðurkent, að við þurfum að styrkja fleiri menn til utanfarar. Og það skal jeg játa, að skuggi óreglunnar hefir á enga menn lagst eins mikið og á stúdentana, en hvort slíkir menn vinna sjer rúm í sögunni, skal jeg láta ósagt.