14.04.1925
Efri deild: 51. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1334 í B-deild Alþingistíðinda. (588)

21. mál, styrkveiting til handa íslenskum stúdentum við erlenda háskóla

Frsm. meiri hl. (Sigurður Eggerz):

Jeg er viss um það, að ef farið yrði að rannsaka umr. um þetta atriði, þá myndi það koma fram, að því var slegið föstu í háttv. Nd., að hjer var um áætlunarupphæð að ræða. (JJ: Fjárlögin telja þetta sem sjerstaka upphæð). Já, en það er nú ekki nýtt, að áætlunarupphæðir eru settar þannig, og má finna fleiri fordæmi fyrir því en þetta.

Hv. 5. landsk. (JJ) talaði um það, að skuggi óreglunnar hefði fylgt stúdentunum. Já, það getur verið, en jeg verð um leið að halda því fram, að ekki hafi staðið meiri bjarmi af öðrum mönnum en þeim. (JJ: Ekki af sömu mönnunum). Það má vera; en þeir hafa þó haft miklu meiri þýðingu fyrir líf þessarar þjóðar en nokkrir aðrir, og það er jeg sannfærður um, að það er ekki meiri óregla í þeim hóp en hverjum öðrum, því að það er löngum svo, að hver maður er ávöxtur þess tíma, sem hann lifir á.

Jeg vildi svo, áður en jeg sest niður, mælast til þess við hv. 5. landsk. (JJ), að hann taki þessa brtt. sína enn aftur, því að það getur vel farið svo, ef tillaga þessi verður samþykt hjer, að hún verði frv. síðar að falli; en það má með engu móti verða svo, því að stúdentarnir tapa á því, og ef hv. 5. landsk. (JJ) trúir á það, að það eigi að hjálpa iðnaðarmönnum um styrk til þess að geta komist til útlanda, þá trúir hv. þm. (JJ) líklega ekki síður á það, að stúdentar geti ekki síður auðgað anda sinn við utanför, og eigi því að fá styrk eins og aðrir, til þess að geta safnað sjer þekkingarauði, sem síðar geti komið þjóðinni að notum. Jeg vil þess vegna styðja að því, að þetta verði veitt, en það en heppilegast fyrir hv. þm. (JJ) að taka till. aftur og láta hana koma fram í öðru sambandi, því að jeg efast um, að það muni verða margir hjer, sem vilja standa á móti því, að ýmislegt, sem í till. stendur, verði tekið til athugunar á annan hátt og í öðru sambandi.