27.03.1925
Neðri deild: 44. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

1. mál, fjárlög 1926

Pjertur Þórðarson:

Þótt jeg eigi enga brtt. við frv., ætla jeg að leyfa mjer að segja nokkur orð, en jeg get verið fáorður, vegna þess, að hv. þm. Borgf. (PO) hefir tekið fram mikið af því, sem jeg vildi segja.

Jeg verð að segja það um brtt. hv fjvn., að jeg fellst á flestar þeirra, og um brtt. á þskj. 204 og 235, þá virðist mjer meiri og minni nauðsyn liggja til grundvallar fyrir þeim flestum. En einmitt vegna þess, sem margir aðrir góðir menn hv. deildar hafa tekið fram og komið hefir fram hjá hv. fjvn., hvernig á stendur með fjárhag landsins, þá get jeg ekki fallist á tillögu hv. þm. Dala. (BJ) um það að taka erlent lán. Sje jeg mjer og nauðugan einn kost að vera á móti brtt. á þskj. 204 og 235, en það nær þó eigi til þeirra allra. Jeg verð að segja, að það eru tvær nokkuð stórar fjárhæðir, og einhverjar þær stærstu, sem jeg finn mig knúðan til að greiða atkvæði með. Það er þá fyrst till. undir VI. lið á þskj. 235. Fyrir þeirri tillögu hefir hv. 3. þm. Reykv. talað eins og jeg vildi sagt hafa. Get jeg ekki annað en greitt þessari brtt. atkv. mitt. Þá er önnur brtt. á þskj. 235 undir X. lið. Hún er nokkuð há, en þar liggur hið sama til grundvallar, að vernda líf og heilsu landsmanna, og það verður að ganga fyrir öllu, þótt eitthvað annað verði þá að sitja á hakanum.

Næst þessu koma samgöngumálin, og hefi jeg jafnan hjer í þinginu reynt að halda fram bættum samgöngum og stundum borið fram brtt. þess efnis. Mjer er það því fullkomið gleðiefni að fá að vera með till. hv. samgmn. um, að styrkur til bátaferða skuli nú loks hækka svo að viðunanlegt sje. Jeg skal ekki endurtaka það, sem sumir hv. þdm. hafa sagt um skiftinguna í till. samgmn., en í sambandi við þetta koma að því, sem var aðalástæðan til þess, að jeg stóð upp, en það er atriðið í nál. samgmn. um bátaferðir á Faxaflóa og Breiðafirði. Og vegna þess, að það er ekki víst, að allir hv. þdm. hafi kynt sjer nál., vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mjer að lesa upp nokkrar línur úr því:

„Æskilegast virðist, að eitt og sama skip annist samgöngur milli allra hafna á þessu svæði og Reykjavíkur, og virðist nefndinni, að það mætti vel takast, eins þótt skipið færi nærfelt jafnmargar ferðir milli Reykjavíkur og Borgarness sem verið hafa“.

Um þetta atriði voru tveir nefndarmenn ósamþykkir nál., en jeg áleit ekki þörf á því að skrifa undir nál. með fyrirvara, þótt hv. þm. Barð. (HK) gerði það.

Til viðbótar því, sem hv. þm. Borgf. (PO) sagði um þessar ferðir með einu skipi, skal jeg bæta því við, að Borgarnesferðir þurfa að vera tvær í viku að meðaltali, og er það hið allra minsta, svo að viðunanlegt sje. En á þeim tíma, sem þær þurfa að vera fleiri, ríður og Breiðfirðingum mest á samgöngum, svo að það rekur sig hvað á annað. (PO: Þetta er satt). Þörfin er samtímis mest á báðum stöðunum. Gæti stundum farið svo, að Breiðafjarðarferðir færust fyrir, og þá yrði að skipa vörunum, sem fara eiga þangað, upp hjer í Reykjavík, og er það aukinn kostnaður.

Jeg skal bæta því við, að þótt Suðurland fari nú tvisvar í viku að meðaltali til Borgarness, þá nægir það ekki, og bæði stærri og minni vjelbátar eru í förum milli Reykjavíkur og Borgarness. Og það er áreiðanlegt, að skipaferðir í Borgarnes eru eins margar aðrar en þær, er Suðurland fer. Þetta sýnir það, að styrkurinn er ekki fullnægjandi fyrir þessi hjeruð, og er jeg hræddur um, að þeir hv. þm., sem búa í fjarlægð við þessi hjeruð, og því lítt kunnugir högum og háttum þar, gæti þessa eigi. Það er mikill póstflutningur milli Reykjavíkur og Borgarness, og nær hann líka til annara hjeraða, og líka mikill fólksflutningur. Borgarnes er áreiðanlega einhver mest sótta höfn af ferðafólki hjer um land. Efast jeg um, að það fari á nokkra aðra höfn eins margt fólk og þangað.

Það, sem jeg sagði um brtt. þær, er hjer liggja fyrir, þá ætlast jeg til, að það sje nægilegt að gera grein fyrir því í einu lagi, að jeg er á móti þeim. En enginn má skilja atkvæði mitt svo, að jeg sje í raun og veru á móti því, sem þær fara fram á, vegna þess að það sje óþarft, heldur er það blátt áfram af nauðsyninni á að neita sjer um þetta.