12.03.1925
Neðri deild: 31. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1337 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

24. mál, fiskveiðar í landhelgi

Frsm. (Ágúst Flygenring):

Óþarft er að fara mörgum orðum um frv. það, er hjer liggur fyrir, heldur er nóg að skírskota til þess, sem hæstv. atvrh. (MG) sagði um það við 1. umr., og eins til nál. Aðeins má geta um þá litlu brtt., sem sjútvn. ber fram og fer í þá átt að strengja á undanþáguheimildinni í síðari málsgrein 1. gr. Undanþágan skal sem sje aðeins veitt um ákveðið árabil, og í öðru lagi er þess vænst, að þetta nái aðeins til ákveðins fjölda skipa. Vænti jeg, að hv. þd. þurfi enga skýringu á þessu. Jeg geri ráð fyrir, að þessarar brtt. hefði ekki þurft með, að minsta kosti er jeg fullviss um, að núverandi hæstv. atvrh. (MG) hefði hagað framkvæmd laganna svo, sem nefndin ætlast til, en það var þó talið rjett að tiltaka þetta nánar, svo enginn vafi væri á, hvert stefnt er. Jeg vil svo vona, að hv. þd. samþykki þessa brtt. og frv.