27.03.1925
Neðri deild: 44. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

1. mál, fjárlög 1926

Magnús Torfason:

Jeg hafði hugsað mjer að komast hjá því að taka til máls við þennan kafla fjárlaganna. En það eru ummæli vegamálastjóra um Biskupstungnaveginn, sem hjer hefir verið vitnað í, er urðu þess valdandi, að jeg varð að kveðja mjer hljóðs.

Ummæli þessi hljóðuðu eitthvað á þá leið, að Árnessýsla hefði fengið svo mikið fje úr landssjóði til vega, að þess vegna mætti kippa að sjer hendinni í þetta skifti.

En sje nú þetta rjett, að Árnessýsla hafi fengið svo mikið fje til vegagerða, að hún megi ekki fá meira, þá er næst að athuga, hvað hún hefir af eigin ramleik lagt í sölurnar til þess að leggja þá vegi, er nú eru í sýslunni.

Skuld sýslunnar við endurlagningu

Flóavegarins

nemur nú....................... kr. 40000

Elsta vegaskuldin ........... — 3000

Næstelsta vegaskuldin ... —13000

og í víxlum skuldar hún.. — 12000

Þetta verður samtals kr. 68000

Auk þess hefir sýslan borgað síðan 1920 9 þús. kr., og nemur þá upphæð þessi 77 þús. kr., og er hún öll lögð í vegi. Þó að sýslan skuldi svona mikið, þá er það ekki af því, að vegagjöldin sjeu lægri þar en annarsstaðar, enda mun sönnu nær, að þau sjeu óvíða hærri. Og þó að Árnessýsla hafi lagt svona mikið á sig um vegagerð og ofsjónum sje litið til þess, er landssjóður hefir af höndum látið, þá er þó svo, að hvergi eru slíkar vegleysur og torfærur eins og í þessari sýslu. Valda því mýrarnar og blautlendið, að þrátt fyrir það, sem búið er að gera, eru þetta smáspottar, sem akfærir mega kallast, sumstaðar ekki fært ríðandi mönnum og aðeins allra verstu keldurnar brúaðar.

Þegar minst er á þessar miklu vegaskuldir, þá má í því sambandi geta þess, að þegar Flóaáveitan er komin á, þá verður sýslan að leggja nýja vegi um svæðið, sem áætlað er að muni kosta talsvert á annað hundrað þúsund krónur. Þess vegna er það metnaður okkar Árnesinga að greiða nú þessar „lausu skuldir“ sem allra fyrst, svo að við sjeum betur undir það búnir að leggja á okkur nýjar kvaðir, þegar kemur að því að leggja vandaða vegi um Flóaáveitusvæðið. Þess vegna er ástæðulaust að sinna ekki þessari litlu kröfu um styrk til Biskupstungnabrautarinnar.

Annars skal jeg taka það fram, að brautin, þar sem hún er komin nú, endar í mýri, og kemur því efri hluti hennar að engu gagni nema henni verði komið á þurt land, en það er við gil, snertuspöl fyrir austan Torfastaði.

Upphæð þessi, sem farið er fram á, að ríkið leggi nú til þess að koma brautinni þangað, sem jeg hefi nefnt, er vitanlega áætlunarupphæð og óvíst, að vegarspotti þessi þurfi að kosta svona mikið. Að minsta kosti lofa jeg því að krefjast ekki meira fjár en þarf til að koma brautinni á þurt.

Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að samgöngur sýslunnar á sjó eru svo óhentugar og ófullkomnar, að alls ekki er viðunandi. Sem dæmi má nefna það, að á Eyrarbakka kostar steinolíutunnan rúmum 7 kr. meira en í Reykjavík, eða 5 au. á hvern steinolíulíter fram yfir það, sem borgað er hjer í Reykjavík.

Árnessýsla er að sligast undir þessum slæmu verslunarsamgöngum. Þess vegna eru viðskiftin meira og meira að færast landleiðina til Reykjavíkur, en til þess að það komi sem flestum sýslubúum að sem bestu gagni, verður að fjölga akfærum vegum, svo að allir standi jafnt að vígi með að bjarga sjer.

Biskupstungnabrautin er ein af þeim fáu, sem tekin var upp í vegalögin 1907 og þá loforð gefið um, að hún yrði bygð. Síðan eru nú liðin 18 ár, og verður ekki annað sagt en að þungt gangi róðurinn, að hún skuli ekki vera komin lengra, þessi fjölfarna braut um þjettbygð hjeruð.