23.02.1925
Neðri deild: 14. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1350 í B-deild Alþingistíðinda. (625)

25. mál, heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að innheimta ýmsa tolla og gjöld með 25% gengisviðauka

Jón Baldvinsson:

Þegar lögin um 25% gengisviðaukann voru sett í fyrra, áttu þau að miðast við gengi sterlingspunds og ekki gilda lengur en meðan það væri skráð hjer í Reykjavík 25 kr. og þar yfir. Þannig voru í lögunum sjálfum takmörk fyrir því, hve lengi þau áttu að gilda. Nú er alls ekki komið að þessu takmarki, en eigi að síður flytur stjórnin frv., sem í raun og veru er ekkert annað en tilraun til að gera þennan gengisviðauka að föstum tekjustofni fyrir ríkissjóð. Er þetta þeim mun undarlegra, þegar athugaðar eru ástæðurnar, sem færðar voru fyrir lögum þessum í fyrra, því að þá var talið, að þetta ætti aðeins að vera til að vinna upp tap, ef krónan fjelli.

Jeg lít nú svo á, að þingið geti ekki skilið svo við þetta mál, að það geri þennan gengisviðauka að fastri heimild, sem staðið geti um aldur og æfi. Þó hægt sje að taka þetta upp á hverju þingi og ákveða, hve lengi þessi gengisviðauki skuli standa í það og það skiftið, tel jeg þó heppilegra, að í lögunum sjálfum sje ákvæði um, hve lengi þau skuli gilda, því að þegar stjórnin semur fjárlagafrv., er betra fyrir hana, að tekjustofnar þeir, sem hún þarf að byggja það á, sjeu sem vissastir. Jeg held því, að b.-liður fyrri brtt. minnar sje alveg sjálfsagður.

Hið sama er og að segja um a.-lið fyrri brtt. minnar, þar sem jeg fer fram á, að 1. janúar 1926 lækki gengisviðauki sá, sem ríkisstjórninni er heimilt að innheimta eftir lögum nr. 2, 27. mars 1924, niður í 15%, þó jeg hefði vitanlega helst kosið, að þessi tollhækkun hefði alveg verið afnumin. En svo langt hefi jeg ekki gengið í till. mínum, af því að jeg bjóst við, að svo stór breyting myndi ekki ná fram að ganga. Hefi jeg því farið þennan meðalveg, að heimila stjórninni að innheimta tolla þá, er hjer um ræðir, með aðeins 15% gengisviðauka frá 1. janúar 1926. Yrði það líka miklu síður tilfinnanlegt fyrir ríkissjóð en að missa allan þennan tekjuauka í einu. Mætti svo líka lækka hann aftur á næsta þingi, ef lögin yrðu látin gilda lengur en til 1. apríl 1926. Á þennan hátt myndi ríkissjóður verða þess mjög lítið var, þegar tekjuauki þessi fjelli alveg burtu.

Jeg tel því alveg sjálfsagt fyrir háttv. deildarmenn að samþykkja brtt. mínar, þó sjerstaklega b.-liðinn, því að hann er alveg óumflýjanlegur.