02.03.1925
Neðri deild: 23. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1360 í B-deild Alþingistíðinda. (636)

25. mál, heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að innheimta ýmsa tolla og gjöld með 25% gengisviðauka

Fjármálaráðherra (JÞ):

Það er rjett hjá hv. 2. þm. Reykv. (JBald), að því var barið við, er lögin voru sett, að það væri gert vegna lággengis, enda voru þau kend við gengisviðauka. En þeirri sönnu ástæðu var rjett lýst af hv. 3. þm. Reykv. (JakM) við 2. umr. þessa máls, er hann sagði, að lögin hefðu eingöngu verið sett til þess að útvega ríkissjóði tekjuauka, sem hann vantaði. Það er rjett hjá hv. 2. þm. Reykv. (JBald), að þegar gengið hækkar, þá minka gjöld ríkisins, en það kemur ekki fram fyr en eftir mjög langan tíma, og fyrst í stað munar það litlu, nema helst á. dýrtíðaruppbót embættismanna, er heldur ekki lækkar fyr en nokkuð löngum tíma eftir gengishækkunina.

Það er óþarfi að vera að rökræða um það við hv. 2. þm. Reykv., hvort ríkissjóður megi missa af tekjum sínum.

Mjer þótti vænt um að fá viðurkenningu hv. frsm. fjhn. (KIJ) á því, að lög þessi megi ekki falla úr gildi, nema þá að annað komi í staðinn, því hún lýsir skilningi á fjárhagsástandi landsins eins og það virkilega er. Jeg verð þó að segja hv. 2. þm. Reykv. (JBald), að mjer virðist fjárhagur ríkisins lafa á tveim nástráum. Tekjuafgangur ríkisins var árið 1924 hálf önnur miljón, og hann þarf að verða eins mikill næstu árin tvö, ef lausaskuldirnar á að borga. Þessi tekjuafgangur 1924 kom af því, að engu var eytt til verklegra framkvæmda, en árið annars veltiár, þannig, að tekjur af gömlu tekjustofnunum urðu 11/2 milj. kr. hærri 1924 en árið á undan. Það liggur þá í augum uppi, að breyting á árferði getur ein saman svift ríkið jafnmiklum tekjum og nam tekjuafgangi síðasta árs. Og geti menn ekki þolað það lengur, að ekkert sje unnið að verklegum framkvæmdum, þá er tekjuhalli vís. Og bætist svo í þriðja lagi við niðurskurður þessara laga, samkvæmt brtt. hv. þm. (JBald), þá er komið sama ástand og ríkt hefir að undanförnu og hann hefir kunnað svo vel við.

Hv. frsm. fjhn. (KIJ) vildi ekki kannast við það, að ákvæðið um það, að lögin skuli gilda til ársloka 1926, geti haft áhrif á afstöðu manna til fjármálanna á þessu þingi. En það hlýtur að verða, nema trygt væri, að lögin yrðu framlengd á þingi 1926. Það hljóta allir að sjá, þegar það er athugað, að mörg útgjöld eru ekki bundin við eitt ár, svo sem útgjöld við opinber störf og verklegar framkvæmdir, sem oft er alls ekki lokið með eins árs fjárveitingu. Í sjálfu sjer er jeg ekki á móti því, að enn harðari hemill sje settur fyrir því, að brotið verði upp á nýjum framkvæmdum á þessu þingi. En stjórnin þarf ekki nýrra brýninga við til að ráðast ekki í stórræði á árinu 1926, með því að hafa það á oddinum, að tekjur af þessum lögum sjeu ekki vísar lengur en það árið. Háttv. frsm. (KIJ) talaði um ósamræmi hjá mjer í afstöðu minni til þessa máls og verðtollsins hinsvegar. Jeg tek það fram, að það er ekki af því, að jeg hefði ekki kosið annað, að stjórnin hefir bundið gildi verðtollslaganna við 1. apríl 1926, heldur vegna þess, að það er ljóst, að þau lög geta ekki staðið óbreytt öllu lengur. Þau lög ákveða sjálf, að þau falli úr gildi í árslok 1925, en till. stjórnarinnar er sú, að þau gildi þetta lengur, svo fresta megi að endurskoða þau til næsta þings. En sjái hv. fjhn. sjer fært að endurskoða þau að efni til nú á þessu þingi, þá álít jeg, að ákvæðið um að þau falli úr gildi verði að falla burt, en í staðinn komi hið venjulega, að lögin gildi þangað til öðruvísi verði ákveðið. Þetta er mín skoðun í því máli. Annars sje jeg ekki ástæðu til þess að rökræða meira um þetta. Jeg heyri, að í rauninni er ekki að ræða um neinn meiningamun milli mín og hv. frsm. (KIJ) um þetta mál. Báðir erum við sannfærðir um það, að ríkissjóður megi ekki missa neitt af tekjum sínum á árinu 1927. En jeg vil taka fullkomna afstöðu til málsins samkvæmt þessu og ekki setja gildi laganna nein takmörk, en láta hvert þing sjálfrátt um það að taka þau til endurskoðunar, þegar tími þykir til kominn.