05.03.1925
Efri deild: 23. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1368 í B-deild Alþingistíðinda. (643)

25. mál, heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að innheimta ýmsa tolla og gjöld með 25% gengisviðauka

Fjármálaráðherra (JÞ):

Hv. 5. landsk. (JJ) mintist á gulltollinn í Noregi og vildi bera hann saman við gengisviðaukann hjer. En þetta er ekki sambærilegt, því að gulltollurinn breytist eftir því, sem gengi krónunnar breytist. Hann er því altaf samsvarandi, eftir því sem krónan hækkar eða lækkar. Ef svo hefði verið hjer, hefði jeg ekki farið fram á að fá þá breytingu á lögunum um gengisviðauka, sem hjer liggur fyrir. En hann er ekki sama eðlis og gulltollurinn, því að hann er ekki hreyfanlegur.

Jeg lýsti því yfir á síðasta þingi, að jeg væri fús að taka upp gulltoll, sem væri bundinn við gengið. En það hafði ekki fylgi þá. Þetta má segja, að sje aukaatriði. En hitt er aðalatriðið, að þörf ríkissjóðs er ekki bundin við gengið nema að örlitlu leyti, heldur er hún bundin við útgjaldakröfurnar og þær kröfur, sem þingmenn gera til fjárframlaga. Annars get jeg vel fallist á að kalla þetta tollauka, í stað gengisviðauka.

Þá verð jeg að gefa háttv. 5. landsk. (JJ) viðurkenningu fyrir því hóli, sem hann setti á mig, af því að jeg hefði ekki verið að hæla mjer fyrir hið góða árferði, en það hefðu aðrir samverkamenn mínir gert. (JJ: Morgunblaðið hefir gert það). Nei, Morgunblaðið hefir ekki gert það, og enginn okkar hefir gert það. Hjer skjöplast því háttv. þm. algerlega, eins og svo oft áður, og á eflaust eftir að gera oft ennþá. Jeg hefi aldrei lagt það í vana minn að hæla mjer sjálfur, en miklu oftar fundið ástæðu til að bera af mjer oflof. Háttv. þm. þarf því ekki að halda, að jeg falli fyrir þeirri freistingu, sem hann hefir svo oft rasað um, að hæla mjer sjálfur af því að mjer finnist aðrir gera of lítið að því.

Þá fór háttv. þm. að skera tóbak, sem kallað er. En það var óþarfi af honum að fara að gera það hjer nú, því að besta útlit er fyrir, að hann fái að gera það á þinglegan hátt síðar.

Ósannindi verða aldrei neitt merkilegri, þó að þau sjeu margendurtekin. Í síðari ræðu sinni stje hv. 5. landsk. þó ofurlítið spor í áttina til sannleikans, þar sem hann færði tekjumissinn úr 1/ milj. niður í 450 þús. kr. Ef hann heldur níu ræður um þetta mál, þegar það kemur til umr. hjer í deildinni, og stígur jafnstórt spor í áttina til sannleikans í hverri, þá endar hann í miðjum sannleikanum. Þetta gæti hann með því að tala tvisvar við hverja umræðu, og fá svo leyfi til að gera stutta athugasemd. Þá eru sporin orðin 9, því að umræðurnar eru þrjár. Jeg vil nú ráða háttv. þingmanni til að gera þetta, því jeg er ekki viss um, að hann geri annað, sem betra er eða hollara fyrir sálu hans.

Út í umræður um önnur mál, sem hv. þm. hefir verið að draga inn í þessar umræður, ætla jeg ekki að fara, því jeg býst við, að síðar verði tækifæri til þess.

Út af járnbrautarmálinu, sem hann var að minna mig á, vil jeg taka það fram, að það er eitt af því skoplega, sem tilveran leggur á leiðir manns, að jeg skuli ekki hafa getað lagt því máli liðsinni síðan jeg komst í þessa stöðu. En það er nú svona fyrir bóndanum, ef kýrin hans dettur ofan í pytt, þá verður hann að draga hana upp úr áður en hann fer að mjólka hana. Eins er því farið um stjórnina; henni hefir orðið það fyrst fyrir að reyna að draga ríkissjóð upp úr þeim heljarpytti, sem stjórn hv. þm. var búin að steypa honum á kaf í.