05.03.1925
Efri deild: 23. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í B-deild Alþingistíðinda. (645)

25. mál, heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að innheimta ýmsa tolla og gjöld með 25% gengisviðauka

Fjármálaráðherra (JÞ):

Það er ekki vert fyrir hv. 5. landsk. (JJ) að vera að spá neinu um það, hverjir verði við stjórn, þegar járnbrautarmálið verður framkvæmt. Og jeg verð að segja það, að honum hefir oft farist fimlegar í því að umhverfa sannleikanum en nú, þegar hann vill gera það eymdarástand, sem hans eigin stjórn hefir leitt yfir ríkissjóðinn, að hugsjónarflótta hjá mjer. Þetta kemur hvað öðru harla lítið við. Jeg get geymt mínar hugsjónir og síðar lagt mitt lið til að koma þeim í framkvæmd, þegar þær eru framkvæmanlegar. Það getur verið, að hv. 5. landsk. (JJ) hafi aldrei orðið að bíða tœkifæris til þess að koma hugsjónum sínum í framkvæmd, en það er þá eingöngu af því, að hann hefir aldrei átt neinar hugsjónir.