13.03.1925
Efri deild: 29. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (649)

25. mál, heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að innheimta ýmsa tolla og gjöld með 25% gengisviðauka

Fjármálaráðherra (JÞ):

Eins og hv. þdm. muna, þá var farið fram á það í frv. stjórnarinnar, að þessi 25% tollhækkun skyldi standa um ótiltekinn tíma, eða þangað til tolllöggjöfinni yrði breytt af Alþingi. Jeg álít, að þegar um er að ræða jafnþýðingarmikið mál og tolllög, þá sje það rjett og eðlileg regla, að þau standi óhögguð þangað til Alþingi vill breyta þeim á venjulegan hátt, með nýrri löggjöf. Þó það nú yrði ofan á í hv. Nd. að breyta þessu og setja gildi laganna tímatakmark, þá er rjett að líta á það sem einskonar framhald af því ákvæði núgildandi laga, að tollhækkunin fellur niður, ef gengi sterlingspunds er skráð á 25 kr. eða minna hjer í Reykjavík. Þetta er líka einskonar tímatakmark, sem hv. Nd vildi ekki sleppa, og niðurstaðan varð svo sú, að miða gildi laganna við árslok 1926. Jeg mundi hafa komið með brtt. um að miða við árslok 1927, þar sem svo virðist sem menn vilji hafa eitthvert tímatakmark, en það kom ekki í ljós fyr en um seinan. En ef þetta takmark er sett, árslok 1926, þá þýðir það, að það verður að endurnýja lögin á næsta þingi. Því það má sjá það nú þegar með fullri vissu, að ekki verður unt að sleppa tekjunum af lögum þessum á næsta þingi. Þetta leiðir af því aðalviðfangsefni, sem nú kallar á þennan tekjuauka, sem er greiðslu lausaskulda ríkisins. Því verður ekki nærri lokið á næsta þingi. Þar að auki má búast við, að fram komi kröfur úr ýmsum áttum um það, að byrjað verði á einhverjum verklegum framkvæmdum, þegar lokið er greiðslu lausaskuldanna. En það er vitanlegt, að engin stjórn getur lagt til, að byrjað sje á neinu slíku, ef það vofir yfir henni að eiga að missa ca. einnar milj. kr. tekjur í árslok 1926. Það er sjálfsagt gott, að stjórnin hafi aðhald um að ráðast ekki í nein stórvirki meðan stendur á greiðslu lausaskuldanna. En jeg get sagt það um núverandi stjórn, að hún er nógu vel á verði í þessu efni, og þarf ekki það keyri á sig að eiga að missa 1 milj. kr. þegar í árslok 1926. Það er fyrst í árslok 1927, að þess má vænta, að sú breyting verði orðin á hag ríkissjóðs, að komið geti til tals, að hann megi missa þennan tekjustofn. Þá eru fyrstu vonir, að lokið verði greiðslu lausaskuldanna. Það er því ekki óeðlilegt, að lögin verði endurskoðuð 1927, en það verður að gera samkvæmt brtt. minni. Það er satt að segja dálítið óviðkunnanlegt, ef þingið í mörgum málum skapar þá reglu að endurnýja löggjöfina á hverju þingi. Það er þýðingarlaust, þegar verið er að setja löggjöf um nýja tekjustofna, annað en að láta breytingar á þeim bíða þangað til ný lög eru sett, sem koma í stað hinna eldri. Nú er fyrirsjáanlegt, að ef till. hv. fjvn. verður samþykt, sú að afgreiða frv. eins og það kom frá hv. Nd., þá leiðir það til þess, að endurskoða verður frv. á næsta þingi. Þess vegna legg jeg til, að frv. verði breytt þannig, að ekki þurfi að hrófla við því fyr en á þingi 1927. Jeg held, að mjer sje óhætt að fullyrða, að þessi brtt. muni ekki sæta mótstöðu meiri hl. í hv. Nd., því sumir hv. þm., sem þar greiddu atkv. með 1926 sem tímatakmarki, mundu fremur hafa greitt atkv. með 1927, ef till. um það hefði legið fyrir. En það fórst fyrir vegna þess, að það varð ekki fyr en við 3. umr., að brtt. við frv. var sett inn.