18.03.1925
Efri deild: 33. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1377 í B-deild Alþingistíðinda. (655)

25. mál, heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að innheimta ýmsa tolla og gjöld með 25% gengisviðauka

Fjármálaráðherra (JÞ):

Hv. 5. landsk. beindi orðum sínum aðallega til mín og deildi jafnframt á meðnefndarmenn sína í fjhn. Hann sá enga ástæðu til þess, að meðnefndarmenn sínir greiddu brtt. atkv., eftir að hafa skilað áliti sínu. En brtt. kom ekki fram fyr en eftir að álitinu var skilað. Hjer er því ekki að ræða um breytta afstöðu, heldur nýja afstöðu til nýs málsatriðis. Og það nær engri átt að álíta nefnd svo bundna við álit sitt, að það taki einnig til þess, er síðar kann að koma fram. Auk þess er brtt. miðlunartilraun milli tillögu nefndarinnar og þess, sem deilt var um í hv. Nd. Nefndin vildi láta takmarka tímann til ársloka 1926, en í deildinni greindi á um það, hvort nokkurt tímatakmark bæri að setja.

Mjer þótti undarlegt að heyra talað um gengisviðaukann sem nefskatt. Að vísu má líta svo á, sem tóbakstollur sje nefskattur í mjög óeiginlegum skilningi. Hann er nefskattur á þá, sem „taka í nefið“. En vínfangatollur, tóbakstollur og kaffitollur eru að málvenju ekki taldir nefskattar. Annars er nefskattur það gjald, sem öllum ber að greiða jafnt eftir lögum.

Þá fór hv. þm. að vekja upp aftur ummæli sín frá 1. umr. um tilraunir til þess að rýra tekjur ríkissjóðs. En þar sagði hann ekkert annað en það, sem jeg var búinn að gagnhrekja þá, og jeg fer ekki að lengja Alþingistíðindin með því að endurtaka þá hrakningu. Jeg skal þó geta þess, að gróði ríkisins af tóbakseinkasölunni hefir aldrei verið 450 þús., ekki einu sinni veltiárið 1924. Hann var þá 350 þúsund, og þó hefir þessi stofnun sloppið við að greiða tekjuskatt. (JJ: En útsvarið). Jeg tel það ekki til gróða, þótt jeg ynni mjer inn tekjur til þess að standast lögboðin gjöld, og þó bent sje á varasjóðinn, er það ekki til nokkur hlutar, því þá kem jeg með skuldalista einkasölunnar, sem sýnir það ljóslega, að varasjóður er ekki nema fyrir afföllum á skuldum. Hver sem vill má trúa því, að gróðinn vaxi, þ. e. a. s. að árferði fari batnandi. Það er barnaskapur að taka eitt veltiár sem fyrirheit um annað meira. Jeg byggi ekki fjárhagsáætlanir mínar á slíku.

Um tilraunina til þess að breyta tekjuskattslögunum er það að segja, að frv. er eins komið frá flokksbræðrum hv. þm. í Nd., og hafa þeir fallist á öll þau atriði, er helst kynnu að draga úr tekjum ríkissjóðs. Hann ætti því að senna um það við þá á flokksfundi, en ekki þeyta því hjer framan í mig.