18.03.1925
Efri deild: 33. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1380 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

25. mál, heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að innheimta ýmsa tolla og gjöld með 25% gengisviðauka

Jónas Jónsson:

Það var rjett af hæstvirtum forseta að halda áminningarræðu yfir hæstv. fjrh. (JÞ) fyrir að fara út fyrir efnið. En það kom dálítið ranglátlega niður, þar sem jeg varð að gjalda synda hans.

Jeg skal þá fyrst snúa mjer að hv. þm. Vestm. (JJós). Það er auðvitað alveg á hans ábyrgð og fjelaga hans, hv. 2. þm. G.-K. (BK), hvenær þeir snúast í málum og hvernig. Þeir hafa dæmin fyrir sjer, og það jafnvel meðal háttsettra manna í íhaldsliðinu, og nægir að minna á umræður í fyrra hjer í deildinni um, hvort prenta skyldi þingtíðindin. Jeg get tekið undir með hv. þm. (JJós), þar sem hann segist hafa gert þetta að gefnu tilefni. Það var svo sem auðvitað, fyrst stjórnin vildi láta líta svona á málið, að hann teldi það nœgilegt tilefni, enda kom það skýrt fram hjá honum. Háttv. þingmaður (JJós) hjelt því fram, að þörf ríkissjóðs væri svo mikil, að hann gæti ekki mist þessar tekjur. En hvorki þessi háttv. þm. nje hæstv. fjrh. (JÞ) hafa svarað því, hvers vegna á að kalla þetta gengisviðauka, ef því er haldið áfram aðeins af því, að ríkissjóður þarf á tollinum að halda. Jeg hefi bent á, að ein ástæðan til þess, að þessi álagning má ekki halda áfram undir nafninu gengisviðauki er sú, að það kom fram hjá aðstandendum frv., að þetta væri hugsað sem varanlegur tollur.

Hæstv. fjrh. (JÞ) taldi ekki rjett að nefna gengisviðaukann nefskatt. En í mæltu máli mun þó venja í öllum löndum að kalla nefskatt þau gjöld, sem hvíla svo að segja jafnt á öllum fjölskyldum, hvort sem ríkar eru eða fátækar. Það má kannske segja um kaffi- og sykurtoll, að menn sjeu sjálfráðir um þau útgjöld. En hvaða heimili hjer notar ekki kaffi t. d. ? Eða á Englandi, þar sem allir drekka te, frá konungi til kotungs. Skyldi ekki mega kalla tetollinn þar nefskatt! Þar sem því er svo varið, að meginið af tolltekjum okkar, svo sem kaffi-, sykur-, tóbaks- og vörutollar eru í eðli sínu nefskattar, þá er gengisviðauki á þessum tollum líka nefskattur. Annars hefir hæstv. fjrh. fallið frá að útskýra þá nauðsyn að halda gengisviðaukanafninu óbreyttu, þó gert sje ráð fyrir, að tollurinn haldist þrátt fyrir verðbreytingu krónunnar.

Þá mintist hæstv. fjrh. á tvent, sem jeg þarf að mótmæla stuttlega. Hann sagði, að Framsóknarflokkurinn í Nd.- hefði í aðalatriðum gengið inn á tekjuskattsfrv. stjórnarinnar. Það er ekki rjett. Aðalatriðið í þessu frv. er að koma togurunum undan skatti, og það eru aðeins stjórnarþingmennirnir, sem fylgja því.

Hitt var um útsvörin. Það er álit margra merkra manna, að ríkisstofnanir eigi ekki að bera útsvör. Mun hæstv. fjrh. kunnugt, að. þær skoðanir ríkja víða um lönd.