27.03.1925
Neðri deild: 44. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

1. mál, fjárlög 1926

Hákon Kristófersson:

Eins og sjest af nál. hv. samgmn., hefi jeg skrifað undir það með fyrirvara. Jeg hefi sem sje sömu skoðun á málinu að því er snertir Borgarfjarðarbátinn eða samband Faxaflóa- og Breiðafjarðarbátsins og þá, sem háttv. þm. Borgf. (PO) lýsti í mjög svo myndarlegri ræðu í dag. Að haldið er fram, að samlaga megi bátaferðirnar um Faxaflóa og Breiðafjörð hlýtur að koma af ókunnugleika þeirra, sem því halda fram. Það stendur nefnilega svo á á báðum stöðum, eins og hv. þm. Borgf. (PO) tók fram, að það er að mínum dómi ómögulegt að ætla, að sama skipið geti annast ferðir á báðum þessum fjörðum svo við megi una. Eins og kunnugt er, hafa í mörg undanfarin ár kunnugir menn talið það sanngjarnt og fyllilega rjettmætt að hafa tvo báta á Breiðafirði. Annan minni, eða lítinn mótorbát, sem annaðist flutninga í hreppana á norðanverðum Breiðafirði, þ. e. Barðastrandar-, Múla-, Gufudals- og Reykhólahreppa, og hinn stærri, sem sæi um samgöngur milli Reykjavíkur annarsvegar og Austur-Barðastrandar- og Dalasýslu hinsvegar. Jeg, sem verð að telja mig mun kunnugri en aðra háttv. þm. á þessu svæði, verð að álíta þetta langheppilegustu tilhögunina, svo fremi að ekki sje hægt að fá það skip, sem annars gengur til Breiðafjarðar, til þess að koma á þær smáhafnir, sem óhjákvæmilegt er, að bátar komi á. Jeg get bent á það, að vegna þessara flutningabáta, sem menn hafa nú vanist við 12–14 síðustu árin og treyst á, að væru styrktir til þessara ferða, þá hefir það alveg lagst niður, að menn ættu skip, sem hæf væru til að flytja á nauðsynjar til og frá.

Mjög ákveðnar óskir um styrkveitingar til flutningaskipa í þessum hjeruðum hafa komið fram ár frá ári, og seinast nú í ár, því að til þingsins að þessu sinni hafa borist áskoranir frá fjölda manna um 6000 kr. styrk til bátaferða á norðanverðum Breiðafirði, og mjer er það ekkert launmál, að það er ekki lengra síðan en í gærkvöldi, að einn hinna merkari manna úr mínu kjördæmi sagði við mig, að það, hve lítið hefði fengist til þessa í fjárlögunum undanfarin ár, væri að kenna slælegri eftirsókn af minni hálfu. Mjer er málið of skylt til þess að dæma um það, en víst er það, að jeg hefi gert það, sem jeg hefi megnað, í þessu efni, og aldrei farið fram á hærri upphæðir en þær, sem jeg hefi vitað, að voru í fylsta máta sanngjarnar. Jeg hefi tekið þetta fram til þess að sanna, að svo hlaut að fara, að jeg gæti ekki fallist á till. hv. meiri hl. samgmn. í þessu efni. Um sameiningartill. á öðrum svæðum landsins get jeg lýst því yfir, að jeg býst við, að slíkt reynist torvelt, þó að mig auðvitað skorti þar kunnugleik, samanborið við aðra nefndarmenn, og get jeg þess vegna ekki verið á móti þeim. Og þótt jeg hinsvegar hafi ekkert á móti því, að hæstv. stjórn athugi þessa till. um að sameina ferðir Faxaflóabátsins og Breiðafjarðarferðirnar, þá býst jeg ekki við, að sú athugun leiði annað í ljós en það, að afstaða mín og hv. þm. Borgf. (PO) og hv. þm. Mýra. (PÞ) í þessu efni hafi verið fullkomlega á rökum bygð.

Jeg á enga brtt. við þann kafla fjárlaganna, sem nú er til umræðu. Jeg á aðeins eina að þessu sinni, og hún er við þann kaflann, sem síðar kemur, svo að um engan málaflutning verður að ræða frá minni hálfu að þessu sinni.

Jeg hjó eftir því, að hv. 2. þm. Reykv. (JBald) þótti það óviðurkvæmileg orð af hálfu hv. frsm. (ÞórJ), er hann sagði, að þetta þing væri eitthvert það lakasta á síðari árum. Jeg verð að segja, að jeg tel þessi orð háttv. frsm. (ÞórJ) algerlega í tíma töluð. Jeg lít alveg sömu augum á þetta mál. Jeg verð að leyfa mjer að benda á vinnubrögð þingsins nú og á öðrum árum. Jafnvel á síðasta þingi, sem þó var ekki til fyrirmyndar í því efni, stóð umr. þessa máls aðeins tvo daga. Á hvað benda líkurnar nú? Jeg geri ráð fyrir, að engum þyki of í lagt að ætla, eftir því sem þegar er á daginn komið, að hún standi nú yfir minst 4 daga. Menn geta sjálfir sagt sjer, hverjar ástæðurnar muni vera. Hv. 2. þm. Eeykv. (JBald) benti einnig á, að það væri eðlilegt, að alt gengi tafsamara en verið hefði, og benti helst til þess, að það kæmi af því, að málin væru svo illa undirbúin. (JBald: Ekki rjett). Jeg skrifaði það niður. Háttv. þm. sagði, að það væri tilefni þess, að alt væri seinna í vöfunum nú en hingað til. En jeg get bent á hina rjettu orsök; hún er óþarfamálæði sumra hv. þm. um hin ýmsu mál, sem fyrir liggja. Jeg hefi lítillega bent á það áður, hve þetta málœði er ónauðsynlegt og óviðkunnanlegt, þó einkum það, sem aldrei hefir sýnt sig betur en nú, að menn skuli leyfa sjer að hafa óheyrilega langar og óþarfar umr. um mál við 1. umr., og það mál, sem öll áttu að fara í nefnd og komust líka öll til nefndar. Það segir sig sjálft, hve mikið það flýtti afgreiðslu málanna, ef háttv. þm. gætu komið sjer saman um, að í hinum stærri málum skyldu ekki tala nema 1–2 menn úr hvorum flokki. Nú má heita svo, að öll stærri málin sjeu enn í nefnd, og þá má nærri geta, hve mikinn tíma þau eiga eftir að taka, því varla verður 2. og 3. umr. styttri en 1. umr. Hlýtur sú spurning að vakna, hvernig við förum að forsvara það fyrir okkur sjálfum, að þjóðin skuli þurfa að horfa undrandi á þetta verklag. Það er gott, að háttv. þm. Str. (TrÞ) brosir. Það vill sjálfsagt svo til, að samviskan segir honum, að hann eigi engan verulegan þátt í þessari óþarfamælgi. Annars má telja þá á fingrum sjer, hverjir þar eiga hlut að máli, svo jeg segi háttv. þm. (TrÞ) sannleikann. Jeg ætlast ekki til þess, að hv. þm. sjeu þegjandi þingmenn, en málæðið hefir að þessu sinni keyrt svo úr hófi, að jeg stend alveg undrandi. Hefi jeg haft þann heiður að sitja allmörg þing undanfarið, en jeg hefi aldrei vitað slíkt.

Gagnvart þeim ýmsu brtt., sem fram hafa komið, þá verð jeg að segja, að þótt jeg sje mörgum þeirra andvígur, þá geng jeg þess ekki dulinn, að þau mál eru sjálfsögðust og athugunarverðust, er lúta að því að hjálpa þeim, sem veikir eru. Jeg lít svo á, að það sje fyrst og fremst skylda við þjóðina að halda uppi sjúkdómavörnum, þótt jeg hinsvegar kannist fúslega við það, sem hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, að fjárhagurinn sje mjög erfiður, og maður verði þess vegna, því miður, að takmarka sig allmikið í þessu efni. En mjer er spurn: benda brtt. hv. fjvn. og hv. þm. mikið í þá átt, að fjárhagurinn sje erfiður! Og ennfremur: hvað á að sitja fyrir? Eru það styrkveitingar til framkvæmda, sem beðið geta nokkurnveginn skaðlaust, eða styrkveitingar til jafnbráðnauðsynlegra fyrirtækja og Heilsuhælisfjelags Norðurlands! Jeg er þar ekki eins kunnugur og þeir, sem næstir standa, en jeg get vel sett mig í þeirra spor, sem óheppni lífsins hefir leikið svo hart, að þeir sjá ekki nema dauða sinn og sinna framundan, ef enginn hjálpar. — Hæstv. fjrh. (JÞ) benti á færa leið. Og jeg segi fyrir mig, ef um þetta tvent er að velja, þá er jeg ekki í vafa um, hvora götuna jeg geng, því að þrátt fyrir það, þó að landsverslunin sje nauðsynleg, þá er þó viðhald lífs og heilsu barna þjóðfjelagsins ennþá miklu nauðsynlegra.

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) fór hjer í umr. að bera saman aðstoðarlækninn á Ísafirði og aðstoðarmanninn í hagstofunni. Hann er nú gamall kunningi sumra, er setið hafa lengi á þingi, aðstoðarlæknirinn á Ísafirði, og jeg treysti því fullkomlega, að engar innri tilfinningar ráði um það mál, eins og hv. þm. (JBald) sagði. Bara að ekki hafi innri tilfinningar ráðið orðum hans. Mjer finst það satt að segja undravert, ef hæstv. stjórn skyldi líða það lengur en 7 ár, að einhver maður kæmi ekki í embætti sitt, en gegndi öðru bara af því að það er arðvænlegra. Því að ekki efast jeg heldur um, að jafngóðan mann og þann, er hjer um ræðir, hefði mátt fá til að vera skrifstofustjóri landsverslunarinnar, ef hann hefði viljað fara í það embætti, sem nú er gert að óánægjuefni að frá honum var tekið.

Þá var sami háttv. þm. (JBald) að minnast á verðtollinn. Jeg er honum sammála um, að hann er neyðarúrræði. En jeg er ekki maður til að benda á annan jafngóðan tekjustofn í staðinn, ef þessum væri fleygt, og það kemur okkur öllum saman um, að ríkissjóður getur ekki fullnægt nauðsynlegum þörfum, ef hann missir þessar tekjur.

Hv. þm. Str. (TrÞ) mintist lítilsháttar á fjárveiting, sem háttv. minni hl. fjvn. (BJ) fer fram á til sendiherra í Kaupmannahöfn. Hv. þm. (TrÞ) kvaðst ekki hafa snúist í því máli. Jeg hefi ekki gert það heldur. Jeg leit og lít svo á, að það hafi verið óhappaverk, að embættið var felt niður, einkum af því, að í því sat jafngóður maður og sá, er það skipaði fyrst og síðast. Þess vegna mun jeg, þrátt fyrir sparnaðaráhuga minn, greiða atkv. með þessari brtt. Hitt er annað mál, hvort jeg fylgi öllum brtt. hv. þm. Dala. (BJ). Jeg fellst á það, sem hv. þm. Str. (TrÞ) sagði, að spara á alt, sem hægt er að spara, en jeg viðurkenni hinsvegar, að sumt er svo lífsnauðsynlegt, að það er ekki hægt að spara það.

Hv. þm. Str. (TrÞ) mintist á brtt. um 2500 kr. styrk til húsabóta á gistingarstað. Hann tók rjettilega fram nauðsyn þess, að hægt væri að fá góða gisting, þegar komið væri af fjallvegi, og líka tók hann fram, að fyrir svona fjárveitingu væri fordæmi. Jeg verð að segja, að mjer finst þessi upphæð nokkuð há og að jeg er heldur andvígur svona styrk. Það er alt annars eðlis að veita hagkvæm lán. Þetta er beinlínis að gefa fje úr ríkissjóði. Jeg segi þetta ekki sem bein andmæli gegn till. hv. þm. Str. (TrÞ), því að hún hefir mikinn rjett á sjer, að því leyti að styðja að því, að ferðamenn eigi jafnan völ á góðum gistingarstöðum, en jeg spyr, hvort eigi sje gengið of langt inn á þessa braut, svo að ekki sje hægðarleikur að snúa aftur. Það er venjulegt á svona gistingarstöðum, að seldur sje greiði, bæði matur og hey, og mjer finst vafasamt, að rjett sje af ríkissjóði að styrkja slík fyrirtæki án alls eftirlits með því, hvernig fjenu sje varið. Jeg verð líka að telja það varhugavert að veita fje úr ríkissjóði til gistingarstaða. Ef öllum væri sýnt sama rjettlæti hvað það snertir, þá er hætt við, að umsækjendur gætu orðið nokkuð margir.

Jeg skal svo ljúka máli mínu að þessu sinni. Jeg veit, að það er ekki til neins að vera að andmæla þessum brtt., sem fram eru komnar. Jeg reyndi í fyrra að mæla á móti ýmsum hækkunartillögum, en utan um þær stóð svo þjettur hringur, að ekki varð rofinn, og svo mun enn vera. Mjer er sama, hvort í hlut á Búnaðarfjelag eða Fiskifjelag eða aðrar stofnanir. Ef ríkið hefir ekki efni á að veita fje, vil jeg ekki, að það sje gert, hver sem í hlut á. Jeg er ekki illviljaðri þessum stofnunum en aðrir. En mjer finst, að menn verði þó að minsta kosti að sjá einhvern árangur af því fje, sem veitt er, og að þingmenn verði að muna það, að þeir eru ekki að fara með sitt eigið fje, heldur fje ríkissjóðs, sem þeim er trúað fyrir að fara með á þann hátt, er heiðarlegum mönnum sæmir.