10.02.1925
Efri deild: 3. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1388 í B-deild Alþingistíðinda. (671)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að af útfluttum framleiðsluvörum vorum fer til engra landa eins mikið bæði að vöxtum og verðmæti og til Miðjarðarhafslandanna. Eftir verslunarskýrslunum fyrir árið 1921, sem er síðasta árið, sem verslunarskýrslur eru fyrir hendi um, hefir til þessara landa flust meira en helmingur allrar útfluttrar framleiðslu vorrar að verðmæti, og auk þess hefir eflaust miklu meira flust þangað af vörum vorum gegnum England og Danmörk. Þetta sýnir greinilega, að í Miðjarðarhafslöndunum höfum vjer meiri fjárhagslegra hagsmuna að gæta en víðast annarsstaðar. Reynslan hefir og sýnt hin síðustu árin, þegar enginn fastur Íslenskur starfsmaður hefir verið þar syðra, að nauðsyn hefir þótt á því að senda þangað mann til þess að gæta þar hagsmuna vorra. Svo var þetta árið 1923 og einnig 1924, og mun sendiför þessi bæði árin hafa verið að tilhlutun bankanna hjer, sem töldu sjer svo nauðsynlegt að hafa mann þar, að þeir vildu borga þriðjung kostnaðar hvor þeirra, og hvorki fyrverandi nje núverandi stjórn sá sjer fært að skorast undan þessum sendiferðum. Og á síðastliðnu ári kom það fyrir tvívegis, er sendimaðurinn var búinn til heimferðar, að símað var til hans að fyrirlagi bankanna og hann beðinn að dvelja þar lengur.

Þetta ætti að sýna nauðsynina á að hafa sendimann í þessum löndum, og kostnaðurinn af því fyrir ríkissjóð getur ekki talist sjerlega mikill, þar sem gert er ráð fyrir, að bankarnir borgi 2/3 kostnaðarins.

Jeg vona því, að hv. deild taki máli þessu vel, enda er áreiðanlega affarasælast fyrir alla, að þessu sje skipað með lögum, þegar af þeirri ástæðu, að hæpið er, að hægt sje að fá hæfan mann í sendiferð þessa, nema hann viti, að hann megi reiða sig á, að förin sje til meira en bráðabirgða einna.

Að lokinni þessari umr. legg jeg til, að þessu máli verði vísað til sjútvn.