04.03.1925
Efri deild: 22. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1407 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. frsm. minni hl. (IP) var að kvarta um það, að jeg hefði ekki lesið bæði nál. með sama velviljanum. Jeg skal að vísu játa, að mjer líkar nál. hv. meiri hl. að öllu leyti betur. En þó hefir hann víst tekið eftir því, að jeg las einmitt upp úr hans nál. áðan, — eða kannske honum hafi fundist jeg ekki lesa rjett!

Jeg hefi einmitt fulla reynslu fyrir því, að það er erfitt og ýmsum vandkvæðum bundið að fá hæfa menn til þessara skyndiferða. (IP: Kannske jeg eigi að útvega mann?). Því ráða þeir menn, sem þessum málum eiga að skipa. Hv. 2. þm. S.-M. (IP) hefir þar engu að ráða enn, en getur vitanlega gefið bendingar, og munu þær eflaust vel þegnar, ef nokkurt vit er í þeim. Hv. 2. þm. S.-M. talar eingöngu um starfið; hann vill að það haldi áfram, en stöðunni vill hann sleppa. En við hinir leggjum mikla áherslu á stöðuna, því með henni er trygt, að starf fulltrúans komi að fullum notum. Þetta er það, sem aðallega skilur meiri og minni hl. Hv. meiri hl. hefir einmitt í nál. sínu og framsögu fært ljós rök fyrir því, að starfið verði ekki vel af hendi leyst, nema fulltrúinn sje fastur embættismaður ríkisins og búsettur þar syðra, svo öll ummæli hv. minni hl. eru ekki á neinum rökum bygð.

Hv. frsm. minni hl. (IP) var líka að tala um, að fulltrúinn ætti að verða ræðismaður síðar, og virtist því mótfallinn,. en um það er engin þörf að ræða nú, því að engin ákvörðun er um það tekin. Annars finst mjer óþarfi að vera að endurtaka það, sem jeg sagði áðan, og sje ekki heldur neina ástæðu til að blanda Spánarsamningunum inn í þessar deilur. Á meðan við seljum Spánverjum mikinn hluta fiskjar vors, er það skylda okkar að fullnægja þeim skilyrðum, er þeir setja okkur um vörugæði og vöruvöndun, svo að við berum ekki skarðan hlut frá borði í viðskiftunum við þá. Og til þess er fulltrúinn sendur, að hann gæti rjettar okkar á allan hátt og gefi okkur sem bestar og glöggastar skýrslur um ástandið þar syðra og markaðshorfurnar. Og að hjer sje um nauðsynjastarf að ræða, sjest best á því, að báðir bankarnir eru þess fulltrúa, að óhjákvæmilegt sje að hafa sendimann þar syðra, og bjóðast til að borga honum. Jeg skal nefna sem dæmi, að sendimaður þessi ætlaði tvisvar í vetur að leggja af stað heim, en þá fóru bankastjórar annars bankans þess á leit við stjórnina, að hún ljeti sendimanninn dvelja lengur þar syðra. Stjórnin varð við því og sendi hraðskeyti í bæði skiftin, svo það drógst, að sendimaðurinn kæmi, og svo þegar hann er kominn, þá þykir bönkunum, að hann hafi komið alt of fljótt.

Jeg get ekki samsint því, að Spánarsamningurinn sje rothögg á sjálfstæði okkar Íslendinga. Því sje svo, þá verður að álítast, að Norðmenn hafi líka glatað sjálfstæði sínu með samningi þeim, er þeir gerðu við Spánverja. En því held jeg þó, að enginn haldi fram í alvöru um Norðmenn.

En hitt má kannske segja, að Spánverjar hafi að nokkru leyti skipað fyrir um innanlandslöggjöf. Eða með öðrum orðum, að þeir hafi sagt: ef þið hagið löggjöf ykkar svona og svona, þá breytum við okkar löggjöf eftir því. Og sama gildir þá vitanlega um Norðmenn. En það er satt, uppsögn Spánverja á sínum tíma kom okkur illa, og því neitar enginn, að það var leiðinlegt að hverfa að því ráði að slaka á bannlögunum. En hjer sannaðist sem oftar, að taka verður minna bölið til þess að forðast hið meira.

Þá sagði hv. frsm. minni hl. (IP), að margt væri þarfara en þorskurinn. Það er nú svo, en mikið gagn hefir hann gert samt, þorskurinn, og sýnt hefir það sig hjer, að mikið er lagt í sölurnar til þess að ná í hann.

Þá sagði sami hv. þm., að með því að tryggja markaðinn á Spáni væri unnið að því að halda í samningana. En þetta er ekki rjett. Við getum slitið samningunum við Spánverja hvenær sem við viljum, en á meðan við gerum það ekki og á meðan við verslum við þá, er báðum fyrir bestu, að gott samkomulag sje um viðskiftin.

Um ferðakostnaðinn skal jeg ekkert segja. Jeg hefi aldrei farið þessa leið, en finst hinsvegar ekki of mikið þó að gert sje ráð fyrir, að ferðin kosti 1500 kr. (IP: Eru það ekki um 200 kr. á dag?). Jeg veit það ekki; eins og jeg sagði, hefi jeg aldrei ferðast þessa leið og veit ekki, hvað marga daga ferðin tekur.

Þá veit jeg ekki, hvað hv. sami þm. var áð fara, þegar hann sagði, að þessi sendimaður ætti fremur að vinna í hag Spánverja en okkar. Þetta eru óviðeigandi getsakir og lítt sæmandi neinum hv. þm. að bera á borð hjer í hv. deild. Hann ætti þó að vita það, að erlendar þjóðir, sem senda slíka menn til annara þjóða, gera það sinna eigin hagsmuna vegna, en ekki annara, og að allir konsúlar og sendimenn eru embættismenn þeirrar þjóðar, sem sendir þá, en ekki hinna, sem þeir dvelja hjá.

Það er vitanlegt, að stöðu þessari verður slegið upp, og það er ágætt, að margir sæki um hana. Þá er hægra fyrir stjórnina að velja úr besta manninn, og er þá sennilegt, að góðar bendingar frá hv. 2. þm. S.-M. (IP) geti komið að notum.

Að síðustu vil jeg lýsa því yfir, að það er fjarstæða, að embætti þetta eigi að stofna handa ákveðnum manni, eða Gunnari Egilson, eins og gefið er í skyn. Embættið á að stofna landsins vegna og eingöngu með hagsmuni þess fyrir augum.