06.03.1925
Efri deild: 24. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1421 í B-deild Alþingistíðinda. (691)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Frsm. minni. hl. (Ingvar Pálmason):

Jeg skal ekki tefja mikið tímann. En jeg vildi taka það fram, að þó að jeg fylgi ekki frv., þá tel jeg rjett, af því fyrirsjáanlegt er, að það kemst fram, að slá þann. varnagla, sem brtt. fer fram á. Fyrri hluti brtt. er viðurkendur rjettmætur, en um seinni hlutann er deilt. En því verður ekki neitað með rökum, að það hefir þýðingu yfirleitt, að maðurinn sje fjárhagslega óháður. Jeg tel því seinni hluta brtt. rjettan líka og mun greiða honum atkvæði, þó að jeg sje á móti frv. Að endingu get jeg lýst yfir því, að það gleður mig, að við þessa 3. umr. hefir komið fram sönnun fyrir því, sem jeg staðhæfði við 2. umr., að meiri hl. nefndarinnar liti meir á stöðuna, en minni hl. á starfið. Umr. hafa sýnt, að þetta er satt, og það gleður mig, að þetta kemur í þingtíðindunum og sannar mál mitt.