06.03.1925
Efri deild: 24. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1424 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Frsm. minni hl. (Ingvar Pálmason):

Háttv. þm. Vestm. (JJós) sagði, að það væri ekki rjett að gera mönnum upp getsakir í þessu máli. Jeg kannast ekki við að hafa gert hv. meiri hl. nefndarinnar getsakir í þessu máli. Jeg hefi aðeins skýrt frá málavöxtum eins og þeir eru, en háttv. þm. Vestm. ljet sjer sæma að gera mjer getsakir, er hann sagði, að jeg væri á móti öllum framkvæmdum til að greiða fyrir fiskmarkaði vorum á Spáni, og tel jeg því rjettara fyrir þennan háttv. þm. að moka fyrst frá sínum eigin dyrum, áður en hann átelur aðra. Hæstv. atvrh. (MG) sagði það ekki veikja gildi manna, þótt þeir skulduðu ríkinu, því það mundi ekki verða misnotað; og getur vel verið, að þetta sje að einhverju leyti rjett; vil jeg að óreyndu trúa honum til þess að misnota ekki slíka aðstöðu. Hæstv. atvrh. (MG) veit ekki, hversu lengi hann heldur áfram að gegna því embætti, er nú hefir hann. Það virðist óneitanlega geta haft allmikil áhrif, hve há skuldarupphæðin er. Hugsanlegt er, ef um ótrygga skuld er að ræða, að það gæti haft úrslitaáhrif á veitingu embættisins, að þann veg væri auðveldara að innheimta skuldina en ella, með því að viðkomandi yrði þá færari um að greiða árlegar afborganir. Jeg veit ekkert um upphæð þeirrar skuldar, sem hjer ræðir um, en hitt veit jeg, að það geta komið fyrir þau tilfelli, sem brtt. gerir ráð fyrir, og nauðsynlegt er að koma í veg fyrir þau, ef kostur er.