23.03.1925
Neðri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í B-deild Alþingistíðinda. (7)

1. mál, fjárlög 1926

Forsætisráðherra (JM):

Jeg ætla að svara háttv. þm. Str. (TrÞ) í öfugri röð við spurningar hans og taka fyrst það, sem hann endaði á, að tala inn vexti og forvexti. Jeg hygg, að Íslandsbanki hafi í seinni tíð haft sömu forvexti og Landsbankinn, en býst við því, að Landsbankinn ráði vöxtunum venjulega.

Þá er Marianmálið. Hv. Þm. byrjaði á því að segja, að hann vildi ekki beina neinni ásökun til dómarans og gæti vel skilið, að hann hefði svo mörgum störfum að gegna, að ekki væri til þess ætlandi, að hann gæti sint svo stóru máli eins og vera bæri. Hann hefði því þurft að fá aðstoð. Til þessa er það svar, að hefði dómarinn þá þurft aðstoð og farið fram á það, hefði hún þegar fengist. En að fyrra bragði var engin ástæða til þess að fara að bjóða jafnvönum og ágætum rannsóknardómara aðstoð. Og eftir minni þekkingu er meðferð málsins hin besta og aðdáanlegt, hvernig dómaranum tókst að koma brotinu upp.

Hv. þm. talaði um það, að nefnd manna hefði komið til mín út af þessu máli. Jú, nokkrir bannmenn komu til mín og gerðu mjer vart við það, sem þeir höfðu komist á snoðir um í þessu máli. Var það alt tekið til greina eftir því sem hægt var.

Jeg skal nú lýsa afskiftum stjórnarinnar af Marianmálinu. Skipið kom fyrst til Grindavíkur 25. sept. f. á. og þótti þegar grunsamlegt. Þar fór maður í land af því. Að tilstilli dómsmálaráðuneytisins var hann þegar settur í sóttkví, vegna þess, að skipið hafði brotið sóttvarnarlögin, en aðrar sakir var ekki hægt að sanna á hann. Honum var haldið svo lengi sem hægt var vegna sóttvarna. En þegar útsjeð var um það, að af honum gæti ekki stafað sótthætta, varð að sleppa honum. Þá voru engar lagaheimildir til að halda honum lengur.

Sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu fór tafarlaust til Grindavíkur, þá er spurðist til skipsins, en er hann kom þangað. var það horfið. Jafnframt sneri dómsmálaráðuneytið sjer þá til „Fylla“ og bað hana að reyna að ná í hið grunaða skip. Það tókst ekki, enda mun skipið þá hafa verið komið langt út fyrir landhelgi. Nú frjettist ekkert af því, en ráðuneytið sneri sjer til allra þeirra lögreglustjóra, er hugsanlegt var, að yrðu varir við það, og bað þá að hafa góðar gætur á því, hvort það kæmi að landi. Gerðu þeir það. Ráðuneytið hafði og stöðugt samband við sýslumennina í Snæfellsnessýslu, Mýrasýslu, Borgarfjarðarsýslu og Gullbr,- og Kjósarsýslu. Svo liðu nokkrar vikur, og lítur svo út, sem skipið hafi hvergi þorað að koma að landi. Að lokum neyddist það til þess að leita hafnar hjer vegna matarleysis og vatnsleysis. Hafði það þá losað sig við áfengið. Þessi kassi, sem háttv. þm. Str. var að tala um, hefir sjálfsagt orðið eftir af misgáningi.

Svo hófst mjög ítarleg rannsókn hjer, en skipstjóri hjelt því fram í fyrstu, að hann hefði kastað öllu áfengi fyrir borð. Loks tókst þó að fá hann til að játa það, að hann hefði sent nokkuð af því í land með vjelbáti. (TrÞ: Hann byrjaði á því að neita öllu). Það er ekki von, að hv. þm. þekki gang slíkra mála. Það er rjett, að hann byrjaði á því að neita öllu. (TrÞ: Og segja ósatt). Já, segja ósatt í byrjun, en það er ekki sjerlega ótítt, að menn, sem sakaðir eru um afbrot fyrir dómi, byrji með því að staðhæfa sakleysi sitt, og við því liggur engin sjerstök hegning. Menn eru ógjarnir á það að játa á sig sök, fyr en þeir eru tilneyddir. Eflaust hefir það verið samkomulag milli skipstjóra og skipverja að segja, að öllu hafi verið fleygt fyrir borð, því að það sama sögðu aðrir skipverjar. En svo játaði skipstjóri að lokum að hann hefði sett áfengi í mótorbát, en neitaði harðlega, að annað eða meira hefði á land farið. Það, sem gerir það líklegt, að þann hafi sagt þetta satt, er það, að allir skipverjar báru hið sama, hver í sínu lagi, smátt og smátt, þótt enginn vissi um framburð hins. En allir hjeldu þeir því fram, að ekki hefði farið meira á land en það, sem þessi mótorbátur tók. Það er næstum því óhugsanlegt, að þeir hafi fyrirfram komist lengra í samkomulagi en að tala um að neita öllu, en ekki hvað játa skyldi. Þrátt fyrir þetta ber þeim öllum saman.

Hver þessi mótorbátur var. upplýstist fyrir stöðuga eftirgrenslan frá dómsmálaráðuneytinu.

En jeg verð að segja háttv. þm. (TrÞ) það, að dómsmálaráðuneytið gekk svo fram í þessu máli, að eigi varð frekara heimtað, jafnvel ekki að ráðuneytið hefði gert sjer jafnmikið ómak. Það er annars ekki vant að heimta, að ráðuneyti taki beint þátt í eftirgrenslun brota. Jeg veit, að bæjarfógetinn í Reykjavík er alveg sannfærður um, að hann hafi komist að öllum sannleikanum í þessu máli, það er að segja, að ekkert hafi verið flutt annað í land af áfengi en þetta, sem fanst, og það er býsna mikið, sem bendir á, að þetta sje rjett, því að á þeim stöðvum, sem skipið kveðst hafa kastað áfenginu, hefir slæðst mikið upp af dunkum með áfengi og sönmleiðis rekið nokkuð. Það eru því allar líkur til að komist hafi verið fyrir brotið til fulls að þessu leyti. Það er altaf hægt að segja, að bannmenn sjeu óánægðir og að almenningur sje óánægður. En jeg hefi ekki orðið var við, að bannmenn, sem við mig hafa talað, hafi verið óánægðir með nema eitt atriði í þessu máli, sem jeg ætla að koma að síðar. Nei, jeg get sagt hv. þm. (TrÞ) það, og jeg þykist geta dæmt um það dálítið, að fyrir þetta mál á dómsmálaráðuneytið ekkert annað en þakkir skilið, og jeg ætla ekki að þakka mjer það sjerstaklega, því að skrifstofustjórinn á sjerstakar þakkir skilið fyrir hvað hann lagði sig mjög fram í þessu máli.

Háttv. þm. (TrÞ) sagði mikla óánægju yfir því, að Kattrup var slept. En jeg get fullvissað hv. þm. (TrÞ) um það, að honum var ekki slept fyr en dómsmálaráðuneytið var orðið alveg sannfært um það, að ekki væri með neinn löglegu móti hægt að halda honum lengur, og í öðru ríki var ekki hægt að taka hann. Í Bergen var það alveg útilokað. Jeg ætla ekki að fara mikið út í þetta, því jeg þykist viss um, að hv. þm. (TrÞ) hafi haldið, að þetta væri hægt; skal því aðeins upplýsa, að það er alls ekki. Lögsagnarumdæmi okkar nær ekki nema dálítið út fyrir landsteinana.

Hvernig stóð á því, að þetta áfengi var afhent, skal jeg ekkert segja um: jeg geri ráð fyrir, að það sje ekki farið eftir svo föstum „formum“, þegar verið er að smygla. Þykir mjer eðlilegt, þegar báturinn kemur út og segist eiga að sækja áfengið, að þá sje honum afhent það, sjerstaklega þegar svona erfiðlega gekk að koma því af sjer; en hvað sem um það er, þá verð jeg að telja það upplýst, að ekkert áfengi var afhent nema þessum mótorbát.

Það, sem háttv. þm. (TrÞ) segir um strandvarnir í sambandi við lögreglu, er heldur ekki rjett. Jeg skal láta hv. þm. (TrÞ) vita það, að hinn umtalaði bátur hefir aldrei verið gerður út af ríkisstjórninni. Gæslubátarnir, sem gerðir hafa verið út frá Gerðum, eða þar suðurfrá, hafa ekki verið gerðir út einu sinni af sýslunefndinni í Gullbringu- og Kjósarsýslu. heldur af hjeraðsbúum sjálfum, og alt, sem ríkisstjórnin hefir haft með bátinn að gera, er, að hún hefir greitt tillag til hans, fyrir umsókn frá sýslumanni Gullbringu- og Kjósarsýslu. Það er því ekki rjett að vera að tala um ábyrgð í sambandi við þennan bát, því ráðuneytið hefir aldrei haft neitt með að gera ráðning formanns eða háseta á þessa báta. En úr því að minst er á þessa atburði, þá er rjett að geta þess, að ráðuneytið hefir ákveðið að ráða sjálft þá menn, er hafðir eru til slíkrar gæslu, enda styrki ríkissjóður hana.

Svo kemur atriðið um mennina í landi. Það hefi jeg drepið á áður, en í sambandi við annað mál. Jeg benti á, að það sýndi sig af skjölum, sem víst áttu ekki að koma í ljós, að mennirnir í landi áttu ekki farminn, en meiningin verið að selja þeim hann, og er líklegt, að þeir hafi verið aðalhvatamenn þess, að farmurinn kom, en úr því að þeir fluttu ekki áfengið til landsins beint eða óbeint, voru í hæsta lagi hlutdeildarmenn, var ekki unt að refsa þeim. Og það er einmitt með tilliti til þessa, að jeg ber fram brtt. við bannlögin, þá brtt., að refsa megi hlutdeildarmönnum. Það var talið, að Björn Gíslason væri viðriðinn, og var hann tekinn fastur, en ekki hægt að sanna neitt upp á hann, er varðaði við lög.

Að mínu viti var öll meðferð þessa máls svo nákvæm og rjett, sem yfir höfuð meðferð á opinberu máli framast getur verið, og þar um get jeg vitni borið, því að mjer er þetta vel kunnugt. Auðvitað á dómari sá, er með málið fór, heiðurinn af því.

Þá nefndi hv. þm. (TrÞ) enn eitt atriði, að einn skipverja á gæslubátnum hafi ekki verið yfirheyrður. Jú, hann var yfirheyrður þar, sem hans varnarþing var. Það var engin heimild að flytja hann frá sínu varnarþingi. Hann var því yfirheyrður af sýslumanninum í Gullbringu- og Kjósarsýslu; hans framburður var alveg hinn sami og hinna, á þá leið, að hann gat ekki talist sekur. En jeg endurtek það, að hann var einnig yfirheyrður. Jeg hefi orðið var við það, að ýmsir bannmenn voru óánægðir yfir því, að þessi maður skyldi ekki vera yfirheyrður hjer, en það var ómögulegt, eins og áður er sagt.

Jeg verð að segja hv. þm. (TrÞ) það, að þetta mál er afskaplega illa valið til að finna að aðgerðum stjórnarinnar fyrir. því að þótt hv. þm. (TrÞ) vildi senda fimm eða níu manna nefnd til þess að rannsaka það, þá skyldi ekki finnast neitt, sem hægt væri að átelja, hvorki ráðuneytið eða lögreglu eða dómara, með rökum. Aftur á móti var meiri ástæða til að spyrja um krossaskattinn; það mál var hjer á ferðinni í fyrra. Tók jeg þá ekki ólíklega í það, því að það eru dæmi til þess, að lagður sje skattur á heiðursmerki, sem innlendir menn fá. Síðan hefi jeg rannsakað nokkuð þetta mál, leitað um það upplýsinga hjá manni, sem þekkir mjög vel til slíkra hluta, og hefir hann sagt mjer, að ekki þekkist dæmi til þess, að lagður sje skattur á erlenda menn, þótt þeim sje veitt heiðursmerki, en þess eru dæmi, að hærri gráður af heiðursmerkjum eru skattaðar innanlands, en lægri gráður eru aftur á móti ekki skattaðar, t. d. ef einhver verður riddari af orðu. Kommandör- og stórkrossmerkjum verða menn stundum að greiða skatt af. Það, sem gæti verið spurning uni, eftir öllum venjum í þessu máli, það væri að láta þá, sem eru stórriddarar eða stór krossriddarar, borga eitthvað í ríkissjóð, en af innlendum mönnum eru þeir svo fáir, að skatturinn yrði afskaplega lítill, svo framarlega sem ekki yrði farið að hafa skattana miklu hærri en nokkurstaðar annarstaðar. Jeg hefi athugað, eftir því sem borgað er fyrir erlendar orður, að það mundi hægt að koma skattinum upp í 400 kr. á ári.

Það er satt, að kostnaðurinn við orðuna hefir orðið nokkuð mikill. En á það er að líta, að það eru venjulega gamlir menn, sem fá slíkar viðurkenningar. Þeir falla frá, og með því að þá er skilað aftur heiðursmerkjunum, verður kostnaðurinn mestur fyrst, og þarf þá ekki að búa til fleiri krossa. Svo er það að athuga, að gjald það, er hv. þm. (TrÞ) nefndi, rennur venjulega ekki í ríkissjóð, heldur rennur það í orðusjóð, sem notaður er til að hjálpa með börnum og ekkjum lát inna manna, sem orður hafa fengið, t. d. dannebrogsmanna og riddara. Hitt, sem áður var til víða, svonefndur metorðaskattur, getum við ekki notað, af því að við höfum engin metorð hjer. Þessvegna hefi jeg ekki sjeð ástæðu til að koma með frv. um þetta.

Svo er þriðja málið. Manntalið frá 1703; það er ekki alveg rjett, sem háttv. þm. (TrÞ) segir um það. Jeg hefi einmitt talað við hagstofustjórann um þetta. Þannig er ástatt, að endurskoðunarmenn safnsins ytra höfðu tekið eftir því, að þetta skjal var í útláni, og með því að tíminn var útrunninn, var útlánið óskað leiðrjett, þannig, að beðið væri um framlengingu á láninu. Það hefir hagstofnustjóri gert, en svarið getur ekki verið komið enn. En það er víst svo, eftir þeirra föstu reglum þar ytra, að endurskoðendurnir athuga hvað úti er. Annars er mjer einmitt nokkuð kunnugt um þetta skjal, því að jeg fór á sínum tíma fram á það, ásamt þáverandi aðstoðarmanni þjóðskjalasafnsins, að ríkið fengi það til eignar, — mig minnir að það væri árið 1920, — en það fjekst aðeins til láns.

Jeg hefi þá upplýst í þessu máli, að það eru ákveðnar reglur, sem safnið fer eftir, og vona jeg þá, að gremja hv. þm. (TrÞ) hverfi út af þessu, því að það er naumast unt að fá skjalið formlega afhent nú, þótt þeir ætli kannske að sleppa skjalinu á sínum tíma, þegar farið er að semja um það. Hvað því viðvíkur, sem hv. þm. (TrÞ) segir, að dregist hafi Óvenjulega lengi að gera nokkuð í þessa átt, þá get jeg ekki kannast við það. Það var byrjað að krefja um skjölin árið 1909, og síðan hefi jeg ekki orðið var við að neitt hafi verið gert frá 1909– 1924, nema hvað við Hannes Þorsteinsson, skjalavörður, gerðum eina tilraun árið 1920. Svo kemur árið 1923 áskorun um að heimta skjölin. Jeg hefi gert ráðstöfun til þess, að íslenski hluti lögjafnaðarnefndarinnar, með aðstoð þjóðskjalavarðar, heimti skjölin. Einn af okkar mönnum í nefndinni er mjög vel að sjer í þessum hlutum. Það var minst á þetta í sumar, og var þá talað um að láta þetta bíða, þar til íslenski nefndarhlutinn þyrfti að fara til Kaupmannahafnar, því að þá kostar það minna og drátturinn verður þá ekki mjög langur, þegar tekið er tillit til alls.

Jeg get þess vegna vísað alveg frá mjer öllum aðdróttunum um það, að jeg hafi látið nokkuð undir höfuð leggjast með að ganga eftir þessum skjölum, og þykist hafa gert það, sem skynsamlegast og ráðlegast var. Jeg hefi svo hugsað mjer, að þjóðskjalavörður færi nokkru á undan nefndinni til Kaupmannahafnar, til þess að undirbúa málið. Jeg hefi ástæðu til að halda, að þetta muni ganga vel, og get, sem sagt, ekki sjeð minstu sök hjá mjer í þessu máli, því hefði maður farið að senda sjerstakan mann til Kaupmannahafnar í þess um erindum, þá hefði það orðið mjög dýrt, sem jeg hygg, að hv. þm. (TrÞ) ekki mundi ætlast til, en á þennan hátt mundi sennilegt, að sem mest yrði á unnið, og það með tiltölulega litlum kostnaði.

Jeg finn mjer að endingu skylt að þakka hv. þm. fyrir það, að hann gerði mjer aðvart um það fyrirfram, um hver málefni hann mundi tala við þetta tækifæri.

Jeg gleymdi ofurlitlu atriði, sem hv. þm. Str. aðeins vjek lítilsháttar að. Að hv. þm. fór svo lauslega út í það mál, tel jeg öldungis rjett, því að það mál er enn fyrir hæstarjetti, — „Veiðibjöllu“-málið. Háttv. þm. Str. sagði, að sá maður, sem dæmdur hefði verið í því máli, gæti naumast verið hinn rjetti eigandi vín birgðanna í skipinu. Um það skal jeg ekkert segja, en jeg vil aðeins benda á, að það hafa fleiri verið dæmdir í málinu. Tveir menn aðrir hafa verið dæmdir fyrir innflutning áfengisins, og enn aðrir tveir menn, sem við málið voru riðnir. Alls hafa því 5 menn verið dæmdir fyrir þetta mál. Og jeg held satt að segja, að það hafi einnig í þessu máli verið farið svo langt sem auðið var af hálfu rannsóknardómarans. Þá var einnig hafin rannsókn í þessu máli í Hafnarfirði, en um það er ekkert upplýst ennþá, hvað úr þeirri rannsókn hafi orðið. Það var aðeins þetta, sem jeg vildi sagt hafa, í viðbót við það, sem jeg tók fram í ræðu minni áðan.