12.03.1925
Neðri deild: 31. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1427 í B-deild Alþingistíðinda. (701)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg get ekki kannast við, að þessar skýrslur, sem sendar voru, hafi verið „vendilega grafnar“, eins og hv. 2. þm. Reykv. komst að orði. Jeg veit raunar ekki með vissu, hvernig þessu hefir verið hagað á fyrra ári. Það getur hv. 2. þm. Rang. (KIJ) upplýst. En skýrslurnar voru að minsta kosti sendar þinginu, og það kalla jeg ekki að „grafa vendilega“. En að birta skýrslurnar opinberlega í heild teldi jeg misráðið, þó auðvitað mætti birta úr þeim útdrætti. Fulltrúinn á að geta sagt trúnaðarmál, en væru skýrslurnar birtar opinberlega, mundi hann segja færra, og því minna gagn verða að. Það er líka allur fjöldinn, sem ekkert hefir með skýrslurnar að gera. Þeir, sem málin varða, hafa fengið að vita alt, sem máli skifti, og jeg býst við, að það verði eitthvað svipað í framtíðinni.

Hv. þm. fanst hæpið, að rjett væri að lögfesta embætti þarna syðra. Jeg veit ekki, hvort honum þykir þá betra að hafa þar mann tíma úr árinu; það verður víst lítið ódýrara.

Að bankamir hafa boðist til að kosta manninn, sýnir, hve nauðsynlegt þeir álíta þetta embætti.

Háttv. þm. var að tala um sparnað. En hjer er svo mikilla hagsmuna að gæta, að það væri alveg óforsvaranlegt að hafa ekki þarna umboðsmann. Til Spánar og Ítalíu fer meira en helmingur af ársframleiðslu okkar. Þar eru staðhættir, verslunarhættir og hugsunarháttur mjög á annan veg en hjer, og jeg tel mjög mikilsvert að hafa þar fulltrúa, sem getur gefið rjettar skýrslur um ástand og horfur. Mjer skilst á hv. 2. þm. Reykv. (JBald), að hann álíti, að frv. sje komið fram vegna hagsmuna ákveðinna manna. En það er ekki rjett. Það er fram komið vegna fiskmarkaðsins yfirleitt, og sjest það best á ráðgerðri hluttöku bankanna í launagreiðslunni.