12.03.1925
Neðri deild: 31. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1431 í B-deild Alþingistíðinda. (705)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. 2. þm. Reykv.(JBald) sagði, að jeg hefði viðurkent, að skjölin hefðu verið grafin. Jeg var nýbúinn að segja, að svo hefði ekki verið, og það kallar hann að viðurkenna. Það er ekki gott að deila við svona menn.

Jeg tók fram, að mjer væri ekki kunnugt um þetta í tíð fyrv. stjórnar, en nú hefir hv. 2. þm. Rang. (KIJ) sagt mjer, að verslunarráðið og Fiskifjelagið hafi fengið útdrætti. Ef þetta á að koma mjer við, þá getur það aðeins verið um síðustu ferðina fyrir áramótin. Jeg álít, að af stjórnarinnar hálfu þurfi ekki meira en að láta Fiskifjelagið hafa útdrátt. Fyrst það gefur út sjerstakt rit, ætti að vera hægt að birta þar það, sem þörf þykir á.

Hv. þm. hneykslaðist á því, að jeg taldi ekki upp, hverja þetta varðaði, og gekk út frá, að jeg meinti aðeins fáa menn. En þetta mál varðar alls ekki alla landsmenn. Margir bændur t. d. munu telja sjer það alveg óviðkomandi. En það væri auðvitað rjett að birta í Ægi það helsta úr skýrslunum. En jeg tek fram aftur, að sumt í skýrslunum er þess eðlis, að ekki er fært að birta það. Og jafnvel þó að bankastjóri Landsbankans komi fram með tillögu um, að skýrslurnar sjeu birtar, þá held jeg því fast fram, að ekki má birta þær í heild. Jeg get getið þess, að í síðustu ferð kom fram mál þannig vaxið, að alls ekki mátti birta það, og er efamál, hvort það má enn.

Hver stjórn gerir sína skyldu, ef hún lætur af hendi útdrátt, sem hún telur að eigi og megi birta. Svo ætti Fiskifjelagið að sjá um birtinguna.

Hv. þm. skaut því fram, að rjettast væri, að bankarnir borguðu öll launin. Mjer finst þeir gera vel að borga sinn þriðjunginn hvor. Það er svo sem ekki eingöngu í þágu bankanna, að þessi maður er sendur.

Hv. þm. gekk út frá, að frv. væri borið fram fyrir einstakan mann. En svo er ekki. Starfinu verður slegið upp og maðurinn ráðinn í samráði við bankana.

Annars kemur það glögt fram hjá hv. þm., að hann álítur ekki um nema einn mann að ræða, — ekki nema einn mann í landinu þessu starfi vaxinn, og skal jeg með ánægju taka tillit til þessara óbeinu meðmæla.