28.03.1925
Neðri deild: 45. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

1. mál, fjárlög 1926

Bernharð Stefánsson:

Jeg gat þess við fyrri hluta þessarar umræðu, að þótt jeg væri meðflm. að brtt. á þskj. 235, sem fer fram á fjárveitingu til heilsuhælis á Norðurlandi, þá myndi jeg að líkindum ekki tala fyrir henni, þar sem fyrsti flm. hennar myndi gera það. Nú hefir hann og gert það, og vildi jeg aðeins undirstrika það, sem hann sagði.

Hann sýndi fram á, hvílíkur áhugi væri vaknaður norðanlands fyrir máli þessu, eins og sæist á því, að menn legðu fram stórfje í þessu skyni, þrátt fyrir aðrar þarfir. Hann sýndi og fram á, að þörfin væri svo brýn, að ekki væri hægt að komast hjá að bæta úr henni. Jeg vildi aðeins bæta því við, að úr því að berklavarnalögin leggja berklasjúklingum þá skyldu á herðar að fara í heilsuhæli eða sjúkrahús, verður hið opinbera einnig að sjá sjúklingunum fyrir slíkum stað. Sjúkrahúsið á Akureyri er fult af berklasjúklingum, sem alls ekki ættu að vera þar, en hins vegar bíða sjúklingar eftir uppskurði og komast ekki að. Sjá allir, að við svo búið má ekki standa.

Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir nokkuð vikið að þessu máli í sambandi við landsspítalamálið. Hann gat þess, að frá sínu sjónarmiði væri lántaka í þessu augnamiði öldungis útilokuð, en benti á það, að ef mönnum sýndist, þá mætti taka til þess varasjóð landsverslunarinnar, ef þingið vildi leggja hana niður. Jeg skal nú ekki fullyrða neitt um það, hvort það sje rjett hjá hæstv. fjrh., að ómögulegt sje að veita fje til heilsuhælis Norðurlands án þess að taka til alveg sjerstakra ráða. En þó að svo væri, að til þess þyrfti að útvega fje á annan hátt en með hinum venjulegu tekjum, þá munu margir álíta, að ekki sje heppilegt að taka til þess varasjóð landsverslunar, með öðrum orðum: að taka eign stofnunar, sem gefur og gefið hefir miklar tekjur í ríkissjóð. Annars tek jeg það fram, að það er ekki ætlun mín með þessu að vekja neinar umræður um það mál. Jeg býst við því, að tekjuhlið fjárlaganna sje svo lágt og gætilega áætluð, að ástæða sje til þess að vona, að þó að þessum styrk til Heilsuhælisfjelags Norðurlands sje bætt við gjöldin, þá þurfi samt ekki neina sjerstaka tekjuhækkun á árinu 1926. En svo er líka annað: þó að jeg sje sammála hæstv. fjrh. (JÞ) um það, að æskilegt sje að borga sem fyrst lausaskuldir ríkissjóðs, og til þess eru nú ætlaðar 600 þús. kr. í frv., þá álít jeg, að þörfin á heilsuhælinu sje svo brýn, að ekki sje horfandi í það að veita þetta fje, og borga þá þeirri upphæð minna af lausaskuldunum. Enda má kalla sæmilegt að greiða afborgun og vexti af samningsbundnum skuldum og að auk miljón kr. af lausum skuldum. En það væri hægt, þó að þessi till. væri samþykt. Og þessa hlið fjárlaganna verður að sjálfsögðu tækifæri til að athuga frekar við síðari umræður hjer. En heilsu hæli Norðurlands má til að komast upp nú. Frá því er ekkert undanfæri lengur, og því vildi jeg enn undirstrika það, sem hv. þm. Ak. (BL) sagði um það mál.

Jeg þarf ekki að svara hv. frsm. (ÞórJ) neinu að því er kemur til þeirra brtt., er jeg flyt hjer. Honum fórust yfirleitt vinsamlega orð um þær. Þó ljet hann svo ummœlt um styrkinn til læknis í Ólafsfirði, að nefndin gæti ekki mælt með honum. Gat hann þess, að landlæknir hefði látið í ljós við nefndina, að enginn læknir mundi fást til þess að fara í Ólafsfjörð. Ef þetta reynist rjett, þá eru því minni útlát þó að till. sje samþykt, því að auðvitað þarf þá ekki til fjárins að taka. En jeg hygg nú, að landlæknir geti ekkert um þetta vitað. Og jeg held, að það sje einmitt þó nokkur von, að læknir fáist þangað, ef hægt er að láta hann hafa 5 þús. kr. laun.

Háttv. frsm. gat þess hvað snerti erfiðleikana við að sækja lækni í Ólafsfjörð, að þeir mundu vera málaðir með fullsterkum litum. En jeg fullyrði það, að jeg skýrði blátt áfram frá ástœðum, án þess að mála það með sterkari litum en rjett er. Það er sagt, að glögt sje gestsaugað. Jeg hefi ekki komið í Ólafsfjörð nema einusinni. Það var nú í haust. Og það, sem einna fyrst vakti athygli mína gagnvart þessari sveit, var það, hversu erfitt og oftlega ómögulegt það væri að ná í lækni þaðan.

Hv. frsm. (ÞórJ) sagði, að nefndinni væri ekki kunnugt um dæmi til þess, að þessir erfiðleikar á læknisvitjun hefðu komið að mikilli sök. Það getur verið, að hv. fjvn. sje ekki kunnugt um það, en jeg veit, að svo er, enda er skýrt frá því í brjefi frá oddvita hreppsins, sem hjer liggur frammi. Það er alment álit þar í firðinum, og auk heldur fullkomin vissa fyrir því, að a. m. k. tveir menn haf þar beðið bana af því, að ekki náðist tíma til læknis.

Viðvíkjandi styrknum til sjúkrahús byggingar á Siglufirði hefi jeg fátt að segja.

Hv. frsm. (ÞórJ) sagði, að nefndinni hefði ekki þótt málið nógu undirbúið. Þá kann að vera, að þar sje í einhverju áfátt. En þó veit jeg, að til er bæði upp dráttur að húsinu og áætlun um kostnað við byggingu þess. Einhver skaut því fram, að áætlun þessi væri ekki ný. En jeg held ekki, að verðlag hafi breyst svo ákaflega mikið á þeim tveimur árum sem liðin eru síðan áætlunin var gerð, að það nemi nokkru. En það, sem mje skildist að hv. fjvn. hefði mest að athuga var það, að ekki væri til nægilegt fje til þess að leggja fram á móti ríkissjóðstillaginu. Jeg hygg, að það sje tekið fram í skjölum, sem hv. nefnd hefir haft undir höndum, að til er á Siglufirði allmikil sjóður, er safnast hefir í þessu augnamiði, 45 þús. kr. Og jeg skil ekki annað en að Siglufjarðarkaupstaður muni hafi nægileg ráð til að leggja fram 15 þús kr. í viðbót, svo að svari 2/3 móti ríkis sjóði. Þó þetta fje sje ekki nú á þessu augnabliki, í kassanum, þá er það harla veigalítil ástæða. En að einu leyti gæti jeg þó unað sæmilega vel við svör háttv fjvn. hvað snertir þetta mál, því að í ræðu hv. frsm. (ÞórJ) kom það fram, að þó nefndin sæi sjer ekki fært að mæls með þessari fjárveitingu í þessum fjárlögum, þá teldi hún þó, að sjúkrahús á Siglufirði ætti að ganga fyrir næst með styrkveitingu úr ríkissjóði. Þetta tek jeg svo, að fjárveiting þessi eigi þá að koma í næstu fjárlögum. Og jeg vil mega treysta því, ef till. verður feld nú, þá standi hún á næsta ári í frv. stjórnarinnar og verði samþykt mótmælalaust af þinginu. Jeg er þá ekki svo sjerlega óánægður, þó að þetta dragist eitt ár, ef vissa er fyrir fjárveitingu næsta ár.

Í fyrri ræðu minni hafði jeg ekki tíma til að minnast á eitt atriði, sem jeg vildi þó drepa á, viðvíkjandi fjárveitingu til vegagerða. Það gladdi mig, að hæstv. stjórn hafði sjeð sjer fært að taka dálitla fjárveitingu til vega, og að háttv. fjvn. hafði ekki aðeins sjeð sjer fært að mæla með till. stjórnarinnar, heldur líka að hækka hana að miklum mun, þar á meðal sett inn fjárveitingu til Vaðlaheiðarvegar. Alt þetta gladdi mig, því að jeg álít, að bættar samgöngur á landi, er reiðvegum er breytt í akvegi, sje hin allra þýðingarmesta framför fyrir landbúnaðinn, sem unt er að gera. Það getur aldrei orðið neitt verulegt úr ræktun landsins nje húsabótum í sveitum, eða öðrum verulegum framkvæmdum í sveitum, nema þær eigi við sæmilega góðar samgöngur að búa. Og jeg hygg, að ef farið er um landið og þetta athugað, þá muni það koma í ljós, að þær sveitir, sem bestar hafa samgöngur, sjeu yfirleitt lengst komnar í framförum. Jeg hefi getað athugað þetta í mínu hjeraði, því að þótt jeg sje ekki gamall maður, þá man jeg þá tíð, að þar var enginn akvegur.

Enn er eitt, sem jeg vildi tala um í sambandi við fjárveitingar til vega, en það er, hve lítið fje stjórnin hefir ætlað til Þelamerkurvegar í samanburði við fjárveitingar til annara vega. Þessi vegur hefir ekki átt upp á pallborðið að undanförnu. En þó að jeg sje ekki allskostar ánægður með það, að þessum vegi skuli ekki vera ætlað eins mikið fje eins og öðrum nýrri vegum, þá get jeg samt ekki annað en verið hæstv. samgöngumálaráðherra (MG) þakklátur fyrir það, að hafa munað eftir honum. Og eftir atvikum hefir mjer þótt rjett að koma ekki með brtt. til hækkunar þeim lið. En það er dálítið annað í þessu sambandi, sem jeg vil leggja áherslu á, og það er það, að undanfarið hefir verið veitt fje til þessa vegar, en oft ekki verið notað. Nú mun jeg gera mig ánægðan með þá fjárveitingu til vegarins, sem í frv. stendur, ef jeg fengi um leið skýlaust loforð frá hæstv. samgmrh. (MG) um það, að fje þetta verði notað til framhalds veginum. Ekki svo að skilja, að jeg efist um, að svo eigi að verða, en jeg vildi þó heyra það af munni hæstv. ráðherra sjálfs.

Það þýðir að vísu ekki að fara út í þá sálma nú, en þó vildi jeg segja það hjer yfirleitt um vegamál, að jeg álít, að sá tími muni koma, og hljóti að koma, að hafist verði handa til þess að leggja akfæran veg eftir landinu. Því takmarkið í vegamálum virðist mjer hljóti að vera það, að akfær vegur verði lagður hjeðan úr Reykjavík norður og austur um land, og að sunnan þannig, að akfær hringbraut verði kringum landið. Fyrsta skilyrðið til þess, að þetta megi verða, er að halda áfram þeim vegum, sem með tíð og tíma verða hluti úr þessum landsvegi. En einn af þeim er Þelamerkurvegur. Auðvitað verður að byrja á þeim hlutum þessa landsvegar, sem liggja um sveitir, en láta fjallaleiðimar bíða í bráð. Sem sagt vil jeg vænta þess, að hœstv. atvrh. (MG) taki þetta til athugunar fyrir næsta þing, og ætli þá ríflega fje til þessa vegar.