16.04.1925
Neðri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (712)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Atvinnumálaráðherra (MG):

Mjer þykir vænt um, hvern veg háttv. nefnd hefir tekið í frv. þetta og þakka henni fyrir það. Er mjer kunnugt um, að það hefir verið mikið áhugamál allra þeirra, sem hlut eiga að máli, að fá fulltrúa þarna syðra. Út af ræðu háttv. frsm. meiri hl. (JakM) hefi jeg lítið að segja. En mjer skildist hann halda því fram, að ferðir fiskimatsmanna til Spánar gætu haft áhrif á fiskverkunina, og er jeg því samdóma, að gott væri, að þeir gætu brugðið sjer suður eftir á hverjum 5–10 árum til að kynna sjer óskir Spánverja í þessu efni og afla sjer upplýsinga um þær breytingar, sem kröfur þeirra kynnu að taka. Háttv. meiri hl. nefndarinnar telur vel fara á því, að launin sjeu ákveðin í lögunum, en hann hefir samt ekki treyst sjer til að ákveða þau. Annars liggur það í augum uppi, að þar sem þrír aðiljar eiga að greiða launin, þá fer ekki vel á því, að einn aðilinn ráði þeim, jafnvel þó það sje sterkasti aðilinn. Annars er nauðsynlegt, að þessu máli sje flýtt. Líður varla sá dagur, að jeg sje ekki spurður, hvort ekki sje hægt að fara að senda fulltrúann suður eftir, og jeg veit, að Íslandsbanki telur mjög nauðsynlegt, að það sje gert fljótt vegna yfirvofandi truflunar á fiskmarkaðinum.

Um birtingu skýrslnanna, sem fulltrúinn sendir heim, þá tel jeg sjálfsagt, að „Ægir“ fái útdrátt úr þeim, en hinsvegar kemur ekki til mála, að þær verði birtar allar, þar sem það myndi leiða til þess, að fulltrúinn segði miklu minna en ella, eða m. ö. o. það, sem allir mega vita. En það er ekki hentugt, að alt komi til almennings, sem hann á að geta trúað stjórninni fyrir.

Þá er það gefinn hlutur, að fulltrúinn muni svara fyrirspurnum Fiskifjelags Íslands og annara, eftir því sem hann kemst yfir og tími vinst til, þó ekki sje hægt að skuldbinda hann í þessu efni. — Hvað viðvíkur mótmælum Landsbankans, sem háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) las, þá er því að svara, að úr því að annar bankinn telur sig hafa hag af sendiförinni, þá má telja víst, að hinn hafi það líka og geti þá eins staðið sig við að borga nokkurt tillag í þessu skyni, þó hann skiljanlega vilji ekki til langframa binda sig í því efni. En það lítur svo út í mínum augum, að ekki sje varhugavert að leggja þessa kvöð á bankann. Mun það sýna sig, að fje það, sem til þessa fer, mun koma margfalt aftur. Er sýnilegur hagur að því fyrir báða bankana að hafa á þessum sjóðum kunnugan mann, sem þeir geta jafnan leitað upplýsinga hjá um það, hvort viðskiftamenn þeirra eigi að selja fisk sinn eða ekki. Það er að vísu satt, að starfið er í þágu alþjóðar, enda er það viðurkent með því, að ríkið tekur á sig 1/3 kostnaðarins. En það teldi jeg varhugaverða braut að fara inn á, að gera sjerreikning fyrir hvern atvinnuveg og kostnað út af þeim. Jeg get ekki skilið, að það geti leitt til neins góðs, hvorki fyrir atvinnuvegina sjálfa nje gott samkomulag í landinu yfirleitt.

Háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) talaði um, hve kostnaðurinn hefði verið mikill af sendiförinni þessi síðustu tvö ár. En það er auðsætt, að kostnaðurinn verður hlutfallslega miklu minni, ef fulltrúinn dvelur um kyrt alt árið, bæði vegna þess, að alt uppihaldið verður mun dýrara hlutfallslega, ef um stuttar dvalir er að ræða, og auk þess skiftist þá ferðakostnaðurinn á færri mánuði. Um brtt. háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) um að fulltrúinn skuli skipaður eftir till. Landsbankans og Íslandsbanka, þá vil jeg aðeins segja það, að till. má ekki vera þannig orðuð, — því hvernig fer, ef bankarnir tilnefna ekki sama manninn ? Þá er miklu nær að láta stjórnina skipa fulltrúann, en láta hana ráðgast við bankana. Hitt er ekki hægt. Eigi t. d. Fiskifjelag Íslands líka að koma með sína till. um valið, þá geta komið fram óþægilega margar skoðanir. Stjórnin hefir þó ekki alveg óbundnar hendur, þar sem til þess er ætlast, að hún ráðgist um við bankana, og ættu menn að láta það nægja. Þá skil jeg ekki heldur, hvers vegna nauðsynlegt er að binda skipun fulltrúans við vissan árafjölda. Það er ekki alveg víst, að á honum þurfi að halda í mörg ár, þó jeg reyndar telji útilokað, að við þurfum hans ekki í 5 ár, og landssjóðs vegna er ekki betra að binda skipunartímann. Tel jeg því ekki ástæðu til að setja ákvæði um þetta í lögin.

Þá segir háttv. þm. V.-Ísf., að það sje jafnan siður, er embætti eru sett á stofn, að ákveða jafnframt launakjörin með lögum. En þetta á sjer samt ekki nærri altaf stað. Auk þess stendur hjer líka svo á, að ríkið er ekki eitt um að ákveða launin. Háttv. þm. (ÁÁ) hefir heldur ekki komið fram með ákveðnar till. um þetta í sinni brtt. Er þar aðeins ákveðið, að föstu launin skuli vera 12 þús. kr. og síðan skal viðbætt staðaruppbót í fjárlögum. Vita og allir, að fulltrúinn kemst ekki af með 12 þús. kr. á ári, en fyrst hámarkslaunin eru ekki ákveðin, þá hefir þetta ákvæði enga þýðingu. Verð jeg því að mæla á móti brtt. hv. þm. (ÁÁ) og óska eftir, að frv. gangi óbreytt til 3. umræðu eins og það fór í gegnum háttv. efri deild.

Helst myndi jeg kjósa, að laun og ferðakostnaður væru ákveðin í einu lagi, svo sjeð yrði, hvað kostnaðurinn yrði mikill allur. Annars er ekki víst, að ríkið greiði allan ferðakostnað fulltrúans. Má vel vera, að hann fari stundum í erindum fyrir einstaka menn vissar ferðir, og þá myndu þeir að sjálfsögðu bera kostnaðinn af þeim. Annars verður hann að haga ferðum sínum eftir því, sem hann sjer nauðsyn bera til. Yfirleitt verð jeg að álíta, að þessum málum sje Best borgið með samkomulagi milli mannsins annarsvegar og stjórnar og banka hinsvegar.