16.04.1925
Neðri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1450 í B-deild Alþingistíðinda. (714)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Jón Baldvinsson:

Jeg þarf ekki að segja mikið að þessu sinni, því að við 1. umr. málsins gerði jeg grein fyrir afstöðu minni. Jeg get ekki fallist á að samþykkja frv., sem liggur fyrir. Þegar fyrst var rætt um að veita fje til erindreka í Miðjarðarhafslöndunum í fjárlögum, þá vildi jeg samþykkja það, af því að hann átti fyrst og fremst að vera til þess að útvega nýjan markað. En jeg skal játa, að jeg hefi ekki heyrt, að mikill árangur hafi orðið í því starfi að bæta markaðinn. En þó svo sje, mundi jeg ekki hafa á móti að veita einhverja fjárhæð til slíks starfs í fjárlögum; en jeg tel ófært að lögfesta starfið. Enda er það nokkuð óviðfeldið fyrir hæstv. stjórn að bera fram þessu lík frv., þar sem hún og flokkur hennar hefir talað svo hátt um sparnað fyrir ríkissjóðinn og móti því að stofna ný embætti.

Þegar um það var að ræða hjer í þinginu, að ríkið tæki í sínar hendur að öllu leyti verslun á fiski, voru menn því andstæðir yfirleitt og frv. var felt með mjög miklum meiri hluta. Nú vilja þeir veit í stóra fjárhæð til þess að hjálpa þeim mönnum, sem fiskverslun stunda, með því að kosta fyrir þá erindreka og embættismenn suður á Spáni. Ekki vil jeg segja, að þetta verði til einskis gagns, en gagnið verður áreiðanlega minna, ef eins verður farið að og gert var með þann árangur af sendimenskunni undanfarið, að þær skýrslur, sem gefnar voru, voru svo að segja grafnar niður, svo menn höfðu enga hugmynd um, hvað kom frá þessum sendimanni. Það bætir lítið úr, þótt embættið verði stofnað, úr því hæstv. atvrh. (MG) vill ganga frá þessu á sama hátt og verið hefir. Hann sagði það reyndar áðan, að hann myndi láta þær skýrslur, sem prenta mætti, koma út í riti Fiskifjelagsins. Eins og kunnugt er, kemur það út einu sinni í mánuði. Vil jeg því skjóta því til hæstv. ráðherra, hvort hann vilji ekki láta dagblöðunum í tje samskonar skýrslur og Fiskifjelaginu, en jafnóðum og þær koma. Því aðeins koma skýrslurnar að gagni. Ef skýrslurnar eru ekki birtar og aðeins örfáir menn hafa aðgang að þeim, þá er það auðvitað hagur þeirra fáu manna, sem í Reykjavík sitja, en allir smærri útvegsmenn víðsvegar á landinu verða útundan.

Jeg fer ekki fram á, að skýrslurnar verði birtar eins og sendimaðurinn gengur frá þeim, en verð á afurðum og markaðshorfur ætti að vera óhætt að láta dagblöðin hafa, en grafa það ekki eins og verið hefir.

Þá vil jeg víkja að skiftingu launanna, sem farið er fram á. Sannast að segja finst mjer nokkuð langt gengið, ef þingið krefst þess, að Landsbankinn taki á sig hinar og þessar útgjaldabyrðar. Jeg aðhyllist þó ekki þá skoðun hæstv. fjrh. (JÞ), sem kom fram á dögunum, að Landsbankinn eigi sig sjálfur og ríkið hafi ekki yfir honum að segja. Jeg álít, að ríkið geti lagt höfuðlínurnar fyrir starfsemi bankans, en jeg álít ekki, að það geti gripið inn í daglega starfsemi hans og skipað honum að lána eða leggja til fjárhæð til hins og þessa, t. d. borga fiskifulltrúa á Spáni, húsaleigu fyrir ræktunarsjóð o. s. frv. Því er líka svo varið, að Landsbankinn hefir neitað að greiða þessa fjárhæð, í brjefi til sjútvn., dags. 27. mars 1925. í aths. við stjfrv. verður ekki beinlínis sjeð, hvort þetta atriði hefir verið borið undir Landsbankann eða ekki.

Samkv. frv. getur embætti þetta haft í för með sjer ótakmörkuð útgjöld. í brjefi eða skýrslu Landsbankans, er jeg nefndi, er kostnaður tvö undanfarin ár við sendimann á Spáni, fyrra árið (1923) 15 þús. kr. og síðara árið rúm 20 þús. kr., í alt að 4 mánuði á ári. Væri nú um heilt ár að ræða, gætu útgjöldin orðið 60–70 og jafnvel 80 þús. kr. Sjerstaklega ef lögð væri áhersla á, að hann væri í eilífum ferðalögum, svo hann dveldi kannske ekki nema mánuð í hvert sinn í hverju landi þar syðra.

Nei, jeg held háttv. deild ætti að fella frv. þetta; en ef mönnum sýndist svo, mætti heldur veita eitthvað í fjárlögum. Hitt skal jeg ekki Segja, hvernig jeg snýst við brtt. hv. þm. V.-Ísaf. (ÁÁ). Jeg skal játa, að þær finst mjer mun aðgengilegri en frv. Vil jeg skjóta því til hæstv. forseta, hvort hann sjái sjer ekki fært að skifta atkvgr. um þskj. 329 þannig, að fyrst sjeu borin upp sjerstaklega orðin: „Á Spáni og Ítalíu skal vera fiskifulltrúi, sem atvinnumálaráðherra skipar.“ Það treysti jeg mjer ekki til að samþykkja, þótt jeg kannske gæti greitt atkv. með því, sem þar fer á eftir.

Út af þeim ummælum háttv. þm. Dala. (BJ) í síðustu ræðu, þar sem hann vildi láta svo líta út, sem sendimaðurinn 1921 hefði sparað okkur aukaþing og 7 milj. kr. í tolli, vildi jeg aðeins segja það, að nokkuð eru skiftar skoðanir þar um. Þeir eru ekki færri, er svo líta á, að sendimaðurinn hafi þá orðið til fult svo mikils ógagns sem gagns.