16.04.1925
Neðri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1455 í B-deild Alþingistíðinda. (716)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Björn Líndal:

Hæstv. atvrh. (MG) hefir í síðustu ræðu sinni tekið fram flest af því, sem jeg vildi sagt hafa; en til þess að gera grein fyrir, hvers vegna jeg greiði atkv. á móti brtt. á þskj. 329, ætla jeg að segja nokkur orð.

Fyrir mjer er það auðvitað altaf nokkuð þýðingarmikið, hvað eitt og annað kostar; en mjer þykir þó ætíð þýðingarmeira, að hagnaður fáist af kostnaðinum, hvort sem kostnaðurinn er meiri eða minni. Þess vegna er það í mínum augum meira vert að fá verulega góðan sendimann á Spáni heldur en það, hvort hann kostar nokkrum þús. kr. meira eða minna. Ef launin eru svo lág, sem gert er ráð fyrir í brtt., er það fyrirsjáanlegt, að enginn dugandi maður til slíkra starfa getur tekið það að sjer án þess það verði fjárhagslegt tjón fyrir hann. Þetta verður áreiðanlega ekki fjárhagslega eftirsóknarverð staða, ef brtt. verður samþykt. Jeg vil heldur borga manni 60 þús. kr., eins og talað var um áðan, til þess að gera þar verulegt gagn, sem getur numið tugum og hundruðum þúsunda eða jafnvel miljónum, vil það heldur en borga 12 þús. kr. til manns, sem ekkert gagn gerir, heldur jafnvel ógagn. Vitanlega kemur engum til hugar í alvöru, að laun þessa manns verði 60 þús. kr. á ári. Það getur verið gott að ákveða launaupphæð í sumum kringumstæðum, en hitt er líka gott, að geta bagað sjer eftir því, hvort völ er á góðum manni í það embætti, sem nauðsynlegt er, að sem best sje af hendi leyst. Þess vegna er betra í slíkum tilfellum, að stjórnin hafi nokkuð óbundnar hendur af lagastafnum. Það kemur oft fyrir hjer á landi, að embætti eru miklu ver skipuð en vera þyrfti, þjóðinni til stórtjóns, — ekki vegna þess, að góða menn vanti, heldur af því, hve lágt þau eru launuð.

Í stuttu máli er mín skoðun í þessu efni sú, að betra sje autt rúm en illa skipað; en þar sem það er nauðsynlegt að halda uppi þessu starfi, þá horfi jeg ekki í nokkrar þúsundir króna, ef hægt er að fá virkilega góðan mann.