16.04.1925
Neðri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1464 í B-deild Alþingistíðinda. (719)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Frsm. (Jakob Möller):

Mjer finst, að óþarflega langar umr. hafi orðið um þetta mál, ekki meira en ágreiningsefnið er.

Samkv. því, sem háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) hefir talað fyrir brtt. sinni við 3. gr., ætlast hann í rauninni til þess, að í framkvæmdinni verði farið eins að eftir sem áður, þó að till. verði samþykt.

Eins og hv. þm. (ÁÁ) sagði, er ómögulegt að ákveða hámarkslaun fyrirfram, nema þá til örskamms tíma, og þess vegna er alveg sama, hvort 12 þús. kr. lágmarkslaun standa í lögunum eða alls ekkert launaákvæði.

Eftir sem áður verða launin ákveðin þannig, að embættinu verður „slegið upp“ síðan semur stjórnin við þann, sem skipaður verður í embættið. Ef sá umsækjenda, sem stjórninni líst best á, gerir svo ósanngjarnar launakröfur, að stjórnin geti ekki að þeim gengið, þá hlýtur hún að reyna við annan. Útkoman verður altaf sú, að launin verða ákveðin með samningi milli stjórnarinnar og hlutaðeigandi umsækjanda.

Ef brtt. háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) verður samþykt, verður sú upphæð launanna, sem er fram yfir 12 þús. kr., sett í fjárlög. Hver er nú munurinn! Formlega ákveður þingið launin að vísu, en í raun og veru verður búið að ákveða þau áður.

Úrræði háttv. þm. (ÁÁ), að bankarnir greiði það, sem á vantar, ef fulltrúinn verður ráðinn fyrir meira kaup en fjárlög heimila, kemur varla til álita. Ef annar bankinn vill fá ákveðinn mann fyrir hærri laun, þá strandar á því, að hinn bankinn vill ekki taka þátt í kostnaðinum, og myndi því ekki greiða meira en hann væri beinlínis skyldaður til með lagafyrirmælum.

Þess vegna yrði það aðeins annar bankinn, sem yrði að bæta við launin því, sem á vantaði, en á því myndi alt stranda.

En til þessa mun reyndar ekki koma, heldur yrði uppbótin tekin upp í fjárlög eftir sem áður. En hvað er þá unnið við að samþykkja brtt. hv. þm. (ÁÁ)! Það eitt, að síðar er hægara að gera embættið að pólitísku bitbeini. Þá er auðveldara að leggja embættið niður þegar á næsta þingi, með því að neita um fjárveitingu til þess. Og hætt er við, að meðferðin verði eitthvað svipuð og með sendiherrann í Kaupmannahöfn. Að vísu stóð svo á um það embætti, að altaf var deilt um nauðsyn þess, en nú virðast allir vera nokkurn veginn sammála um þörf fiskifulltrúans. En þó ekki sje nú deilt um nauðsyn þessa embættis, þá veit enginn, hversu lengi sá friður helst.

Þegar það ráð var tekið að hafa sendiherra í Kaupmannahöfn, var af meiri hl. þings talin nauðsyn embœttisins, en nú er sú skoðun breytt.

Ef það er af viðkvœmni fyrir virðinga þingsins, að hv. þm. (ÁÁ) vill taka stofnlaunin upp í lögin, en síðan ákveða uppbótina í fjárlögum á hverju ári, þá er aðgætandi, að í rauninni ræður þingið launaupphæðinni samkv. frv., þó að það láti annan fara með valdið fyrir sína hönd. Ef þinginu þykir misráðið, hvernig launin eru ákveðin, þá er því innan handar að taka í taumana.

Um brtt. hv. þm. (ÁÁ) við 1. gr., að láta ráða fiskifulltrúann um ákveðið tímabil, er líkt að segja.

Hv. þm. (ÁÁ) sagði, að þessum manni væri sýnd ákaflega mikil tiltrú. Þetta er rjett, og einmitt þeirra hluta vegna er rangt að ráða hann til ákveðins tíma. Vel er hugsanlegt, að maðurinn reynist ekki eins hagsýnn og menn gerðu sjer vonir um, án þess þó að næg ástæða væri til að svifta hann starfinu, ef hann er skipaður til ákveðins tíma. Til þess myndi óhagsýni hans þurfa að nálgast beinan fjárdrátt, en fyr er nauðsynlegt að taka fram fyrir hendur mönnum en svo sje. Þess vegna hygg jeg það vera óheppilegt að skipa fulltrúann til fastákveðins tíma.

Þegar einstakir menn eða einkafyrirtæki þurfa að ráða mann í mikilsvarðandi stöðu, eru launin aldrei ákveðin fyrirfram og kylfa síðan látin ráða kasti, hvort hæfur maður fæst fyrir þessi laun, en ef hann fæst ekki, þá tekinn einhver ónytjungur af götunni. Þetta myndi þykja allsendis óhæfileg ráðstöfun hjá einkafyrirtæki, en sama er að segja um ráðningu manns í opinbera stöðu, sem alt veltur á, að vel takist valið. Þar má ekki stranda á 1000–2000 kr., ef verulega hœfur maður er í boði.

Hv. þm. (ÁÁ) segir, að ekki sje meining sín, að samningar eigi að stranda á svo lágri upphæð, heldur skuli fulltrúanum síðar bætt upp það, sem á vantar. En þá fer sjerstaða hv. þm. (ÁÁ) að verða nokkuð óákveðin og lítt skiljanlegt, hversu mjög hefir tognað úr umræðunum um hana.

Viðvíkjandi afstöðu Landabankans hefir hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) gefið þær upplýsingar, að bankinn mótmæli að taka þátt í launagreiðslu til þessa manns. En það liggur beint við að svara því svo, að þessi maður er engu síður sendur til þess að sjá hag Landsbankans borgið en t. d. Íslandsbanka. Og þó bankinn sje ríkisstofnun, er engin ástæða til þess að undanskilja hann þessu. Aðrir atvinnurekendur, sem hjer eiga hagsmuna að gæta, borga einnig sinn hluta í sköttum, þó ekki sjeu lagðir sjerstakir skattar á í þessu tilefni.

Skal jeg þá loks viðvíkjandi ræðu hv. þm. (ÁÁ) taka það fram, að það er ekki svo auðvelt að ákveða laun þessa fulltrúa. Þó að hægt sje, að fá upplýsingar um laun aðalræðismanna annara þjóða, þá er það ekki sambærilegt. Starfi þessa manns mundi verða svo ólíkt háttað. Þeir hafa t. d. alveg fastan bústað. En þessi fulltrúi getur ekki haft fast aðsetur, ef hann á að geta unnið verk sitt; hann verður að flytja eftir horfum og ástæðum. Hinu má að vísu halda fram, að hann geti haft fast heimili, en ferðast sjálfur. En mundi það ekki draga úr hvöt hans til að vinna, ef hann væri staðbundinn með launakjörum!

Það er því augljóst, að ekki má einskorða launin við það, sem gerist um ræðismenn annara ríkja.