16.04.1925
Neðri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1467 í B-deild Alþingistíðinda. (720)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg er að vona, að umræðurnar fari nú að styttast úr þessu. Að minsta kosti skal jeg gera mitt til að svo verði.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) sagði sem fyr, að launaákvæði ætti að vera í frv. En hans tillaga bætir ekki úr þessu, því hún vísar til ákvæða hinna árlegu fjárlaga. Þegar hámark launa er ekki ákveðið, þá eru launin ekki ákveðin, því að það er ekkert sagt með einhverri lágmarksfjárhæð, sem tilnefnd kann að vera. Það er auðvitað enginn vandi að ákveða part af laununum neðan frá. Það er alt undir því komið, hvaða hámark skuli setja.

Annars vildi jeg óska þess, að frv. yrði ekki hrakið milli deilda og tafið að ástæðulausu.

Um þá brtt. hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), að fiskifulltrúinn skuli skipaður „eftir tillögum“ þriggja aðilja, vil jeg benda á, að þótt jeg telji lögin ekki ónothœf með því ákvæði, þá getur það þó verið óvinsælt fyrir stjórnina að skera úr, ef t. d. 3 tillögur koma um, hver skuli skipaður. Jeg tel nægilegt að lofa bönkunum að benda á, hvern þeir óski skipaðan, en að stjórnin eigi að ráða, hver valinn verður.

Mjer heyrðist á hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), að hann gæfi í skyn, að jeg hefði sagt, að þetta starf mundi ekki þurfa lengur en 5 ár. Það voru ekki mín orð. En jeg sagði, að svo gæti staðið á, að ástæða væri til að kalla manninn heim áður mjög langt liði, og þótt engar líkur sjeu til, að það verði innan 5 ára, þá sje jeg tæpast, að ástæða sje til að taka þetta tímatakmark upp í lögin, ef frv. tekur annars engum breytingum.

Mjer skildist að lokum hv. þm. (ÁÁ) vera mjer sammála um það, að svo gæti staðið á, að einstakir menn greiddu ferðakostnað fulltrúans. Um þetta vil jeg láta laust og óbundið, úr því svigrúm er gefið, og tel líklegt, að svo fari oft, að einstakir menn greiði hann. Ríkið yrði auðvitað að gera það stundum. Jeg vona að lokum, að umræður fari að styttast. Það er oft sorglegt, hve þær dragast á langinn hjer í þinginu.