16.04.1925
Neðri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1470 í B-deild Alþingistíðinda. (722)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Jón Baldvinsson:

Hæstv. atvrh. (MG) var eitthvað að tala um, að jeg væri fylgjandi ríkisrekstri, en mætti þó ekki heyra nefnt, að ríkið skifti sjer af opinberum stofnunum.

Þetta er alger útúrsnúningur á orðum mínum. Það er alveg sitt hvað, að þingið hafi afskifti af bönkunum, og hitt, að sletta sjer fram í daglega starfsemi þeirra. (Atvrh. MG: Þetta er ekki dagleg starfsemi). Jú, það er margt, sem fram hefir komið á þessu þingi um það, að Landsbankinn skuli borga hitt og þetta. Hann á að leggja ræktunarsjóðnum til ókeypis hús o. fl. (HK: Er það lögfest?). Nei, en það er samþykt í frv., og þeir, sem knúðu það fram þá, munu vart taka það aftur síðar. Jeg álít þetta rangt og til stórskaða. Þingið á ekki að láta ýmsar sjerstakar stofnanir ríkisins borga hitt og þetta, sem ríkissjóður á að borga, eins og t. d. landsverslunin var látin kosta erindreka í Ameríku á stríðsárunum. Þetta er að villa sýn um kostnað ríkissjóðs, sýna hann minni en hann í raun og veru er. Það er ekkert á móti því, að Íslandsbanki greiði eitthvað, þar sem hann hefir boðist til þess. En að öðru leyti á ríkið að greiða. laun þessa manns, ef lögin verða samþykt. Annars væri mjer kærast, að frv. þetta yrði felt, þótt jeg hinsvegar búist við, að hæstv. stjórn þvingi það fram. Það er þó í harla litlu samræmi við stefnu hennar! En skjóta vildi jeg því til hæstv. atvrh.

(MG), að svo lítur út, sem umsóknarfrestur eigi ekki að verða langur, ef síma á lögin út til staðfestingar og senda manninn þá þegar. Mjer skilst, að þá eigi ekki margir að fá tækifæri til að sækja um starfið.